12.09.1944
Neðri deild: 48. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 383 í C-deild Alþingistíðinda. (3384)

92. mál, jarðræktarlög

Flm. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti. — Þetta mál, sem ég og hv. þm. V-Sk. flytjum hér nú, er gamalkunnugt hér á Alþ., því að það var flutt hér í Ed. haustið 1943, og hlaut það þar þá meðferð, að því var vísað frá með rökstuddri dagskrá, sem var lögð fram af meiri hl. landbn. og hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Með því að mikið skortir á, að nauðsynlegur undirbúningur undir framkvæmdir þær, sem frumvarpið gerir ráð fyrir, sé fyrir hendi, og í trausti þess, að ríkisstjórnin hlutist til um, að Búnaðarfélag Íslands framkvæmi hið allra fyrsta þessar undirbúningsframkvæmdir og aðrar mikilsverðar athuganir, er ákveðnar hafa verið og lúta að eflingu landbúnaðarins, og að jafnframt verði nægilega margar stórvirkar jarðvinnsluvélar útvegaðar, til þess að reynsla fáist af notkun þeirra og nauðsynleg æfing í meðferð þeirra, telur deildin ekki tímabært að afgreiða frumvarpið á þessu þingi og tekur fyrir næsta mál á dagskrá.“

Síðan þetta var samþykkt í Ed., tók stjórn Búnaðarfélagsins þetta mál fyrir á búnaðarþingi, og var þar sett sérstök mþn. til þess að athuga það. Þessi n. hefur nú starfað mikið og haldið marga fundi, en ýmislegt hefur þó tafið störf hennar, þannig að enn þá hefur ekkert nál. komið frá henni, en það kemur nú vonandi hið allra fyrsta.

Tilgangur okkar flutningsmanna er þó ekki sá að taka ekki tillit til aðgerða búnaðarþings, og ekki heldur sá að taka ekki tillit til nál. þess, sem væntanlega kemur bráðum frá þessari mþn., heldur er hann eingöngu sá að flýta sem mest fyrir afgreiðslu málsins. Málið þolir ekki, að það sé setið lengi á því í n. Það er allt of aðkallandi til þess.

Þegar síðast var gerð athugun á því, hve mikill hluti heyskaparins færi fram á véltæku landi, þá kom það í ljós, að það voru aðeins tvær sýslur, Gullbringu- og Kjósarsýsla, — því að ég kalla það tvær sýslur, — sem tóku meira en helming heyskaparins á véltæku landi:

Kjósarsýsla …………………………………. með 52%

Gullbringusýsla …………………………….. — 51%

Síðan koma þrjár með 40% og þar yfir, þ e.:

Norður-Þingeyjarsýsla ……………………… með 49%

Vestur-Skaftafellssýsla ……………………… — 44%

Borgarfjarðarsýsla ………………………….. — 40%

Þá koma aðrar, þar sem um 2/3 heyjanna er aflað með orfi og ljá, eða:

Rangárvallasýsla ……………………………. með 38%

Austur-Húnavatnssýsla ……………………… — 35%

Mýrasýsla ……………………………………. — 35%

Suður-Þingeyjarsýsla ……..…………………. — 35%

Eyjafjarðarsýsla ……………………………... — 34%

Árnessýsla …………………………………... — 32%

Svo koma enn þá neðar þessar:

Skagafjarðarsýsla …………………………… með 28%

Dalasýsla …………………………………… — 27%

Snæfellsnessýsla …………………………… — 25%

Norður-Múlasýsla ………………………….. — 25%

Vestur-Húnavatnssýsla …………………….. — 23%

Hnappadalssýsla …………………………… — 22%

Suður-Múlasýsla ………………………….… — 21%

Vestur-Ísafjarðarsýsla ……………………… — 20%

Og svo eru þessar sýslur loks með fyrir neðan 20% heyskapar á véltæku landi:

Austur-Skaftafellssýsla …………………… með 19%

Strandasýsla ………………………………. — 14%

Austur-Barðastrandarsýsla ……………….. — 12%

Norður-Ísafjarðarsýsla ……………………. — 10%

Vestur-Barðastrandarsýsla ………………... — 9%

Svo sjá sumir menn ástæðu til þess að býsnast yfir því í útvarpsumr., að það skuli vera dýrara að framleiða landbúnaðarafurðir í þessum héruðum en þar, sem allt heyskaparland er véltækt.

En þetta mál þolir enga bið, og ég hygg, að það ætti þó að geta flýtt fyrir afgreiðslu þess í n., að í landbn. Nd. munu eiga sæti tveir, ef ekki þrír þeir sömu menn og eru í mþn. þeirri, sem búnaðarþing setti í málið. Þessi mþn. ætti nú að reyna að hraða verkum sínum og láta ekki fleiri fundi falla niður hjá sér, heldur reyna að skila áliti sínu hið allra fyrsta. Þegar það nál. kemur fram, ætti líka þegar að vera hægt að gera þær brtt. við frv., sem þurfa þykir.

Ég vil svo gera það að till. minni, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og landbn.