16.01.1945
Efri deild: 103. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1345 í B-deild Alþingistíðinda. (3393)

240. mál, Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins

Frsm. (Haraldur Guðmundsson):

Fjhn. hefur haldið fund um þetta frv. eftir að það var lagt fram og flytur á þskj. 845 brtt. þess efnis, að aftan við 3. gr. frv. bætist nýr málsliður, þar sem svo er fyrir mælt, að Lífeyrissjóður Íslands skuli endurgreiða þeim mönnum. sem samkvæmt þessari grein greiða iðgjöld til Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins fyrir liðið starfstímabil, þær upphæðir, sem þeir hafa greitt í Lífeyrissjóð Íslands fyrir sama tímabil.

Eins og hv. þm. er kunnugt, leiddi það af breyt. þeirri, sem gerð var, þegar l. um tryggingu starfsmanna og embættismanna gekk í gildi, að tala hinna nýju sjóðsfélaga eftir nýju l. varð um 500 eða á 6. hundrað. Þessir menn fá ekki, eftir l. eins og þau eru nú, meðan þeir eru starfsmenn ríkisins, önnur réttindi hjá sjóðnum en þau, sem skapast frá því að þeir byrja að greiða iðgjöld til sjóðsins. Það liggur í augum uppi, að fyrir menn, sem komnir eru á fullorðinsár og hafa starfað í langan tíma í þjónustu ríkisins, er þetta mjög ófullnægjandi, enda hefur það verið talið sjálfsagt, að með þessu verði veitt í að brúa þetta millibilstímabil. Mundu þessir menn, eins og tíðkazt hefur hingað til, verða teknir á 18. gr. fjárl. með eftirlaunagreiðslur, eftir því sem Alþ. ákveður að hverju sinni. Nú getur það komið fyrir, að á tveimur stöðum skuli greiða eftirlaun til sömu manna, og getur það valdið ýmsu misræmi í þessu efni. En til þess er ætlazt samkvæmt 3. gr. þessa frv., að úr þessu verði bætt og þessir starfsmenn, sem eru orðnir nýir sjóðsfélagar, fái sömu aðstöðu og aðrir í Lífeyrissjóði embættismanna, ef þeir greiða iðgjöld 10 ár aftur í tímann, ef þeir hafa starfað svo lengi. Við athugun hefur það komið í ljós, að hér er um svo verulega upphæð að ræða, að ætla má, að það verði nokkrum erfiðleikum bundið fyrir ýmsa að tryggja sér réttindi á þann hátt, ef ekki er létt undir á einhvern veg. Sé miðað við 5 þús. kr. laun sem hámark, þá nemur iðgjaldið 350 kr. á ári og á 10 árum 3500 kr. og með vöxtum og vaxtavöxtum eitthvað yfir 4500 kr., sem ýmsir að sjálfsögðu eiga erfitt með að greiða út að fullu. Hins vegar hafa þessir menn frá því Lífeyrissjóður Íslands var stofnaður á árinu 1936 greitt iðgjöld til hans, persónugjald og skattaálag. En menn í lífeyrissjóði embættismanna voru undanþegnir þessu til Lífeyrissjóðs Íslands. Með þessum brtt. er gert ráð fyrir, að þessum starfsmönnum skuli endurgreitt það, sem þeir hafa greitt í Lífeyrissjóð Íslands í rúm 8 ár, sem þeir hafa greitt til sjóðsins, með það fyrir augum, að þeir njóti þá sömu fríðinda fyrir þetta tímabil eins og meðlimir Lífeyrissjóðs embættismanna ríkisins. Tala þessara manna er rúmlega 500, og við lauslega athugun, sem við höfum gert á því, hve mikið þeir hafa greitt í Lífeyrissjóð Íslands, virðist koma í ljós, að það sé nálega 550 kr. að meðaltali, sem greitt hefur verið af hverjum manni. Sé þetta nær sanni, sem ég hygg að verði, væri þá heildarframlagið nálægt 270–300 þús. kr., og mundi það, eins og ég áðan sagði, létta nokkuð undir þær greiðslur, sem þeir eiga að inna af hendi til þess að fá sambærileg réttindi við eldri sjóðsfélaga.

Fjhn. ber þessa till. fram og er sammála um hana. En mér þykir rétt að geta þess, að ég hef rætt við tryggingarráð, sem hefur með höndum stjórn Lífeyrissjóðs Íslands. Og enda þótt tryggingarráð telji þetta ekki æskilega leið, er mér óhætt að segja það, að það er ekki mótfallið því, að þetta sé gert í þessu tilfelli, með tilliti til þess, að þessir menn verða að fá sömu aðstöðu og meðlimir Lífeyrissjóðs embættismanna hafa haft þetta umrædda tímabil.

Fleira held ég ég hafi ekki að segja, en ég vil mæla með því fyrir n. hönd, að till. verði samþ. og frv. látið ganga fram óbreytt.