06.02.1945
Neðri deild: 122. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1348 í B-deild Alþingistíðinda. (3405)

240. mál, Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. — Eins og hv. frsm. gat um, hef ég skrifað undir nál. með fyrirvara, og vil ég með örfáum orðum gera grein fyrir, hvernig á því stendur.

Ég er að vísu samþykkur tveimur fyrstu gr. frv. Þar er um að ræða leiðréttingar á l., sem ég tel, að þurfi að gera. Efni þessara gr. er í samræmi við till., sem ég ásamt öðrum hv. þm. bar fram á síðasta þingi, þegar þetta mál var til meðferðar, en þá voru felldar í d. En minn fyrirvari snertir 3. gr. frv. og stafar af því, að þótt þess væri óskað, var ekki hægt að fá upplýsingar eða áætlun um, hvað ríkissjóður mundi þurfa að borga mikið vegna þeirra ákvæða, sem í þessari gr. eru, og vegna þess, að ekki er hægt að fá neinar upplýsingar um, þetta, hef ég skrifað undir nál. með fyrirvara og mun ekki taka þátt í meðferð málsins.