15.09.1944
Neðri deild: 50. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 387 í C-deild Alþingistíðinda. (3406)

117. mál, bráðabirgðaverðlag landbúnaðarafurða

Sveinbjörn Högnason:

Ég get eiginlega skilið það að nokkru, að 1. flm. (ÁÁ) vilji ekki vera við og hv. 2. flm. vilji ekki neitt um málið segja, því að mér finnst þetta frv. þannig lagað, að enginn hafi sóma af að bera það fram, allra sízt þeir, sem telja það einn þáttinn í að koma á samvinnu milli stétta og flokka um lausn vandamála. Sjá menn ekki, hvers eðlis það er, að látnir skulu niður falla samningar, sem gerðir eru með löggjöf, sem tilskilur framleiðendum landbúnaðarvara ákveðið verð á vörum þeirra? Það á að fella úr gildi frá 15. sept. til 1. des. þá hækkun landbúnaðarvísitölunnar, sem Alþ. samþ. og á að vera trygging til bænda um það, að þeir fengju eitthvað svipað því, sem aðrar vinnandi stéttir þjóðfélagsins hafa haft á liðnu ári. Nú er vitanlegt, að vísitöluhækkunin, 9,4 stig, stafar af kauphækkun, sem launastéttirnar hafa margar fengið á liðnu ári. Og undir þessari framleiðslukostnaðarlækkun, sem kemur á landbúnaðarvísitöluna, er landbúnaðurinn búinn að standa mestan tímann, sem liðinn er af árinu. Bændur koma ári síðar til að fá sínar launabætur en launastéttirnar. En nú er talið alveg nauðsynlegt að láta þetta niður falla og svíkja samkomulagið meðan verið er að reyna að ná samningum. Mér finnst ákaflega einkennilegt samkomulag á milli flokkanna, ef byrja þarf með því að svíkja samningana, sem fyrir hendi eru. Ef á að fá fulltrúa bænda til að ganga inn á samkomulag um nýja löggjöf, hvar er tryggingin, að ekki eigi að fara með það samkomulag nákvæmlega á sama hátt og nú á að gera? Ég sem fulltrúi bænda treysti mér ekki til að ganga inn á nýja samninga við menn, sem þurfa að svíkja síðustu samninga til þess að þeir verði fáanlegir til að tala um nýja samninga. Ég hygg, að það, sem standi einna mest fyrir því að ná samkomulagi meðal þm. og meðal stétta þjóðfélagsins, sé tortryggnin á allar hliðar, að menn treysta illa hverjir öðrum til að halda það, sem lofað er og samið er um, og slíkt er spilling í opinberu lífi hér á landi, ekki síður en annars staðar í heiminum. Og ég sé ekki betur en að þetta frv. sé boðskapur til manna um, að það þýði ekki neitt að koma á samningum milli stétta og manna um nýtt skipulag í þessu efni, þar sem ýmsir víla ekki fyrir sér að rifta þeim samningum, sem fyrir eru. Það bendir ekki á mikla tryggingu fyrir því, að þeir hinir sömu muni ekki víla fyrir sér að rifta þeim samningum, sem gera skal nú.