15.09.1944
Neðri deild: 50. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 387 í C-deild Alþingistíðinda. (3408)

117. mál, bráðabirgðaverðlag landbúnaðarafurða

Stefán Jóh. Stefánsson:

Ég er dálítið undrandi yfir því, hvað hv. þm. V-Sk. tók þessu frv. með miklu offorsi og andúð, og beitti hann í ræðu sinni skýringum, sem eru fjarri því að fá staðizt. Fyrst hélt hann því fram, að hv. 1. flm. frv. væri ekki viðstaddur af því, að hann vildi ekki við sitt eigið frv. kannast. Við vitum það, sem sitjum á þingi, að oft geta þm. forfallazt frá þingsetu, jafnvel hv. þm. V-Sk. dag og dag, án þess að nokkur beri fram slíkar ásakanir. Þetta er því algerlega að ástæðulausu og út í hött sagt hjá hv. þm., ekki sízt vegna þess, að þessi sami 1. flm. hefur á fleiri en einum fundi í gær — þó að vísu væri ekki í þessari d., heldur í Sþ. — mælt rækilega mjög og skilmerkilega fyrir efni þessa frv.

Þá vék hv. þm. V-Sk. nokkrum stórum orðum að því, að með þessu frv. væri verið að fella úr gildi samninga, svíkja samkomulag, svo að ég noti hans eigin orð. En þetta er meginmisskilningur á frv., eins og þegar var skýrt af hv. l. flm. í gær í Sþ. Það er ekki farið fram á annað með flutningi þessa frv. en að fresta um tiltekið tímabil framkvæmdum í þeim efnum, sem ræðir um í frv., einmitt með það fyrir augum, að gerð verði ýtarleg tilraun til þess að ná samkomulagi um þetta atriði dýrtíðarmálsins eins og önnur. Frv. er beinlínis flutt til þess að auðvelda samkomulagið um aðaldeilumál þingsins. Og það kemur úr hörðustu átt að tala um þetta frv. eins og það sé einhver sérstakur friðarspillir í málinu. Það var einmitt skýrt frá því af hálfu flm., að ef ekki næðist samkomulag innan þess tiltekna tíma, sem í frv. greinir, mundu koma til framkvæmda ákvæði dýrtíðarlaganna frá 1943, sem um þetta fjalla, þannig að málinu var slegið á frest meðan verið er að athuga málavexti. Fer því mjög fjarri, að frv. sé, eins og hv. þm. sagði, boðskapur um, að það þýði ekki að koma á samningum. Þvert á móti mætti segja, að frv. væri boðskapur um, að það ætti að reyna til þrautar að komast að samkomulagi í dýrtíðarmálunum yfirleitt. Það er höfuðástæðan fyrir flutningi þessa frv. af hálfu l. flm., sem hefur gert það í fullkomnu samráði við þann flokk, sem hann er í. Ég vildi leiðrétta þennan misskilning og vona, að hann valdi ekki frekari stórum orðum hér meðal þingheims. Ég teldi langbezt að eyða ekki fleiri orðum að þessu frv. á þessu stigi, heldur vísa því til 2. umr. og fjhn., eins og hv. 2. flm. lagði til. Eins og hann tók fram, var í Sþ. í gærkvöld gerð ráðstöfun til 8 daga um það efni, sem frv. fjallar um. Það veit enginn, hvort samkomulag hefur náðst innan meiri hl. þingsins um endanlega lausn þessara mála innan þess tíma, og teldi ég því eðlilegt, að þetta frv. kæmist svo langt áleiðis, að unnt yrði að láta það verða eins konar framlenging á því, sem gert var í gærkvöld, ef samkomulag hefur ekki náðst að frestinum enduðum. Það er svo langt frá því, að af hálfu okkar Alþfl.manna, sem að frv. stöndum, sé meint að spilla nokkuð friði milli nokkurra flokka, heldur þvert á móti er tilgangurinn að greiða fyrir því, að málin verði rædd, ef unnt væri að komast að einhverju samkomulagi.