15.09.1944
Neðri deild: 50. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 390 í C-deild Alþingistíðinda. (3415)

117. mál, bráðabirgðaverðlag landbúnaðarafurða

Sveinbjörn Högnason:

Það getur verið örstutt, af því að hv. 2. þm. N.-M. hefur tekið fram það, sem ég ætlaði að segja. Það hefur vitanlega alltaf gilt, að þegar frestað hefur verið framkvæmd l., þá hafa þau verið gerð óvirk þann tíma. Ég er hv. 4. þm. Reykv. sammála um, að það er hægt að bæta frv. með brtt., og það var það, sem ég sagði. Ég get vel hugsað mér, að ég geti fallizt á frv. með því móti, að sett verði inn í það, að samhliða skuli fresta framkvæmd dýrtíðarvísitöluuppbótar til allra launþega í sama hlutfalli og hér er ráðgert með bændur. Nú er búið að fresta greiðslum á þessum uppbótum í heilt ár, og þegar á að láta þessar greiðslur koma til framkvæmda lögum samkvæmt, þá finnst þessum mönnum ekki gera mikið til, þó að bændur séu — með beztu skýringu á ákvæðum frv. — látnir bíða nokkuð enn eða þó að þessar greiðslur séu jafnvel látnar alveg falla niður. Ef þetta á að mynda undirstöðu undir allsherjar samkomulag, þá er ekki mikið, þó að frestað sé um stutt tímabil að greiða hluta af uppbótum, sem hafa verið greiddar til fulls í heilt ár, því að það mundi sýna, að hér væri um samræmi og réttlæti að ræða. Ef hv. 4. þm. Reykv. álítur þetta undirstöðu undir allsherjar samkomulag milli verkamanna og framleiðenda í sveitum, þá get ég fullvissað hann um, að fulltrúar bænda vilja ganga inn á slíkt samkomulag, sem farið er fram á í þessu frv., ef sama á að ganga yfir verkamenn og aðra, sem taka laun. En það, sem farið er fram á hér, er það, að frestað sé um óákveðinn tíma samningum, sem nú hafa ekki verið framkvæmdir í heilt ár, þó að hinir fái allt greitt upp jafnóðum, og svo er talað fagurlega um samkomulag og samkomulag, en meðan menn sýna slíkt hugarfar, þá er sjáanlegt, hvert stefnir.