29.01.1945
Neðri deild: 114. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1349 í B-deild Alþingistíðinda. (3419)

269. mál, lendingarbætur í Grunnavík

Flm. (Sigurður Bjarnason):

Herra forseti. Frv. það, sem ég flyt ásamt hv. 5. landsk. þm., um lendingarbætur í Grunnavík, er flutt samkv. ósk hreppsnefndar Grunnavíkurhrepps. Í Grunnavík hefur verið nokkur vélbátaútgerð um alllangt skeið, án þess þó, að þar hafi verið gerðar lendingarbætur, nema lítil steinbryggja. Nú mun það vera svo, að þessar lendingarbætur þurfi að fullkomna og bæta nokkuð. Og þess vegna hefur hreppsnefndin þar falið okkur flm. þessa frv. að leita heimildar hjá hæstv. Alþ. til handa ríkisstj. til þess að ábyrgjast, fyrir hönd ríkissjóðs lán allt að 15 þús. kr. til framkvæmda í þessu skyni.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fara um þetta frv. mörgum fleiri orðum. Þær upphæðir, sem teknar eru í 1. og 2. gr. þess, eru teknar upp í samráði við vitamálastjóra, sem hefur miðað þær við þær framkvæmdir, sem hreppsbúar hyggjast að gera að lendingarbótum þarna á komandi sumri. Það skal tekið fram, að fyrir liggja 15 þús. kr. óeyddar, sem Grunnavíkurhreppur á, af því fé, sem þegar hefur verið veitt til þessara lendingarbóta á fjárl. Það, sem því er meginkjarni þessa frv., er, að aflað verði ríkisábyrgðar fyrir láni, sem Grunnavíkurhreppur þarf að taka til þess að geta lagt fé fram á móti þessum 15 þús. kr. frá ríkissjóði.

Við flm. höfum, til þess að greiða fyrir afgreiðslu málsins á þessu þingi, aflað okkur umsagnar vitamálastjóra, sem fylgir þessu frv. sem fylgiskjal. — Það er ætlan okkar og eindregin tilmæli hreppsnefndar Grunnavíkurhrepps, að þetta mál geti fengið afgreiðslu nú á þessu þingi. Ég vil þess vegna mjög mega mælast til þess við hv. sjútvn., að hún hraði afgreiðslu þessa máls svo sem verða má, þannig að hægt verði að ljúka afgreiðslu þess á þessu þingi.

Leyfi ég mér svo að óska þess, að málinu verði, að lokinni þessari umr., vísað til 2. umr. og sjútvn.