15.09.1944
Neðri deild: 50. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 392 í C-deild Alþingistíðinda. (3425)

117. mál, bráðabirgðaverðlag landbúnaðarafurða

Sveinbjörn Högnason:

Mér hefur jafnan fundizt jafnaðarmennska og jafnrétti vera fögur hugsjón, en um þá jafnaðarmennsku, sem hv. þm. Hafnf. er hér að prédika, vil ég segja: Guð varðveiti mig frá henni. Inntakið í ræðu hans var það, að ef illa hefur verið farið með einhvern í þjóðfélaginu og lagzt á hans hlut, þá er sjálfsagt, að eigi að leggjast enn þá meira á hann, láta það verða enn þá meira en áður. Þetta er nú jafnaðarstefna hv. þm. Hafnf. Ég vil segja, að þetta er sú mesta óréttis- og yfirgangsstefna, sem enn hefur heyrzt í sölum Alþingis. Hann álítur, að hér sé mjög ólíku saman að jafna, verkamenn fái laun sín greidd vikulega með öllum uppbótum, þá megi alls ekki hreyfa neitt við þeim, nei, nei, en fyrst bændur hafi ekki fengið sínar lögmæltu uppbætur greiddar í heilt ár, þá sé um að gera að gera muninn enn meiri, og þá geri ekkert til, þó að þeir séu látnir bíða enn lengur, þá muni ekki mikið um það. Hvernig hugsa svona menn? Ég skil ekki, hvernig jafngreindur maður og hv. þm. Hafnf., sem telur sig jafnaðarmann, getur borið slíkt fram hér á Alþ., að fyrst bændur hafi orðið að bíða lengur og fá miklu síðar greitt, það sem þeim ber, þá megi þeir fremur bíða en hinir, sem fá allt greitt á fárra daga fresti, og það sé hreinasta goðgá að ætla nokkuð að hreyfa við þeim. Ég skil ekki svona hugsunarhátt og það frá jafngreindum manni og hv. þm. Hafnf., sem telur sig þar á ofan jafnaðarmann, því að mér skilst, að í þeirri hugsjón felist, að allir þegnar þjóðfélagsins eigi að vera jafnréttháir. Ég hef skilið það svo til þessa, en ég fer að efast um það, þegar ég heyri þann boðskap fluttan, að fyrst bændur hafi beðið svo lengi eftir sínum lögboðnu greiðslum, þá sé rétt að láta þá bíða enn lengur, fresta greiðslunum enn um stund og með öllu óvíst, hvort þeir fái þær nokkurn tíma. Þetta er beint hnefahögg, ef fara á þannig með þá stétt, sem verst hefur verið farið með og ekki hefur fengið greitt samkvæmt því samkomulagi, sem nú gildir samkvæmt l., því að það er mikið ógreitt af því, sem bændum ber lögum samkvæmt. Þeir hafa aldrei fengið allt, sem þeim ber samkvæmt samkomulagi sex manna nefndarinnar. En í staðinn fyrir að gera leiðréttingu á því misrétti er því nú haldið fram sem einhverri sérstakri jafnaðarmennsku, að fyrst þeir hafi beðið svo lengi eftir sínum rétti, þá eigi þeir að bíða enn.