15.09.1944
Neðri deild: 50. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 394 í C-deild Alþingistíðinda. (3429)

117. mál, bráðabirgðaverðlag landbúnaðarafurða

Skúli Guðmundsson:

Eins og menn muna, voru sett hér lög árið 1943 um dýrtíðarráðstafanir, og samkvæmt þeim l. skal vera það hlutfall milli vinnulauna og afurðaverðs bænda, sem 6 manna nefndin reiknaði út, að hæfilegt væri. Um þetta hlutfall var fullt samkomulag í n., og Alþingi hefur alls ekki séð sér annað fært en ganga út frá því samkomulagi og hefur heimilað ríkisstj. aðgerðir og fjárframlög í því skyni, að þetta hlutfall héldist.

Nú hefur hagstofan reiknað út, að verð landbúnaðarafurða til framleiðenda þurfi að hækka um allt að 10% frá 15. eða 16. þ. m. til þess að tekjur þeirra verði hliðstæðar tekjum annarra vinnandi manna. En hér liggur fyrir frv. um að láta niður falla þessa hækkun fyrst um sinn, til 1. des. eða í 2½ mánuð. Formælendur frv. segja að vísu, að allt annað vaki fyrir sér, aðeins frestun á að greiða þetta. Látum það gott heita, þó að það verði ómögulega séð af frv. En það, sem mér þykir furðulegast í málfærslu þessara manna, er, að þeir telja nauðsyn að samþ. þessa frestun til að greiða fyrir, að nýir samningar takist milli stéttanna og ýmissa aðila um dýrtíðarmál og önnur vandamál, sem úrlausnar krefjast. Þetta er einhver furðulegasta röksemd, sem ég hef heyrt. Hv. þm. Hafnf. (EmJ), sem nú var reyndar að ganga út eftir að hafa flutt 2 mjög merkilegar ræður, sagði, að framsóknarmenn vildu fá málinu slegið einhliða föstu áður en samningar hefjist. Mér er ómögulegt að skilja, hvað hann á við með þessu. Ef samningar skyldu takast um það innan skamms tíma að lækka eitthvað verðlag á landbúnaðarfurðum á innlendum markaði og jafnframt um, að kaupgjald lækki smátt og smátt, væri samþykkt þessarar þál. þeirri lækkun alls ekki til fyrirstöðu. Við skulum segja, að þessir samningar tækjust. Þá kæmu þeir strax til framkvæmda, fyrirmæli yrðu sett í samræmi við þá og ákveðið að sínu leyti eins og í l. frá í fyrra, hvað bændur eigi að fá fyrir sínar vörur. Ég veit því ekki, hvað hv. þm. Hafnf. er að fara með ummælum sínum, þótt við höldum því fram, að standa eigi við samninga frá 1943, sem Alþingi hefur staðfest með l. til að gilda, þangað til aðrir verði gerðir. Sami hv. þm. var að spyrja, hvort búið væri að borga út úr ríkissjóði uppbætur ársins 1943. Ég get upplýst hann um, að ríkissjóður er ekki búinn að greiða það, sem honum ber að greiða á útfluttar landbúnaðarafurðir ársins 1943, svo sem kjöt. Um niðurgreiðslu verðlags á innlendum markaði mun öðru máli gegna.