22.09.1944
Neðri deild: 54. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 396 í C-deild Alþingistíðinda. (3437)

132. mál, sala mjólkur og rjóma o.fl.

Flm. (Jón Pálmason):

Herra forseti. — Þetta frv., sem hér liggur fyrir á þskj. 335, er samhljóða frv., sem ég og hv. þm. Snæf. fluttum á síðasta þingi og náði þá ekki afgreiðslu.

Ég get verið fáorður um tilgang þessa frv., vegna þess að hann er tekinn fram í grg. þess og málið var hér nokkuð rætt á síðasta þingi. Það fór þá til hv. landbn., en frestað var að taka ákvörðun um það þar, í von um, að það væri ákveðið áður en næsta þing kæmi saman, hvaða breyt. sú n. gerði tillögur um, sem ákveðin var til að gera till. um breyt. á mjólkurlögunum.

Nú er það svo, að mjög mikill áhugi er í þeim héruðum, sem hlut eiga að máli í þessu efni, sem eru Snæfellsnes- og Hnappadalssýsla, Dalasýsla og Húnavatnssýslur, um að fá úr því skorið, hvort von er til þess, að þær geti komizt inn á verðjöfnunarsvæði Reykjavíkur og Hafnarfjarðar og fengið þau réttindi, sem framleiðendur mjólkur á því svæði njóta, því að það er undirstaða þess, að þessi héruð fái þau réttindi, að unnið verði að því, að breytt verði um búskaparháttu þar frá því, sem nú er. Það verður ekki gert í einni svipan, heldur þarf nokkurn undirbúning til þess að koma breyt. á. En á þessum svæðum er nauðsynlegt að gera þá breyt. á búnaðarháttum, eins og sakir standa nú, að framleiðendur þar geti notið þeirra hlunninda, sem aðstaða til mjólkursölu til Reykjavíkur og Hafnarfjarðar skapar, vegna þess að framleiðslan á þessum svæðum er svo einhæf og lítil vegna fjárpestar, sem þar hefur geisað, meira en víða annars staðar á landinu.

Mál þetta er einfalt, og ég geri ráð fyrir, að hv. þm. hafi kynnt sér grg. frv., og málið var hér í þinginu í fyrra. Vænti ég þess, að menn sýni nú þá víðsýni að samþ. þetta frv. eða a. m. k. að gera þá aðrar þær ráðstafanir, sem tryggja, að hægt sé að byrja á þeim undirbúningi, sem nauðsynlegur er á þessu svæði til þess að mjólkurframleiðslan geti aukizt.

Vænti ég, að frv. verði, að lokinni þessari umr., vísað til hv. landbn.