22.09.1944
Neðri deild: 54. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 407 í C-deild Alþingistíðinda. (3447)

132. mál, sala mjólkur og rjóma o.fl.

Atvmrh. (Vilhjálmur Þór):

Herra forseti. — Ég verð að segja það, að mig undrar það, að þessi hv. þm. skuli vera að gera athugasemd við þær skýringar, sem ég gaf, og telja þær vafasamar.

Hann gerir hér fyrirspurn til mín alveg fyrirvaralaust, og svo þykist hann vera undrandi yfir því, að ég skuli ekki koma með tölur, en ég hef engar tölur um smjörframleiðsluna liggjandi hér á borðinu hjá mér. Hann var að tala um, að ég hefði gefið lítið skeleggt svar, en svo kemur hann nú með nýja fyrirspurn, einnig alveg fyrirvaralaust, og óskar svars við henni. Það verður að hafa það, þótt hv. þm. hafi fundizt svar mitt loðið, en ég vona, að flestum hv. þm. hafi fundizt það nægilega skýrt og eðlilegt. — Viðvíkjandi fyrirspurn þessa hv. þm. um það, hvers vegna erlenda smjörið væri selt sama verði og það innlenda og umtal hans um það, að ríkisstjórnin aki því þannig til, þá vil ég segja það, að samkvæmt l., sem Alþ. hefur sett, þá má ekki flytja neinar mjólkurafurðir inn í landið nema með leyfi mjólkurverðlagsn. og ekki selja þær hér nema með þeim skilyrðum, sem sú stofnun setur. Ég er sjálfur ekkert hissa á því, þó að mjólkurverðlagsn. vilji ekki fallast á það, að þegar ekki er hægt að framleiða hér smjör fyrir það verð, sem sett er á það, þá megi flytja hingað inn erlent smjör og selja það lægra verði til þess að eyðileggja alveg framleiðslumöguleika fyrir íslenzka smjörið. Ástæðan fyrir þessu verði á ameríska smjörinu er því sú, að það má ekki flytja inn, nema með leyfi mjólkurverðlagsn., og hún leyfir það því aðeins, að það verði ekki til skemmda fyrir framleiðsluna innanlands.