22.09.1944
Neðri deild: 54. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 407 í C-deild Alþingistíðinda. (3448)

132. mál, sala mjólkur og rjóma o.fl.

Jörundur Brynjólfsson:

Herra forseti. — Af því að hv. þm. V-Sk. hefur nú einn haldið uppi svörum út af þessu máli, þá vil ég nú bæta við það nokkrum orðum. Ég vil þó engan veginn deila við hv. flm., en þetta frv. gefur tilefni til þess að minnast ýtarlega á málefnið. Hv. þm. Vestm. lét í ljós undrun sína yfir því, hve lítið íslenzkt smjör væri til á markaðinum og hve mjög skorti á, að landsmenn fengju eins mikið af þeirri vöru eins og þeir vildu kaupa og þyrftu með. Það er rétt hjá honum, að mikið skortir á það, að landsmenn hafi nægilega mikið af þessari vöru, en orsakir eru til alls. Það er engin hending, að framleiðsla þessarar vöru hrekkur ekki fyrir þörfum landsmanna, og það er mesti misskilningur hjá hv. þm. A-Húnv., að það stafi af því, að ekki sé stækkað framleiðslusvæði neyzlumjólkurinnar. Það er annað og meira, sem þarf að athuga. Hv. þm. Vestm. furðaði sig á því, að þar sem þessi vara væri svo dýr, þá skyldi þó ekki vera nóg til af henni. En ef menn kynna sér betur, hvernig ástatt er um málið, þá hætta þeir að furða sig á þessu. Undanfarin ár hefur verið svo mikil eftirspurn eftir vinnuafli, að allir þeir, sem eitthvað hafa getað unnið og nennt að vinna, hafa haft yfirfljótanlega nóg að gera. Afleiðingin af því er sú, að menn hafa næstum því getað fært sig til eftir því, sem þeir hafa óskað, og komizt að þeim starfa, sem þeir hafa helzt kosið. Ef litið er svo á tekjur þær, sem menn hafa haft fyrir sín störf, þá eru þær miklar við allt annað en landbúnað. Þeir, sem við hann hafa unnið, hafa ekki borið eins mikið úr býtum og aðrir. Frá því eru aðeins örfáar undantekningar og það eru þeir búendur, sem hafa setið næst markaðinum, en allur fjöldinn hefur borið miklu minna úr býtum en þeir. Ég skal nú undireins færa sönnur á, hvernig þessum málum er háttað. Gamla venjan, sem gilti nokkurn veginn fram á milli áranna 1920–1930, var sú, að þeir kaupamenn, sem tóku kaup sitt í smjöri, en það var talinn einn sá bezti gjaldmiðill, sem völ var á, þeir fengu tvo fjórðunga smjörs í kaup og það var það hæsta, sem um var talað. Ef þessu væri nú svo háttað, þá væru þeir, sem tækju kaup sitt í smjöri, ekki nema hálfdrættingar á við þá, sem taka peninga fyrir sína vinnu. Af þessu geta menn séð, hvort það sé sambærilegt að framleiða smjör nú miðað við það, sem áður var. Ég drep á þetta rétt til þess að sýna, hvernig þessum málum er háttað, en ef menn vilja ekki leggja upp úr þessari fornu reglu, þá skal ég taka annað dæmi, og það er búfjáreign þeirra, sem vinna við landbúnaðinn.

Eftir að eftirspurn og kaupgjald hafði hækkað svo mjög, var það víða um landið, að þessar gripaeignir lögðust niður eða minnkuðu mjög mikið, og var það af eðlilegum ástæðum. Þeir, sem höfðu stundað þetta meira og minna í hjáverkum sínum, sáu, að með því að hætta algerlega þessum störfum og gefa sig að þeirri vinnu, sem borguð var í peningum, höfðu þeir miklu meira í aðra hönd. Gripu því margir tækifærið, hættu þessum störfum og gerðust daglaunamenn. Þetta veit ég, að hefur víða átt sér stað, og eins og hv. þm. Vestm. er vel kunnugt, hafa búseignir manna í Vestmannaeyjum gengið mjög saman þessi ár. (JJós: En þess ber að gæta, að það stafaði af sjúkleika). Hefði það eingöngu stafað af sjúkleika, mundu menn hafa aflað sér gripa að nýju og haldið áfram með sinn búskap, hefði ekki annað verið með í spilinu, sem var arðvænlegra og þeim hefur þótt betra. Það hafa margir þá sögu að segja, fyrst og fremst í sauðfjárræktinni og einnig í nautgriparæktinni, að þeir hafa orðið fyrir einhverjum óhöppum og átt við erfiðleika að stríða og hafa þó ekki orðið fyrir þeim skakkaföllum, að það hafi riðið þeim að fullu eða þeir hafi lagt árar í bát. Höfuðorsök þess, hvað gripahald hefur minnkað hjá þessum mönnum, er sú, að það borgar sig betur að vinna annars staðar, og það er ekki hægt að lá mönnum þetta. Það mun vera talinn sá algildi mælikvarði, að menn sitji við þann eldinn, sem bezt brennur, þessir menn eins og aðrir. En þá er líka fengin skýring á því, hvers vegna framleiðslan hjá öðrum framleiðendum hefur staðið í stað, því að þessir menn, sem þannig hafa breytt um atvinnu, hætta ekki að drekka mjólkina eða borða smjörið og skyrið og aðrar mjólkurvörur, og þá er það auðvitað hinna, sem halda starfinu áfram, að fullnægja þeim eins og öðrum. Ég hélt, að hv. þm. væri kunnugt, að mönnum þarf ekki að koma það undarlega fyrir sjónir, þó að framleiðslan dragist saman hjá þeim framleiðendum, sem hafa þetta algerlega sem sinn atvinnuveg sér til bjargræðis, og nú í 2–3 sumur hefur alls ekki verið hægt að fá fólk til að afla fóðurs handa búpeningnum. Hann hefur því gengið saman e. t. v. nokkru minna en ástæða var til, en eigi að síður mjög mikið. Mjög margir bændur hafa verið bornir þeim brigzlum, að þeir séu svo værukærir eða dragi sig í hlé við störf sín. Ef fara ætti út í þá sálma, held ég, að þörf væri á að hafa það eins við fleiri stéttir en bændastéttina. Það eru vitaskuld mikil takmörk fyrir því, hvað hægt er að framfleyta af búpeningi án mannafla, þótt vélar séu notaðar til þess að létta undir, og það þarf fólk til þess að stjórna þeim og vinna með þeim, og allir vita, að núna undanfarin 2–3 sumur hefur ekki verið nema nokkurt brot af fólki við þetta verk, miðað við það, sem áður var. En með því verki er algerlega lagður grundvöllur undir búpeningshald landsmanna, sem þá atvinnu stunda. Á því hvílir hún. Hjá okkur hefur skort mjög í þessum efnum, og þar með hefur gengið saman búpeningur landsmanna, einkum þær gripategundir, sem þurfa mikið fóður, þ. e. nautgripir og sauðfé víðast um land. — Þarna hygg ég nú, að sé fundin fullkomin skýring á hinum mikla smjörskorti í landinu. Ég heyri, að við höfum sama smekk á útlenda smjörinu hv. þm. Vestm. og ég, og þótti mér vænt um að heyra, að hann leggur það ekki til jafns við það smjör, sem nú er til hjá okkur. Það skortir líka mikið á gæði, ekki eingöngu hvað snertir smekk, heldur líka vörugæði að öllu leyti, og að því leyti má segja, að neytendur kaupi þá vöru nokkuð dýru verði, en þar liggur annað til grundvallar, sem ég ætla mér ekki að fjölyrða um. Þó er skýring fengin á því, hvers vegna hægt er að fá þessa vöru ódýrara en íslenzka smjörið, og því minni ástæða til að kvarta, þó að miklu betri vara sé seld nokkuð hærra verði en hægt er fá þessa gölluðu vöru. Og ég verð að segja, að það viðbit, sem selt er hér annað, smjörlíkið, er svo lélegt til manneldis, að vandræði mega teljast, að nokkur maður skuli þurfa að leggja sér það til munns. Ég er sannfærður um, að ekkert kysi bændastéttin fremur en að geta fullnægt eftirspurn neytenda og framleitt eins mikið af þessari vöru og landsins börn þurfa með, og ég vil vona, að eftir þeim kunnugleika, sem ég veit, að þingmenn yfirleitt hafa, taki þeir ekki undir þær Gróusögur, sem alltaf annað veifið skjóta upp kollinum um það, að til muni vera birgðir af þessari vöru í landinu, sem menn ætli sér að geyma til seinni tíma. Hvað sem líður hugarfari manna í þessum efnum, veit ég sannast að segja ekki, til hvers það ætti að vera. Ég held, að bændastétt landsins sé ekki svo hrifin af þeirri spennu, sem nú á sér stað, að hún telji æskilegt að geyma þá vöru. Það er aðeins til ein skýring, og hún er sú, að ekki er meira til af þessari vöru. Samhliða þessu má benda á það, að nú hefur bætzt svo mikið við neytendahópinn frá því sem áður var. Það er ekki langt síðan Reykjavík var fullnægt með fyrir innan 20 þús. lítrum á dag, ef miðað er við eðlilega mjólkurneyzlu. Ef ætti að fullnægja mjólkurneyzlu bæjarins nú eftir íbúatölu, ætti að þurfa að selja hér daglega um 30 þús. lítra, sem erlendis er talið, að sé æskileg mjólkurneyzla til þess að lifa heilbrigðu lífi. Nú mun mjólkurneyzlan ekki vera svo mikil hér, og mun láta nærri, að hún hafi oft verið 25–26 þús. lítrar á dag, en mætti ekki vera minni en 30 þús. lítrar, ef menn neyta eins mikillar mjólkur og þeim er nú talið hollast.

Þá vil ég víkja nokkrum orðum að því, sem fram hefur komið viðvíkjandi því frv., sem fyrir liggur. Hv. þm. A-Húnv. er þeirrar skoðunar, að það ætti að vera löggjafans að ákveða verðjöfnunarsvæðið. Ég er þar algerlega á öndverðum meiði við hv. þm., nema því aðeins, að það ætti að verðjafna þessa sömu vöru um landið allt, og stafar það af því, að ef þingið ætti að ákveða þetta fyrir fram, gæti það ekki verið nema að miklu leyti handahóf. Það er ekki hægt að rökstyðja þetta frv. með því, að mjólkurverðjöfnunarsvæðið þurfi að vera svo stórt. Á s. l. hausti, þegar mjólkurskorturinn var mestur, munu það hafa verið um 1700 lítrar, sem á skorti, þegar eftirspurnin var mest, og var talið af kunnugum mönnum, að þessa mjólkurskorts hefði gætt meira fyrir það, að menn voru hræddir um, að mjólkin væri of lítil, og keyptu meiri mjólk en þeir voru vanir til þess að tryggja það, að þeir hefðu nóg. Afleiðingin af þessu varð sú, að einstaka heimili urðu hart úti og fengu máske ekki nema lítinn hluta af því, sem þau hefðu komizt af með minnst. Aftur önnur heimili höfðu miklu meira en þau þurftu með og voru vön að kaupa. Þetta er vitanlega sú venjulega regla, sem ætíð segir til sín, þegar of lítið er af einhverri vöru á markaðinum og menn hafa möguleika til að kaupa meira en þeir þurfa að jafnaði. Það er ekki sérstakt fyrir þessa vöru, en í því liggur orsökin, og ég vænti þess, að þeir þingmenn séu ekki margir, sem finnst þörf á að bæta mörgum sinnum við verðjöfnunarsvæðið til þess að fullnægja þessu, enda nær það engri átt, og allra sízt er það á viti byggt að gera það með þessu móti, að ætla sér að flytja óunna mjólk langar leiðir, þótt það væri gerlegt, til mjólkurbúa til þess að vinna hana þar. Það eru áreiðanlega ekki mikil búhyggindi í slíku ráðslagi. Það gæti aldrei orðið til annars en að stórskaða framleiðsluna sjálfa að koma slíku til leiðar. Þá væri betra að fjölga vinnslubúunum og flytja vinnslumjólk sem stytzta leið þær vegalengdir, sem haganlegastar væru taldar milli þeirra. Ég vona því, að hv. flm. þessa frv. sjái, að því fer mjög fjarri, að þetta frv., sem hér liggur fyrir, eigi rétt á sér. Væri miklu betra, eins og hv. þm. V-Sk. vék að, að verðjafnað væri allt landið, þar sem mjólkurframleiðsla er einhver umfram það, sem látið er til neytenda á hinum einstöku stöðum. Ég skil ekki, hvernig hv. þm. kemst að svona niðurstöðu frá þeim röksemdum, sem enn hafa komið fram fyrir þessu máli, því að þótt það vantaði nokkur hundruð lítra á s. l. hausti og geti vantað enn nú í haust og e. t. v. eitthvað áfram, getur það með engu móti réttlætt það, að farið verði að breyta verðjöfnunarsvæðinu til þess að fullnægja þessari þörf.

Ég ætla svo ekki að orðlengja þetta frekar. Ég vildi gjarnan skýra þetta mál frá mínu sjónarmiði og að það kæmi fram frá fleirum en hv. þm. V-Sk., hve margs þarf að gæta við slíkar ákvarðanir sem þessar.