22.09.1944
Neðri deild: 54. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 412 í C-deild Alþingistíðinda. (3450)

132. mál, sala mjólkur og rjóma o.fl.

Jóhann Jósefsson:

Herra forseti. — Hv. þm. V.-Sk. sagði ekki nema hálfa söguna, þegar hann vitnaði í það, sem ég sagði um hið óþolandi ástand í smjörmálinu. Það er ekki einasta, að ekki sé til nóg smjör í landinu, heldur er flutt inn lakara smjör en okkar og þó selt jafnháu verði. Hæstv. ráðh. furðaði sig á því, að ég skyldi ekki hafa komið auga á, hvað ylli því, að smjörið væri selt svo dýrt, og vitnaði í vald mjólkursölunefndar til að banna innflutning á smjöri. Hæstv. ráðh. lýsti yfir því, að orsök smjörskortsins væri sú, að hagkvæmara væri að framleiða annað en smjör. Aðrir, t. d. hv. 1. þm. Árn., hafa talið orsökina þá, að gripum hafi fækkað. M. ö. o. halda þeir því fram, að skorturinn á smjöri sé eðlilegur. En þegar spurt er, af hverju aðflutt smjör sé selt svo dýrt, þá vitnar ráðh. til mjólkursölun. og vill gefa henni sökina. Hér er eitthvað, sem kemur í bága við rökrétta hugsun. Það er eðlilegt, að ríkisstj. beiti hömlum á móti innflutningi samkeppnishæfrar vöru frá útlöndum, ef l. eru sett til verndar okkar vöru og nóg er til af henni, en þegar viðurkennt er, að skortur sé á smjöri, hvernig á þá að réttlæta það, að lagt sé jafnmikið á útlenda smjörið og nú er gert? Það er selt á kr. 21.50. Það er spursmál, hvort þetta er 10 kr. of mikið eða 15 kr. Nema það sé talin réttlæting, að þessi gífurlega álagning sé notuð til að bæta bændum upp það smjör, sem þeir sjá sér ekki hag í að framleiða.

Hv. 1. þm. Árn. var að verja bændur. Það er gamla sagan, ef eitthvað er fundið að skipulagsatriðum í landbúnaðarmálum, að verið sé að ráðast á bændur. Það er óþarfi að bera mér slíkt á brýn. Ég var aðeins að benda á gallana á framkvæmd skipulagsins.