12.02.1945
Neðri deild: 127. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 415 í C-deild Alþingistíðinda. (3467)

132. mál, sala mjólkur og rjóma o.fl.

Frsm. 2. minni hl. (Bjarni Ásgeirsson):

Herra forseti. — Mál þetta hefur legið alllengi fyrir landbn. En þar sem gerð hefur verið grein fyrir því í umr. um önnur mál. hér í d., sé ég ekki ástæðu til að vera langorður að þessu sinni.

Þegar landbn. tók þetta mál fyrir, kom greinilega fram, að meiri hl. n., allir nm. nema hv. þm. A-Húnv., sem er annar flm. frv., var andvígur afgreiðslu þess í því formi, sem það liggur fyrir nú. En hins vegar samþ. meiri hl. að senda frv. mþn. í mjólkurmálum, sem hér starfar, og fá álit hennar um það, áður en það yrði afgreitt. Þetta álit n. kom svo eftir nokkurn tíma, og er það prentað á þskj. 1085, og geri ég ráð fyrir, að dm. hafi lesið það. Við, sem undir nál. ritum, leggjum á móti samþykkt málsins vegna þess, að okkur virðist skorta töluvert á, að sá grundvöllur, sem við álítum, að hugsaður sé með ákveðnum mjólkurverðlagssvæðum, sé hér fyrir hendi. Ég lít svo á, að eðlileg takmörk mjólkurverðlagssvæðanna séu miðuð við, eins og tekið er fram í l., að unnt sé fyrir framleiðendur á þessum svæðum að koma að staðaldri, helzt daglega, mjólk á sölustað, þannig verkaðri og frágengnri, að trygging sé fyrir því, að settum heilbrigðisreglum, sem snerta þessa viðkvæmu neyzluvöru, sé fylgt út í yztu æsar. Ef slíku skal framfylgt, verða samgöngur að vera það greiðar og góðar, að mjólkin komist daglega frá framleiðslusvæðinu og á sölustað, eða ef þær eru ekki það tryggar, þá séu á svæðinu mjólkurbú, sem tekið geta á móti mjólkinni óskemmdri og verkað hana, svo að hún komist ómenguð og hrein á sölustað. Nú segir sig sjálft, ef teygja á mjólkurverðlagssvæði Reykjavíkur alla leið norður um allt Snæfellsnes, Dalasýslu, Húnavatnssýslur og Strandasýslu, að þá eru engin tök á að koma þeirri mjólk daglega til Reykjavíkur eða mjólkurbúsins í Borgarnesi, sem er þó næst þessum svæðum. Það hefur nú oft á undanförnum árum verið deilt á þá, sem við mjólkurmálin hafa verið riðnir og ákveðið hafa verðlagssvæðið, fyrir að teygja verðlagssvæðið of langt út, þannig að það sé ekki hægt að koma hreinni og heilnæmri mjólk á markaðinn svo langt að. Ég skal ekkert um þetta segja. En hitt vil ég fullyrða, að mjólkurverðlagssvæði Reykjavíkur sé nú komið yfir svo vítt svæði og með svo löngum vegalengdum, að hæpið sé að koma mjólkinni lengri leiðir en nú er gert óskemmdri til markaðsstaða, vegna þess að svæðið er komið alla leið austur í Vík í Mýrdal. Þess vegna er ég samdóma mþn. um þetta atriði.

Ég hygg skaðlaust að teygja mjólkurverðlagssvæðið kringum Borgarnes vestur að Snæfellsnesfjallgarði, en aftur á móti tel ég hæpið, að hægt sé að koma Húnavatnssýslum og Hrútafirði inn á mjólkurverðlagssvæði Borgarness, vegna þess að útilokað er, eins og staðhættir eru enn, að hægt sé að koma mjólkinni af þessum svæðum í Borgarnesbúið. Enda, ef svo ætti að gera, yrði stórum að stækka búið í Borgarnesi, því að það gæti eins og nú er ekki tekið við mjólkinni af þessum svæðum, ef á þeim svæðum kæmist verulegur rekspölur á mjólkurframleiðsluna. Teldi ég þá hyggilegra að stofna nýtt mjólkurbú í Húnavatnssýslum og reyna í gegnum það að tengja það hérað við aðalmarkaðsstað landsins, sem hægt væri a. m. k. suma tíma ársins. — Aftur á móti er öðru máli að gegna um Dali. Ég hygg, að það gæti komið til mála, að a. m. k. nokkur hluti Dalasýslu gæti tengzt við mjólkurverðlagssvæði Borgarfjarðar og þaðan væri hægt að koma nýrri mjólk til vinnslu í Borgarnesbúið. Mér segja a. m. k. kunnugir menn, að ef lagfærður væri vegurinn um Bröttubrekku og sérstaklega breytt nokkuð um vegarstæði, þá væri sennilega hægt að halda uppi samgöngum milli Dalasýslu og Borgarness meginhluta ársins. Eftir því væru líkur til þess, að hægt væri að koma mjólk úr Dalasýslu til Borgarness mestan hluta ársins. En það mál þyrfti að athuga og undirbúa betur en enn er orðið, áður en í slíkt yrði ráðizt, og þá hygg ég, að til athugunar yrði að taka að stækka Borgarnesbúið. Og yrði þá að meta það, hvort heppilegra væri að stækka það mjólkurbú eða að koma upp nýju búi í Dalasýslu. — En þó að ég fallist á það, að það væri hægt að lengja mjólkurverðlagssvæðið frá Borgarnesi út á Snæfellsnes fremur en orðið er og til mála gæti komið, að Dalasýsla gæti komið inn á verðlagssvæði kringum Borgarnesbúið, þá tel ég, að það þyrfti mikillar athugunar við, og þess vegna sé ekki ástæða til að gera þess vegna lagabreyt. nú. Því að mjólkurverðlagsn. hefur í hendi sér, samkv. því valdi, sem hún hefur nú, að athuga þetta, án þess að breytt sé l. um þetta. Sama gildir að því er snertir Húnavatnssýslur, að mér virðist, að miklu nær liggi, að a. m. k. einhver hluti Austur-Húnavatnssýslu komist inn á verðlagssvæði Sauðárkróks og Skagafjarðar. Og þegar búið er að leggja til fulls Vatnsskarðsveginn og ganga frá honum eins og fyrirhugað er, þá hygg ég, að vel gæti komið til mála að teygja mjólkurverðlagssvæði Skagafjarðar nokkuð vestur á bóginn, vestur í Húnavatnssýslur, eða að gera annað, sem væri kannske eðlilegast, að þau héruð Húnavatnssýslna, sem hentugust eru til mjólkurframleiðslu, kæmu sér upp sjálf mjólkurbúi á einhverjum hentugum stað til þess að taka á móti mjólk félagsmanna og verka hana þannig, að hún væri flutningsfær langa leið. Og ég tel ekki líkur til þess, að verulegur mjólkurflutningur komi frá Húnavatnssýslum fyrr en búið er að bæta úr samgönguörðugleikum á þessu svæði eins og unnt er og koma upp hreinsunar- og vinnslustöð fyrir mjólk þar nægilega nærri, þannig að hægt væri að tryggja verkun mjólkurinnar og hreinlæti í sambandi við meðferð hennar, svo að hægt væri að gera hana hæfa til að þola meðferð langra flutninga. Af þessum ástæðum er það, að ég legg á móti samþykkt þessa frv. Ég álít, að það sé ekki grundvöllur undir því, út frá þeim sjónarmiðum, sem eftir hefur verið farið í þessum efnum. Ég álít ekki, að tryggt sé, að komið verði við mjólkurframleiðslu á þessum svæðum og flutningum frá þeim, sem frv. fjallar um, flestum hverjum, fyrr en búið er að gera þær undirstöðuframkvæmdir, sem ég minntist á. En ég álít hins vegar, að til greina geti komið að gera þá lítilfjörlegu breyt. á mjólkurverðlagssvæði, sem ég minntist á, án þess að breyta þurfi l. þess vegna.

En hitt vil ég endurtaka, að þó að mjólkurverðlagssvæði hafi verið ákveðin, þá verður hér eftir sem hingað til hægt að breyta þeim, og þau hljóta að breytast með breyttum samgöngum og breyttri aðstöðu héraða, sem þau fá með því að koma upp hjá sér mjólkurhreinsunar- og vinnslustöðvum. Og ég tel sjálfsagt, að þeim verði breytt í samræmi við það jafnóðum og skilyrði myndast til mjólkurframleiðslu og sölu á þennan veg. Og þetta tel ég, að mjólkursölun. hafi gert til þessa. Og ég tel, að þeir, sem áhuga hafa fyrir því að koma upp mjólkurframleiðslu og sölu á þessum stöðum, eigi að byrja á því að skapa skilyrði til mjólkursölu með bættum samgöngum og með því að koma upp mjólkurstöðvum. En áður en það er gert, tel ég varhugavert að ákveða með l., að þessi og þessi svæði skuli vera inni á einhverju tilteknu mjólkurverðlagssvæði. Af þessu get ég ekki mælt með frv., sem hér liggur fyrir, en legg til, að það verði fellt.