15.02.1944
Neðri deild: 13. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 221 í B-deild Alþingistíðinda. (347)

40. mál, nýbygging fiskiskipa

Atvmrh. (Vilhjálmur Þór):

Herra forseti. — Í 22. gr. fjárl. 1944 er ríkisstj. heimilað að verja úr framkvæmdasjóði ríkisins allt að 5 millj. kr. til smíði fiskiskipa, en þetta skal gert samkv. reglum, sem Alþ. setur þar um. Samkv. þessari ályktun frá síðasta Alþ. er þetta frv. til l. borið fram.

Hv. sjútvn. hefur haft málið til athugunar, og er frv., sem hér er flutt, að mestu leyti sniðið eftir því, sem meiri hl. sjútvn. lagði til. Þó eru hér gerðar breyt. á. Lagt er til, að fé það, sem veitt yrði úr framkvæmdasjóðnum, yrði þegar lagt í sérstakan sjóð, sem nefndist styrktar- og lánasjóður fiskiskipa. En þetta var nokkuð öðruvísi hjá n. Frv. gerir sem sagt ráð fyrir, að stofnaður verði sérstakur sjóður og úr honum verði veitt fé til styrktar ísl. mönnum til að auka fiskiskipaflota landsins. Þeir, sem fá styrk eða lán, verða í fyrsta lagi að láta smíða skip sitt eftir teikningu, sem atvmrh. hefur samþ., og , kaupa vél í skipið að fengnu samþykki ráðun. í öðru lagi er gerð krafa um, að þeir, sem óska hjálpar, verði að láta ráðun. í té upplýsingar um fjárhag, atvinnu síðustu tvö árin o.fl. Hér er enn fremur gert ráð fyrir, að beinn styrkur verði ekki hærri en 75 þús. kr. á skip og nemi ekki meira en 25% af kostnaði við smíði skipsins, en lán, sem aðeins eru veitt gegn 2. og 3. veðrétti, nemi ekki meira en 85% af smíðakostnaði eða í hæsta lagi 100 þús. kr. Lánið sé vaxtalaust og greiðist upp á 10–15 árum. Þá er hér einnig till. um, að sá, sem hefur fengið umgetinn styrk eða lán, geti ekki selt skip sitt nema að fengnu samþ. atvmrn., og reglur um, hvernig styrkir séu endurkræfir, ef skipið er selt. Fara þær eftir því, hvort tap er á sölunni frá upphaflegu verði skipsins eða ekki. Einnig er það tekið fram, að ef eigandi skipsins hættir að nota skipið að staðaldri til fiskveiða, sé réttur til að endurkrefja að fullu styrk eða lán. Gert er ráð fyrir, að Fiskveiðasjóður Íslands taki við lánsfjárhæð, sem veitt kann að verða, og sjái um útgáfu skuldabréfa fyrir láninu og innheimtu afborgana. Loks er þess krafizt, að þeir, sem njóta styrks eða lána samkv. l. þessum, skuli láta reikningaskrifstofu sjávarútvegsins í té reikninga yfir rekstur skipsins í því formi, sem krafizt yrði af henni, og enn fremur, að það sé á valdi framkvæmdavaldsins, hvort veita eigi lán eða beinan styrk í hverju tilfelli. Er það gert með það fyrir augum að binda það ekki nú þegar, hvora leiðina skuli farið, en það fer eftir því, hve skipin, sem styrkt verða af því opinbera, verða dýr og hversu miklu dýrari nú en gera má ráð fyrir í náinni framtíð.

Í sambandi við þetta get ég upplýst það um þær athuganir, sem farið hafa fram í Svíþjóð fyrir milligöngu ríkisstj. um smíðakostnað skipa, að verðið, sem fyrst var áætlað, nál. 5000 kr. á smálest, getur orðið töluvert lægra, þótt ekki sé hægt að fullyrða um það, fyrr en uppdrættir eru komnir til Svíþjóðar af þeim skipum, sem á að fá tilboð í. Með þetta fyrir augum taldi ríkisstj., að réttara væri og eðlilegra, að ekki væri lögfest, hvenær styrkur skyldi veittur og hvenær lán, en haga framkvæmdum eftir því, sem réttara þætti þegar fullar upplýsingar lægju fyrir um kjör, verð og væntanlegt framtíðarverð skipa.

Í 12. gr. þessa frv. er till. um, að ákvæði. 6., 7. og 10. gr., sem fjalla um það, hvenær styrkir eða lán séu , endurkræf, verði einnig látin ná til þeirra styrkja, sem hér eftir verða veittir samkv. l., sem samþ. voru á sl. ári, um Fiskveiðasjóð Íslands.

Að síðustu leyfi ég mér að leggja til, að frv. verði að lokinni 1. umr. vísað til sjútvn., og beini því til n., hvort það gæti ekki orðið til að flýta afgreiðslu málsins, að samstarf yrði um það hjá sjútvn. þessarar hv. d. og Ed.