12.02.1945
Neðri deild: 127. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 419 í C-deild Alþingistíðinda. (3472)

132. mál, sala mjólkur og rjóma o.fl.

Frsm. 2. minni hl. (Bjarni. Ásgeirsson):

Aðeins nokkur orð. Ég veit ekki, hvort ég á að fara að deila aftur við hv. þm. A-Húnv. um þessar ásakanir, sem hann ber á mig sem form. landbn. um það, að ég hafi fyrst og fremst hugsað mér að koma þessu máli fyrir kattarnef með drætti. Ég held, að hann hafi sjálfur afsannað líkur fyrir því með þeim orðum, sem hann endaði ræðu sína á, að eftir móttökum þeim, sem frv. fékk í landbn., og meðferð hennar á þessu máli væru ekki líkur til þess, að byrlega blési fyrir frv. á þessu þingi, og það var það, sem ég þóttist sjá, þegar allir í landbn. nema hv. flm. frv. tjáðu sig andvíga frv. Ég þóttist sjá af því, að forlög frv. væru þar með ráðin á þinginu, eftir venjulegum gangi mála. Og ég taldi, að hv. þm. A-Húnv. mundi láta sér nægja með þann dóm, sem málið fékk í landbn., en krefðist ekki þess, að það yrði formlega fellt í þinginu. Og af þessum ástæðum, og þeim einum, var það, að ég hraðaði ekki afgreiðslu málsins, enda var aldrei kallað eftir málinu frá n. En sé það nú á hinn bóginn þannig, að meirihl.fylgi sé í þinginu fyrir þessu máli nú, þá má enn koma því í gegn og samþ. það á þessu þingi. Ég ætla, að tímans vegna sé það vandalítið, ef hv. flm. er kappsmál að sjá, hvernig hæstv. Alþ. er stemmt í málinu.

Hv. þm. A-Húnv. talaði um, að það væri mótsagnakennt hjá mér að leggiast á móti þessu máli, en álíta þó koma til mála, að Dalasýsla gæti með tíð og tíma komið inn á verðlagssvæði Borgarfjarðar. En ég tel það ekki vera mótsagnakennt. Ég álít mikinn mun á því, hvort hægt er að koma Dalasýslu inn á verðlagssvæðið, sem liggur svo að segja samhliða Mýrum, og þar er ekki um að ræða nema stuttan fjallveg, sem skilur sýslurnar, og miklu minni en þann, sem skilur Húnavatnssýslur og Mýrasýslu. Ég álít langt frá því að vera mótsögn í því, þó að ég leggist á móti málinu í heild, en telji þó, að þetta geti komið til athugunar, að Dalasýsla kæmi með inn á verðjöfnunarsvæði. Og ég tel, að það eigi að teygja sig eins langt í þessu máli og skynsamlegar ástæður eru til. Hitt nær ekki nokkurri átt að teygja mjólkurverðlagssvæði Reykjavíkur og Hafnarfjarðar kringum allt land. Það væri vitanlega hægt að gera það með l. En það væri ekkert gagn í því.

Hv. þm. A-Húnv. talaði um einokunarfyrirkomulag í þessu efni. Þetta einokunarfyrirkomulag er nú ekki annað en það, að með þessum mjólkursölul. er hjálpað þeim mönnum, sem af eðlilegum ástæðum vegna samgöngumöguleika hafa möguleika til þess að nota mjólkurmarkaðinn, þeim er hjálpað til þess að vinna saman um sölu og dreifingu mjólkur og mjólkurvara á þessum markaði. Og ég álít, að mjólkurverðlagsn. eigi engar ásakanir skildar fyrir það, að hún hefur reynt að færa út mjólkurverðlagssvæðið jafnóðum og grundvöllur hefur skapazt undir það, að hinir nýju menn, sem inn á svæðið kæmu, gætu starfað þar að þessari vöruframleiðslu og verkun. Það hefur meira að segja oft verið ádeiluatriði gagnvart mjólkursölun., að hún hefur verið sökuð um að teygja svæðin of mikið út. En yfirleitt hefur það ekki verið fyrr en á síðustu dögum, að mjólkursölun. hefur verið sökuð um þröngsýni um að víkka út verðlagssvæðin. En ég tel, að hún gæti, skipulaginu og sér að skaðlausu, teygt svæðið lengra vestur á Snæfellsnesið en hún hefur gert til þessa. Hitt tel ég algerlega út í bláinn, að ætla sér með löggjöf af handahófi að ákveða mjólkurverðlagssvæðið, meðan ekki eru næg skilyrði fyrir hendi til þeirra breyt. Ég veit ekki betur en að það hafi verið gangur þessara mála, að þeir bændur, sem hafa hugsað sér framleiðslu á mjólk í stórum stíl, hafi byrjað á því að koma sér upp mjólkurvinnslustöðvum. Fyrst byrjuðu bændur á þessu hér í kringum bæinn. Síðan komu á eftir bændur austanfjalls. Svo kom mjólkursamlag Borgfirðinga. En þessir bændur byrjuðu ekki á því að heimta, að það skyldi ákveða með l., að Borgarfjörður skyldi verða settur inn á mjólkurverðlagssvæði Reykjavíkur og Hafnarfjarðar, nei, heldur á byrjuninni, að koma upp hjá sér fullkomnu mjólkurbúi, sem sýndi, að þeir höfðu vilja, áhuga og getu til þess að koma þessum málum í það horf, sem sjálfsagt var, að krafizt væri til þess að þeir gætu staðið að mjólkursölu. Sama gerðu Eyfirðingar á sínum tíma, og út frá þeim framkvæmdum skapaðist svo að eðlilegum hætti mjólkurverðlagssvæði í Eyjafirði. Skagfirðingar byrjuðu heldur ekki á því að heimta, að l. yrði breytt þannig, að Skagafjörður yrði settur inn á eitthvert verðlagssvæði, heldur komu upp sínu mjólkurbúi og hófu mjólkurhreinsun og vinnslu og sköpuðu sér þannig aðstöðu til þess að selja mjólk bæði til Sauðárkróks og Siglufjarðar og mjólkurvörur víðs vegar um land. Og sama tel ég, að liggi fyrir þeim ágætu mönnum í Húnavatnssýslu, sem hafa hug á því að breyta um framleiðslu, sem vel getur verið eðlilegt og sjálfsagt. Þeir hljóta að eiga að fara að eins og hinir aðrir, sem ég hef nefnt, að undirbúa málið heima með því að koma upp mjólkurvinnslustöð hjá sér, og þá kemur af sjálfu sér, að þeim skapast markaður fyrir þessa vöru, sem er mikill og mörgum finnst vera ótæmandi.

Af þessum ástæðum tel ég algerlega ótímabært að samþ. frv., en tel, að það eigi að fella það. Hins vegar ef hv. þm. A-Húnv. telur, þrátt fyrir meðferð landbn. á því, að málið muni hafa möguleika til framgangs á þessu þingi, þá er leikur fyrir hann tímans vegna að koma því í gegn. Og fyrir mér hefur aldrei vakað að beita neinu ofbeldi í sambandi við afgreiðslu þessa máls, eins og ég hef tekið fram.