15.02.1944
Neðri deild: 13. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 222 í B-deild Alþingistíðinda. (348)

40. mál, nýbygging fiskiskipa

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. — Mþn. í sjávarútvegsmálum hefur haft mál það, sem hér liggur fyrir, til athugunar, en þar sem nm. gátu ekki eftir alllangt starf orðið sammála, skiluðu meiri og minni hl. áliti til ríkisstj. hvor í sínu lagi. Frv. það, sem hér er lagt fram af ríkisstj., er, eins og áður hefur verið tekið fram, að mestu leyti samhljóða till. meiri hl. n.

Meginágreiningsatriðin milli meiri og minni hl. n. voru tvö. Í fyrsta lagi töldum við, sem minni hl. skipuðum, að misráðið væri að veita mönnum beina styrki til kaupa eða smíða fiskiskipa, og teljum við lánveitingar miklu heppilegri. Annað atriðið í ákvæðum meiri hl., sem við gátum ekki samþ., er, að einn maður, atvmrh., hafi að kalla óbundnar hendur um ráðstöfun fjárins og eigi . einn að úthluta 5 millj. kr. Þessi atriði töldum við sem sagt svo veigamikil, að þau ollu því, að við vildum ekki skila áliti með meiri hl. n.

Aðalatriðin í till. okkar voru þau, að skipuð yrði sérstök fimm manna n., sem hefði með ráðstöfun fjárins að gera. Þetta ætti að verða n. þeirra aðila, sem hér eiga einkum hlut að máli. Við lögðum til, að fulltrúar í n. yrðu valdir þannig: einn af Fiskifélagi Íslands, einn af Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, einn af Alþýðusambandi Íslands og einn af Fiskveiðasjóði Íslands og einn af atvmrh. — Ég geri ráð fyrir, að það sé óumdeilt, að þessir aðilar eigi hér mestan hlut að málum og eigi því eðlilegastan rétt til að ráða nokkru um þetta.

Þá gerum við einnig ráð fyrir, að þetta fé yrði fyrst og fremst notað til að kaupa fiskiskip til landsins og þau yrðu seld sjómönnum og útgerðarmönnum á fullu verði, en um leið veitt heimild til að veita þeim umsækjendum lán, sem fimm manna n. teldi hæfasta og sýnt væri, að þyrftu á aukaláni að halda til að geta eignazt fiskiskip. Í till. okkar er aftur á móti ekki gert ráð fyrir beinum, óafturkræfum styrkjum. Við álitum, að því fylgi sá, stóri ókostur, sem alltaf fylgir styrkjapólitíkinni, hætta á misnotkun styrkjanna, og eins hitt, að með beinum styrkveitingum eyðist féð innan skamms, en ef lán væru veitt, mundi það endast til frambúðar.

Aðalvandkvæði á að eignast skip nú eru, að menn vantar nægilegt fé til að komast yfir skip, þar sem fáir hafa fé handbært og erfitt er að fá nægilega há lán. Hins vegar tel ég það víst, að ef útgerðar- og sjómenn fengju hagkvæm ríkislán, mundu margir ráðast í kaupin þrátt fyrir hið háa verð, sem nú er á skipum.

Nú er þess vænzt, að hægt verði að kaupa fiskibáta frá Svíþjóð fyrir helmingi lægra verð en hér er, og það kom fram, að fjöldi útvegsmanna í landinu sækir um að fá aðstoð til að kaupa ódýrari báta, miðað við þá, sem smíðaðir hafa verið að undanförnu. Og fjöldi þessara manna er miklu meiri en svo, að nokkrar líkur séu til, að hægt sé að sinna þeim öllum. Ef svo, auk þess sem velja þarf úr nokkra menn, sem eiga að fá að verða aðnjótandi aðstoðar við þessi bátakaup, ef einnig á að styrkja þá menn með fégjöfum, þá hygg ég, að þeim, sem ekki fá aðstoð til þess að kaupa bátana, þyki það allhart, að ekki skuli vera nóg, að þeir, sem valdir yrðu, fái aðstoð til að kaupa skipin, heldur fengju þeir einnig peninga að gjöf með skipunum. Það er þeirra skoðun, að hægt væri að selja flesta eða alla þá báta, sem líkur eru til, að við getum fengið frá Svíþjóð, á fullu verði hér innan lands, a.m.k. ef rýmkað væri svolítið um lánveitingu til þeirra, sem vildu kaupa skipin. En hér er farið inn á þá braut, sem að mínu áliti er fásinna nú, að bjóða mönnum og veita óafturkræfa styrki.

Atvmrh. hefur valið þá leið í samræmi við till. meiri hl. mþn. í sjávarútvegsmálum að leggja hér fram frv., sem inniheldur styrkjaleiðina. Hann hefur þó látið uppi við n., að hann teldi þá leið mjög hæpna, eins og nú standá sakir. Hann leggur til, að sjútvn. fái málið til meðferðar. Ég á sæti í þeirri n. og mun þar gera till. til breyt. á þessu frv. í þá átt, sem við höfum lagt til, að þetta frv. verði. Þetta mál hefur komið fram áður hér á þingi, og ekki fyrir ýkjalöngu var rætt um það, hvort heldur bæri að fara lána- eða styrkjaleiðina, þegar hvetja ætti menn til skipakaupa. Það varð ekki gott samkomulag um það, þegar síðast fór fram atkvgr. um það mál, og varð útkoman nokkuð blönduð. Var gert ráð fyrir bæði lánveitingum og styrkjum. En það kom fram þá strax á eftir, að aðalútgerðarfélögin lýstu yfir, að rétt væri að fara inn á lánaleiðina, en ekki styrkjaleiðina, svo að ég hygg, að útgerðarmenn séu á þeirri skoðun, að það, sem hér eigi fyrst og fremst að gera, sé að rýmka á lánveitingu, en ekki að styrkja þá. Hins vegar efa ég það ekki, ef gengið er frá frv. svipað því, sem hér er lagt til, að mönnum sé boðinn allt að 75 þús. kr. óafturkræfur styrkur samtímis því, sem boðið er upp á styrktarlán allt að 100 þús. kr., sem á að greiðast að fullu aftur, — að þá vitanlega vilji allir hinn óafturkræfa styrk.

Ég sé svo ekki ástæðu til að faxa fleiri orðum um þetta að sinni. En ég vil lýsa undrun minni á því, að hæstv. atvmrh. sjái sér ekki annað fært en fara inn á þá braut með þessu frv. að stuðla að því, að farin verði styrkjaleiðin. En það, sem hefur freistað hans í þessu máli, er að mínu áliti það, að það sé atvmrh. sjálfur, sem hafi með útdeilingu þessara styrkja að gera, og hann treysti sjálfum sér betur en öðrum til þess að framkvæma það.