13.02.1945
Neðri deild: 128. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 433 í C-deild Alþingistíðinda. (3483)

132. mál, sala mjólkur og rjóma o.fl.

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. — Ég ræddi þetta mál ýtarlega í gær og sé ekki ástæðu til að bæta við það nema örfáum orðum út af hinni löngu ræðu form. mjólkursölun., hv. þm. V.-Sk. Það eru 2–3 atriði, sem ég vildi leiðrétta. Hv. þm. varði miklu af sínum tíma í gær og einnig í dag til að reyna að sanna, hversu fjarstætt væri að lögfesta það að stækka verðjöfnunarsvæði mjólkur, þar sem núverandi ríkisstjórn hefði ákveðið að skipta verðjöfnunarsvæðum með tilliti til fisksölunnar. Í fyrsta lagi skal ég upplýsa það, að þessi fyrirmæli stj. eru gefin samkvæmt heimild í l. frá 1940, en ekki án heimíldar, eins og hann gaf í skyn. En á þessu virtist hann byggja fullyrðingar sínar um það, hversu fráleitt væri að fara að lögfesta alveg sams konar atriði eins og verðjöfnunarsvæðin um mjólkina. Þetta virtist mér aðaluppistaðan í hans ræðu í dag og í gær. Nú sér hver maður í gegnum þennan vef, að hér er um gerólík atriði að ræða, verðjöfnun með tilliti til fisksölu eða verðjöfnun með tilliti til mjólkursölu. Hvaða sölubann er þarna á ferðinni, þó að ákveðin hafi verið verðjöfnunarsvæði í sambandi við fisksöluna? Verðjöfnunarsvæðið fyrir Vestfirði má selja fisk til hvers annars verðjöfnunarsvæðis sem er á landinu. Þetta er því alls ekki sambærilegt hjá hv. þm., og það sýnir skort á rökum hjá honum, að hann skuli byggja sína löngu ræðu aðallega á þessu atriði.

Annað atriði vildi ég minnast á. Hann sagði, að ég hefði borið fram um það till. í fyrra að setja alla mjólkurframleiðendur undir rannsókn sem fullkomna sakamenn. Þessi hv. þm. veit, að þetta eru blekkingar opinberar. Þessi till., sem ég flutti, var um skipun mþn. í þessu máli og veita henni heimild til að heimta skýrslur af embættismönnum og einstökum mönnum. Þetta er sama heimild og t. d. verðlagsnefnd hefur haft hér. Fjöldi nefnda hefur haft slíkt vald, heimild til þess að heimta skýrslur af mönnum. Auðvitað vita allir, að þetta á ekki skylt við sakamál. En síðan belgir þessi hv. þm. sig upp og segir, að ég vilji láta rannsaka alla bændur á landinu sem sakamenn, en ég eða minn flokkur hafi ekki viljað láta heildsalana undir sömu rannsókn og till. mín fór fram á um mjólkurstjórnina. Hér er um eintóman útúrsnúning og blekkingar að ræða. Ég get ekki verið að elta ólar við þennan hv. þm. Blekkingar hans eru svo alkunnar um land allt. Ég hef nefnt hér þessi tvö dæmi til þess að sýna þennan óvenjulega málflutning, sem ég held, að ekki þekkist hjá öðrum þm., enda er þessi hv. þm. fyrir löngu kunnur innan þings og utan að óprúttni í málflutningi.

Þá er ástæða til að minnast á fullyrðingar hv. þm. um vegalengdirnar. Hann heldur því fram, að með þessu sé verið að flytja inn staði, sem séu svo miklu fjarlægari en þeir, sem nú eru á verðjöfnunarsvæðinu. Í sambandi við þetta vil ég benda á fáeinar tölur. Frá Vík í Mýrdal til Reykjavíkur eru 204 km, Vík er nú á verðjöfnunarsvæðinu. Frá Búðardal til Reykjavíkur eru fyrir Hvalfjörð 192 km., en það er skemmst leið frá þessum stað í Dalasýslu eða Mýrasýslu, sem ekki er á verðjöfnunarsvæðinu. Frá miðju Snæfellsnesi sunnanverðu eru innan við 200 km., skemmri leið en frá Vík í Mýrdal. Frá Hvammstanga eru 237 km. fyrir Hvalfjörð til Reykjavíkur. Þar munar nokkrum km. Þegar nú þess er gætt, að mjólk úr Snæfellsnes- og Dalasýslum a. m. k. yrði send í Borgarnesbúið, sem það vel gæti tekið á móti, kemur í ljós, að það er ekki nema 80–100 km. vegalengd eða tæpur helmingur leiðarinnar frá Reykjavík til Víkur í Mýrdal. Ég tilfæri þessar tölur til þess að sýna, hve fráleit fjarstæða það er, að hér sé verið að fara fram á miklu meiri vegalengdir en nú er. Hitt er skiljanlegt, að afstaða hv. þm. V.-Sk. í mjólkurmálum hafi mótazt af því að veita sem mesta einokunaraðstöðu þeim kjósendum, sem hann í það og það skiptið var fulltrúi fyrir. Þegar hann vildi komast á þing fyrir Rangæinga, voru mjólkurlögin mjög heppilegt tæki til þess, sem líka tókst. Þegar hann vildi skipta um kjördæmi, þá var mjólkurmálið líka notað. Mýrdalurinn hafði ekki verið inni á svæðinu, en svo undarlega vildi til, að um það leyti sem þessi hv. þm. er að reyna að ná í þetta þingsæti, er Mýrdalurinn allt í einu tekinn inn á verðjöfnunarsvæðið.

Hv. þm. spurði, hvaða möguleika þessi héruð hefðu til að selja mjólk, ef engin mjólkurlög væru. Ég segi, að þau hafi sömu aðstöðu og hans kjördæmi.

Hv. þm. sagði, að það væri fráleitt að fela löggjafarvaldinu ákveðin verðjöfnunarsvæði, það væri pólitískt. Ég held, að það sé nú ekki laust við, að þessi nefnd hans hafi sýnt sig að vera ofurlítið pólitísk. A. m. k. hefur stækkun verðjöfnunarsvæðisins staðið í undarlegu sambandi við framboð þessa hv. þm. til Alþingis.

Hv. þm. sagði, að það væri mitt verk að berjast við álit mþn. í mjólkurmálum. Ég ræddi hér um þetta nál. í gær og var ekki við það að berjast, því að ég lýsti fyrir mitt leyti ánægju minni yfir því nál., því að þar er raunar viðurkennt, að sanngjarnt sé að stækka verðjöfnunarsvæðið eins og við hv. þm. A-Húnv. leggjum nú til, því að nál. sýnir að mörgu leyti annan hug í þessu máli en áður hefur verið ríkjandi hjá forráðamönnum mjólkursamsölunnar. — Tel ég mig svo ekki þurfa að fara um þetta fleiri orðum.