13.02.1945
Neðri deild: 128. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 436 í C-deild Alþingistíðinda. (3485)

132. mál, sala mjólkur og rjóma o.fl.

Sigurður E. Hlíðar:

Herra forseti. — Þegar um þetta frv. er rætt, þá verður nú sumum hætt við að blanda þar inn í ýmsu. Koma þá til sögunnar gamlar deilur um mjólkina hér í höfuðstaðnum og verða oft allheitar og viðkvæmar umr. um þessi mál. Það er ekki mín ætlun að fara að koma sérstaklega inn á þessar gömlu deilur, því að mér finnst þær ekki liggja hér fyrir. Það, sem um er að ræða, er að fá stækkað verðjöfnunarsvæðið, frá því sem nú er. En ég verð að segja, að það er farið með þeim ósköpum, að ég get ekki gengið svo langt. Mér finnst ástæðulaust að fara að þenja sig út yfir allt landið fyrir þennan eina sölustað. Það er mjög eðlilegt, að bóndi norður í landi vilji komast inn á þetta svæði, en hann verður að uppfylla sömu skilyrði og framleiðendur á verðjöfnunarsvæðinu. Það er ekki nóg að benda á, að þeir austur í Flóa geti þetta, því að þeir hafa mjólkurstöð. Dalamenn hafa enga mjólkurstöð, Snæfellingar hafa heldur enga mjólkurstöð. Þess utan er mjólkurstöðin hér svo lítil, að hún getur ekki nákvæmlega rannsakað og tekið á móti nema litlu af mjólk í viðbót.

Á þessu er það byggt, að við höfum gengið að nokkru leyti inn á kröfur hv. þm. Snæf. og tekið part af Snæfellsnessýslu inn í þetta svæði, með það fyrir augum, að mjólkurstöð Borgfirðinga mundi með samningum geta tekið að sér það mjólkurmagn. Við bendum á, að þegar búið er að koma upp mjólkurstöðvum í Húnavatnssýslum og Snæfellsnessýslu, þá sé ekki hægt að komast inn á verðjöfnunarsvæði Reykjavíkur. Við verðum að hafa í huga gæði mjólkurinnar, jafnframt því að hafa nóga mjólk. Það má nú vera, að Húnvetningar komi sér saman um að setja upp aflstöð. Þá hafa þeir vöru á boðstólum, sem þeir geta boðið fullum fetum, því að það þýðir ekki að flytja nýmjólkina sama dag. Það væri barnaskapur einn að ætlast til slíks. Við getum sagt, að þeir gætu komið mjólkinni til Borgarness, en sú stöð er lítil.

Í þáltill. hv. þm. Snæf., sem áður hefur verið minnzt á, er farið fram á, að rannsakað verði t. d., hvernig eigi að tryggja Reykjavík næga mjólk og góða, og margt annað. Er þessi rannsókn komin það langt, að fært hefur þótt að semja nál. En þetta kemur ekki málinu við. Hér er spurt, hvort við getum fallizt á, að þetta frv. yrði samþ. og verðjöfnunarsvæðið væri látið ná yfír þau héruð, sem þar eru talin upp. Þetta mjólkurskipulag er byggt á því, að þeir framleiðendur komist undir það, sem geta framleitt þessa vöru og uppfyllt þær kröfur, sem neytendurnir óska eftir. En svo kemur sú tortryggni, sem alltaf gerir vart við sig milli framleiðenda og neytenda og er að nokkru leyti byggð á misskilningi. Á það má benda, að mjólkurstöðin hér er gömul og engan veginn samboðin kröfum tímans, en þó er ennþá verið að basla við hana. En þó að hún geti ekki staðið til lengdar, verðum við að nota hana, meðan ekki er hægt að fullgera hina nýju mjólkurstöð. Nú er stöðvarhúsið sjálft nærri því fullgert, og er aðeins tímaspursmál, hvenær þessi stöð verður tekin til notkunar, sem er alveg fullkomin, og þá er þeim lið fullnægt. Svo eru það útsölustaðirnir, sem ýmsir telja ekki svo góða sem skyldi, stúlkurnar ekki nógu hreinlátar o. s. frv. Enn fremur er eitt, sem ég vil benda á. Til þess að slá niður þessa tortryggni um vöruvöndun þá er sjálfsagður hlutur fyrir Reykjavík að setja upp rannsóknarstöð. Nú er mjólkurfræðingur, sem rannsakar mjólkina til tryggingar því, að hún sé heilnæm, en hann er ráðinn af samsölunni sjálfri. Ég tel því sem neytandi, að það sé ekki næg trygging, þó að maðurinn sé góður, en ef neytendur fá sjálfir að hafa hlutlausan rannsóknarmann, þá eru þeir búnir að fá það, sem þeir óska eftir. Þessi maður þyrfti að vera frá Reykjavíkurbæ og launaður af honum. Þannig er það með margt, t. d. flutninginn. Mjólk er einhver hin allra viðkvæmasta vara, og því lengra sem mjólkin er flutt, því verri er hún. Í flestum löndum öðrum, þar sem mjólkurskipulagið var fullkomnast, t. d. í Þýzkalandi, þar var landinu skipt niður í verðlagsbelti, og því lengra sem hún var flutt, því minna var gefið fyrir hana. Fyrsta beltið var 5–10 km. út frá sölustað, og þegar kom út fyrir það, var strax gefið minna fyrir hana. Hér er mikið af mjólkinni flutt alllanga leið, t. d. eru 60 km. austur í mjólkurbú Flóamanna. Þá er spurningin, hvort ekki er hægt að hafa flutningatækin fullkomnari. Við höfum ekki flugvélar til flutninga og munum vafalaust ekki hafa í náinni framtíð, við höfum bara bíla og flytjum mjólkina í brúsum. Við rannsókn, sem fram hefur farið á aðferðum á flutningi á mjólk, hefur komið í ljós, að í mjólk, sem hafði verið kæld og var flutt í brúsum, voru 2 millj. bakteríur í sama magni og 400 þús., þegar mjólkin var flutt í tönkum. Það er enginn vafi, að ef mjólkin væri flutt í tönkum, gæti hún orðið miklu betri. Það er ekki mikill kostnaðarauki að því, en mikill hreinlætisauki. Mun samsalan nú hafa þetta til athugunar. Svona mætti á einfaldan hátt bæta þetta og laga, en það verður að hætta að gleypa við öllum kröfum í einu.

Ég vil f. h. n. vísa frá þeirri aðdróttun, að við höfum verið að hlaupa frá þessu máli og ekki sinnt því eins og vera skyldi. Við höfum farið eins langt og við höfum treyst okkur til, þegar allar aðstæður eru skoðaðar.