13.02.1945
Neðri deild: 128. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 438 í C-deild Alþingistíðinda. (3486)

132. mál, sala mjólkur og rjóma o.fl.

Sveinbjörn Högnason:

— Er ekki hv. þm. Snæf. viðstaddur? Ég þurfti að svara honum nokkrum orðum, eða kannske hann kæri sig ekki um að hlusta á svör við þeim fullyrðingum, sem hann hefur flutt hér fram, — mér þykir það ekki ósennilegt. Sömuleiðis þurfti ég að svara hv. l. landsk., en ég sé hann ekki heldur, svo að hann virðist einnig vera flúinn frá þeim andsvörum, sem hann hefur búizt við, að hann mundi fá. Ég sé mér þó ekki annað fært en að drepa á nokkur atriði, sem þessir hv. þm. hafa flutt í þessu sambandi, þó að þeir vilji ekki á það hlýða og skipi sér þannig í flokk með þeim mönnum, sem segja, að þeir séu ekki komnir til að láta sannfærast, sem ég hafði ekki heldur búizt við.

Hv. l. landsk. segir, að þeir menn, sem eiga að komast inn á verðjöfnunarsvæði Reykjavíkur samkvæmt þessu frv., séu eins settir og Árnesingar, þegar þetta skipulag var sett, og sömu rök mæli nú og þá með því að stækka verðjöfnunarsvæðið. Mér þykir leitt, að hv. þm. skuli ekki vera málinu kunnugri en þetta. Ég veit, að þetta er aðeins ókunnugleiki hans, en ekki það, að hann vilji fara með ósatt mál, en eins og kunnugt er, þá var búið að reisa mjólkurbú í Hveragerði, við Ölfusá, í Borgarnesi og Reykjavík, þegar mjólkurlögin voru sett. Skipulagið var þá sett einmitt með samkomulagi milli þessara aðila. Það er alls ekki rétt hjá hv. l. landsk., að skipulagið hafi verið sett með aðstoð verkamanna gegn Mjólkurfélagi Reykjavíkur. Það er fullkominn misskilningur. Stjórn mjólkurfélagsins starfaði alveg með öðrum mjólkurbúum á verðjöfnunarsvæðinu að því að koma á þessu skipulagi. Hitt er annað mál, að þeir þóttust ekki hafa nóg áhrif á framkvæmdina, þegar til kom, en þeir studdu skipulagið með fulltrúum frá öðrum mjólkurbúum.

Það er vitað, að þeir, sem stóðu að skipun þessa máls, höfðu stigið frumsporið til þess, að hægt sé að setja slíkt skipulag, sem þá var gert, en það var að koma upp hjá sér fullkomnum mjólkurbúum. En þeir, sem nú sækja um að komast inn á þetta verðjöfnunarsvæði, hv. þm. Snæf. og hv. þm. A-Húnv., hafa gert það án þess að búið sé að reisa heima í héraði nokkurt mjólkurbú, og ekki er vitað, að nokkur samtök heima í héraði hafi óskað eftir að vera tekin upp á verðjöfnunarsvæðið. Þessir framleiðendur sjá, að þeir geta ekki fullnægt þeim skilyrðum, sem þarf til að geta annazt slíka sölu. Það er því mikill misskilningur hjá hv. l. landsk., að aðstaða þessara manna sé sú sama og var hjá þeim, sem komu á mjólkurskipulaginu á sínum tíma, en ég þykist vita, að það stafi eingöngu af vanþekkingu, en ekki öðru, sem lakara væri.

Hv. l. landsk. segir enn fremur, að ef ætti að koma á verðjöfnun á mjólk um allt land, þá yrði nýmjólkin hækkuð í verði hér í Reykjavík, því að slík verðjöfnun hlyti að byggjast á því, að reykvískir neytendur yrðu að greiða vissar prósentur af sinni neyzlumjólk til vinnslumjólkur, sem aðrir neyttu, því að þeir neyttu sjálfir ekki vinnslumjólkur sem svaraði neyzlumjólk þeirra. Ég hygg, að meginþorri neytenda hér á landi sé í Reykjavík og að þeir muni alveg eins neyta vinnslumjólkur eins og mjólkurinnar sjálfrar, en það séu ekki aðrir, sem nota sérstaklega smjör, skyr og rjóma, en Reykvíkingar einkum neyzlumjólkina. Ég hygg, að hlutfallið sé svipað hjá neytendum hvar sem er, þó að ég fullyrði það ekki. En það er a. m. k. alveg rangt að tala um, að ef neyzlumjólkin er seld hærra verði en vinnslumjólkin, þá séu það reykvískir neytendur, sem borgi á vinnsluvörurnar, heldur eru það neytendur yfirleitt. Ég hygg, að það sé svipað hlutfall á neyzlu á þessum vörum um land allt, og ef nokkru skyldi muna, þá geri ég ráð fyrir, að Reykvíkingar noti meira en aðrir af t. d. ostum og smjöri.

Þá sagði hv. þm. annað, sem var mjög athugunarvert og sýnir, að hann er ekki vel inni í mjólkursölumálunum, en það var þegar hann fór að bera saman verð á fiski og mjólk. Hann segist ekki vita betur en að lofað sé sama verði fyrir fiskinn alls staðar á landinu, en ef þetta væri þannig með mjólkina, þá væri öðru máli að gegna. En þessu er einnig þannig varið með mjólkina, því að stj. er bundin með l. að greiða sama verð fyrir mjólkina hvar sem er á landinu, kr. 1,23 fyrir lítrann, en ég held, að stj. sé ekki bundin með l. að greiða fiskinn sama verði. Hér er því um vanþekkingu að ræða hjá honum, þegar hann slær þessu fram. Honum virðist ekki vera kunnugt um, að bændur eiga heimtingu á að fá þetta verð eftir l., sem gilda eftir sexmannasáttmálanum. (Samgmrh. EmJ: Þessi l. gilda vonandi ekki nema skamman tíma). Þau gilda þó lengur en þau l., sem eru ekki til. Hv. 1. landsk. hefur bersýnilega sézt yfir, hvað eru l. og hvað ekki.

Þá segir hann, að hann viti ekki betur en að bannað sé að kaupa þessar vörur utan verðjöfnunarsvæðisins. Hann spurði, hvort væri leyfilegt að fá rjóma utan verðjöfnunarsvæðisins. Ég get upplýst hann um, að nýverið hefur manni verið gefið leyfi til að flytja hingað 600 lítra, ef hann gæti fengið þá utan verðjöfnunarsvæðisins, að því tilskildu, að hann fengi vöruna gerilsneydda og uppfyllti að öðru leyti þau skilyrði, sem sett eru um meðferð og sölu á þessum vörum. Aðrar umsóknir höfum við ekki fengið, en þegar skortur er á mjólk, mundu slíkar beiðnir teknar til greina, ef skilyrðum l. um gerilsneyðingu og annað slíkt væri fullnægt, og ef hv. l. landsk. hefur í hyggju að senda slíka umsókn, er honum það áreiðanlega óhætt, hún mundi áreiðanlega verða tekin til greina eins og sakir standa.

Svipað kom fram hjá hv. l. landsk. hvað kjötið áhrærir, sem er þó ekki verið að tala um hér. Hann segir, að talað hafi verið um að setja kjötverðið það hátt, að hægt væri að greiða sexmannanefndarverðið til allra framleiðenda í landinu, og þannig hefðu Reykvíkingar átt að borga það, sem þurft hefði, til að full verðjöfnun næðist um allt land. Það er eins og enginn á öllu landinu hafi rétt til að drekka mjólk eða borða kjöt nema Reykvíkingar, en það er alveg rétt, að þessi skoðun kemur oft fram hjá Reykvíkingum, og ef einhvern tíma er skortur á þessum vörum, þó að ekki sé nema lítinn tíma, þá ætlar allt af göflunum að ganga og allir eru skyldir til að fullnægja þeirra þörfum, þó að þessar vörur vanti tímunum saman í þorpum úti um land. Það er algeng skoðun hjá Reykvíkingum, að ef ákveðið er eitthvað hærra verð á mjólk eða kjöti, þá séu það Reykvíkingar einir, sem borgi það, eins og það séu þeir einir, sem hafi rétt til að neyta þessarar vöru. En vitanlega gildir það sama um alla neytendur, hvar sem er á landinu, þeir búa við sama verðlag og alveg eins framleiðendurnir sjálfir, þeir verða að borga það sama fyrir þessar vörur, ef þeir neyta þeirra. En það er kominn inn hjá fulltrúum Reykvíkinga þessi hugsunarháttur, að þarfir þeirra eigi að ganga fyrir þörfum allra annarra landsmanna og þeir séu einu mennirnir og einu neytendurnir, sem til séu í landinu. Ég leyfi mér að mótmæla algerlega þessari skoðun þrátt fyrir alla virðingu og kærleika frá minni hendi til Reykvíkinga.

Þá sagði hv. l. landsk. orð, sem ég náttúrlega heldur veigra mér við að fara inn á, en verður þó varla komizt hjá. Hann sagði, að uppbæturnar til bænda væru ekkert annað en mútur. Það er þá auðheyrt, hvað fulltrúi hans flokks í sexmannanefndinni hefur hugsað, þegar hann gekk inn á þetta. Ég held, að það sé rétt að koma þeim skilaboðum til bænda, hvað fulltrúar kommúnista í sexmannanefndinni hafa hugsað sér með því að fylgja því að greiða uppbætur á framleiðsluvörur bænda, svo að þeir gætu fengið svipaða lífsafkomu og aðrar stéttir í landinu. Það er óneitanlega hart, að þetta skuli vera kallað mútur, þegar það er vitað, að mikill meiri hluti þeirra er greiddur í óþökk bænda eins og niðurgreiðslurnar á innlendum markaði, sem eru greiddar fyrir þá, sem flytja út úr landinu, svo að tilkostnaður þeirra verði ekki eins mikill. Bændur hafa aldrei óskað eftir niðurgreiðslum á innlendum markaði og óska hvenær sem er eftir, að þeim verði hætt. Ég bið því hv. l. landsk. að skila því til sinna flokksbræðra, að bændur afbiðji sér þessar mútur, sem hann segir, að séu nú borgaðar til bænda, og að þeir væru þakklátir, að þær væru afnumdar sem fyrst.

En ef á að tala þannig um bændastéttina, hvað á þá að segja um það, þegar lagðar eru til alþýðutrygginganna tugir milljóna árlega? Er það ekki líka gert til að tryggja lífsviðurværi vissra stétta? Eigum við að kalla það mútur? Hafa kommúnistar unnið að því að koma þessari löggjöf á til að geta mútað þeim stéttum, sem þarna eiga að njóta góðs af? Það má vel vera. Það væri hægt að telja upp miklu fleira í félagsmálalöggjöf okkar, þar sem lagðir eru fram tugir milljóna til að tryggja afkomu ýmissa stétta, og vitanlega ætti þá að nefna allt slíkt þessu nafni og yfirleitt alla viðleitni á félagsmálasviðinu að dómi hv. 1. landsk. og hans flokksbræðra. Ég held, að ekki sé frekar ástæða fyrir hv. þm. að nota þetta orð um bændur en aðra í þjóðfélaginu.

Ég sé svo ekki ástæðu til að víkja frekar að ræðu hans að sinni. — Nú, þarna þemur hann þá í d., þegar hann er viss um, að ég muni ekki segja meira við hann.

Ég ætla þá að snúa orðum mínum ofurlítið að hv. þm. Snæf. Ég kemst ekki hjá að minnast á nokkur atriði, sem komu fram í ræðu hans. Hann segir, að það sé gerólíku saman að jafna, þegar borin séu saman verðjöfnunarsvæði fyrir fisk og mjólk, því að þeir, sem séu fyrir utan verðjöfnunarsvæði fyrir fisk, megi selja á öðrum svæðum og enginn sé útilokaður. Mér er spurn: Á hverju byggist fiskverðið nú? Ég veit ekki betur en það byggist á því, hvað gefur mestan arð, hvort þau skip, sem fiskimenn hafa fengið til flutninganna, eru stór eða lítil og hvort flutningar með þeim gefa mikinn eða lítinn arð. Ég hugsa, að fiskimenn hér við Faxaflóa, sem hafa fengið stærstu skipin, þökkuðu fyrir það, ef sjómenn norðan af Húnaflóa kæmu og vildu láta sinn fisk í fisktökuskip þeirra. Ég hygg, að það eigi að tryggja vissum mönnum viss skip til útflutnings. Munurinn er aðeins sá, að nú er lagt til, að þeir bændur, sem nú er lagt til, að komist inn á verðjöfnunarsvæðið hér, eiga ekki að þurfa að uppfylla nauðsynleg skilyrði til að geta keppt um sölu hér, en sjómenn, sem hafa öll sömu skilyrði og eiga því fullan rétt á sömu kjörum og aðrir, þeir eiga samkvæmt ákvörðun stj. að búa við mismunandi kjör, eftir því, í hvaða verstöð þeir róa.

Ég kem þá að því atriði, þegar hv. þm. Snæf. talaði hér um, að ég notaði sterk orð. Hann sagði, að annars væri málflutningur minn kunnur fyrir óráðvendni um allt land. Ég skal ekkert um það metast við hann, hvor okkar hafi betri málflutning. En það ætla ég að segja, að ég hef ekki ferðazt út um allt land með margs konar rógburð og sögur eins og hann hefur gert að atvinnu sinni um nokkurt skeið, og sá málflutningur hefur verið þannig, að jafnvel flokksbræður hans hafa talið réttast að láta ekki fara hátt, hvað hann hefur borið þeim af fregnum, og gæti ég nefnt um það nokkur dæmi, ef hann óskar að ræða frekar um það og telur sig sem heilagan mann í þessu. Ræða hans sýnir vel, hvernig málflutningur hans er, því að hún var með þeim eindæmum, að ég get sýnt og sannað, ekki aðeins með rökum, heldur með prentuðum gögnum, að hann fór þar með ósatt mál. Ég leyfi mér að hafa þau orð um það, og ég vona, að hæstv. forseti víti mig fyrir að hafa borið á þennan hv. þm. að hafa farið með ósatt mál, ef það er ekki rétt. Hann sagði, að í þeirri till., sem hann bar fram um rannsóknarn. á hendur bændum, væru nákvæmlega sömu ákvæði og í l. um viðskiptaráð um rannsókn á heildsala og þeir væru því undir sömu ákvæðum og hann hefði ætlazt til, að væru sett um bændur og þá, sem að þeirri framleiðslu standa. Þetta segi ég, að sé ósatt. Í niðurlagi till. hans stendur, með leyfi hæstv. forseta: Nefndin skal hefja störf sín og ljúka þeim svo fljótt sem verða má. Er henni samkvæmt 34. gr. stjórnarskrárinnar veittur réttur til að heimta skýrslur, munnlegar og bréflegar bæði af embættismönnum og einstökum mönnum.

Ég skora á hv. þm. Snæf. að sýna mér, hvar í löggjöfinni um viðskiptaráð séu sams konar ákvæði og þetta. Og ef hann vill afsaka sig með því, að hann geti ekki fundið það í l., það muni vera í reglugerðinni, þá er hún fyrir hendi, og ég skora á hann að finna þau þar. Ég vil segja: Hvað á svona málflutningur að þýða? Vitanlega eru þessi ákvæði, sem hv. þm. ætlast til, að sett verði gagnvart bændum og framleiðendum, hvorki til í l. um viðskiptaráð né í reglugerð, og það eru því fullkomin ósannindi, sem hann fer með, og gögn liggja fyrir um það hér á hæstv. Alþ., svo að allir geta gengið úr skugga um það, hver fer með satt mál í því efni.

Þá sagði hv. þm. Snæf., að mín afstaða gagnvart stækkun verðjöfnunarsvæðisins hér hefði í raun og veru alltaf mótazt af hag þeirra kjósenda, sem ég hefði verið að vinna fyrir, og að stækkanir á verðjöfnunarsvæðinu hefðu staðið í sambandi við framboð mín, þar sem þau hafa verið (JPálm: Er það ekki rétt?). Það er ekki óeðlilegt, þó að hv. þm. A-Húnv. segi það, því að hann velur sér mjög oft þann kostinn, sem ósannari reynist. — Ég veit ekki betur en að ég hafi verið í framboði í Rangárvallasýslu frá 1931 til 1937. Og ekki voru mjólkurl. sett fyrr en 1934 og komu þau til framkvæmda fyrst 1935, svo að ekki standa þau í sambandi við mitt framboð. Og ég held, að ég hafi ekki haft úrslitaáhrif um það sem einn maður af sjö í þeirri n., sem hefur ákveðið verðjöfnunarsvæðin, hvernig þeim hafi verið breytt. Árið 1942 var ég svo í framboði í Vestur-Skaftafellssýslu. Og þó að kjósendur þar hafi borið mér margt á brýn á framboðsfundunum þar, bæði um vorið fyrir kosningarnar og einnig fyrir haustkosningarnar, og sömuleiðis þeir, sem buðu sig fram á móti mér, þá veit ég ekki til, að þeir, sem keppt hafa á móti mér við kosningar, hafi nokkurn tíma haldið fram, að ég hafi notað þetta mál, stækkun verðjöfnunarsvæðisins, í þeim tilgangi að vinna á við kosningar. En ég veit, að af því, sem borið er fram, trúir hv. þm. A-Húnv. betur því, sem ósatt er, og tel ég það ekki vera annað en eftir eðli þess hv. þm. í þessum efnum.

En ég vil segja að því er snertir þann ósanna málflutning, sem hv. þm. Snæf. hefur borið fram hér í þessu efni, að það liggur fyrir skjallega staðfest hér, að það hefur ekki verið neinn ágreiningur meðal þessara 7 manna í mjólkursölun. út af stækkun verðjöfnunarsvæðanna. Og þegar hægt er að færa fram prentuð gögn um það, að hv. þm. í stórvægilegu máli hefur farið með ósatt mál, og ef sá sami hv. þm. heldur því ósanna máli fram áfram, þá er það málflutningur, sem hæfir lögfræðingum einum — og kannske þeim mönnum, sem hirða lítt um, hvað satt er, heldur hitt, hvað þeir halda, að sé stundarhagur. En ég hef alltaf álitið, að þeir, sem nota slíkan málflutning, hljóti að tapa á honum, og það fyrr en þá nokkurn tíma grunar.

Ég get ekki látið hjá líða að ræða nokkuð meira um það, sem fram hefur komið í þessum umr., en læt það bíða næsta fundar.