15.02.1945
Neðri deild: 130. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 446 í C-deild Alþingistíðinda. (3490)

132. mál, sala mjólkur og rjóma o.fl.

Frsm. minni hl. (Jón Pálmason):

Herra forseti. — Þegar þessi umr. byrjaði, flutti ég hér stutta framsöguræðu um frv., sem fyrir liggur, en gerði ráð fyrir, að ekki þyrfti að fara út í langvarandi umr. um málið, því að mikið var rætt um það við 1. umr. En síðan ég flutti mína framsöguræðu hefur hv. þm. V-Sk. haldið hér ekki tvær, heldur fjórar ræður, því að hann hefur þurft að skipta báðum og hvor þeirra um sig hefur staðið á aðra klst. Sá hv. þm. hefur í þessum ræðum þanið sig um alla heima og geima, langt út fyrir þetta frv.

Ég geri ekki ráð fyrir að fara að svara þessum hv. þm., enda gerist þess ekki þörf í sambandi við þetta frv. Hann byrjaði sína fyrri ræðu þannig, að það kom greinilega í ljós, að hann þóttist eiga einhvers að hefna út af ræðu, sem ég flutti hér í öðru máli hálfum mánuði áður og í sjálfu sér ekki kom þessu frv. neitt við. Fór hann með ýmsar fullyrðingar um það, hvað ég hefði sagt í því sambandi, m. a., að það hefðu komið fram í minni ræðu mjög alvarlegar mótsagnir, þar sem ég hefði talið lítils virði, að framleiðendur í þeim héruðum, sem lagt er til í frv., að bætt verði inn á verðlagssvæði, fengju að selja sína vöru á verðlagssvæði þegar aðrir hefðu hana ekki til, en ég hefði í sömu ræðu haldið fram hins vegar, að það kæmi aldrei fyrir, að ekki vantaði eitthvað af mjólkurvörum á Reykjavíkurmarkaðinum. Ég hygg, að ég hafi ekki haft þau orð um þetta, heldur sagt, að mjög oft vantaði þar mjólkurvörur. Og maður veit, að á smjöri er alltaf vöntun, og á skyri og rjóma er oft mikil vöntun. Hins vegar er það gefinn hlutur, eins og nú háttar verðlagi á þessum vörum, að það er mjög lítils virði fyrir framleiðendur að fá söluleyfi fyrir þeim á markaðsstöðunum aðeins lítinn hluta af árinu og aldrei á þeirri vörunni, sem verðmest er samkv. verðákvörðunum nú, sem er nýmjólkin. En nú mun fást 30% minna fyrir smjörið, ef það er búið til úr mjólkinni, heldur en í mjólkinni sem nýmjólk. Það er þetta, sem gerir það að verkum, að héruð, sem ekki hafa rétt til þess að selja mjólk á aðalmarkaðinum, breyta ekki um framleiðslu sína, ef ekki verður hagað verðákvörðunum og söluréttindum á þessum vörum öðruvísi en nú er.

Hv. þm. V-Sk. sagði, að ég hefði haft í hótunum um það, að fyrirkomulag það, sem hefði verið á mjólkursölumálunum, yrði ekki lengi liðið úr þessu. Það er ekki rétt, að ég hafi haft neinar hótanir í frammi út af þessu. En ég lýsti yfir og er ákveðinn í því, að ég held, að landsfólkið sé búið að sjá það svo greinílega, hvers konar vandræða fyrirkomulag er á þessum málum, að það geti ekki komið til mála, að það verði liðið til lengdar úr þessu. Og ég byggi það á því, að svo langt er nú komið, að það varðar sektum og hegningum, ef bændur utan verðlagssvæðanna selja rjóma og skyr á þeim tíma, sem þessar vörur eru annars ekki til á aðalmarkaðsstöðum landsins. En hins vegar hefur orðið að flytja smjör vestan frá Ameríku, jafnhliða því, sem það er vandkvæðum bundið fyrir okkur að selja til útlanda aðrar landbúnaðarvörur, sem við bætum seljendum upp með stórfé.

Hv. þm. V-Sk. sagði, að það væri ekki verið að tala um það varðandi aðra framleiðsluvöru en þessa, hvort menn gætu selt fyrir framleiðsluverð eða ekki. Nú er það ekki það, sem verið er að fara fram á hér að fá neina tryggingu fyrir því, hana er ekki hægt að gefa, heldur hitt, að okkur sé ekki bannað að selja okkar framleiðsluvörur, sem nauðsyn er á að selja á þessum aðalmarkaði í landinu. Það er annað, hvort menn geta selt fyrir það verð, sem þeir þurfa að fá, eða hvort þeim er bannað að selja vöruna.

Hér hefur verið mjög á þá strengi slegið af hv. þm. V-Sk., að það væri útilokað að flytja mjólkina hingað suður norðan úr Húnavatnssýslu og vestan úr Dölum og Snæfellsnessýslu, og að þar væri mjög ólíku saman að jafna á við það að flytja hana frá yztu svæðum núverandi verðlagssvæðis Reykjavíkur og Hafnarfjarðar. Þessu hef ég svarað áður. Ég hef tekið fram, að þegar vegurinn er góður um hásumarið, er ekki nema fjögurra klst. akstur úr miðri Austur-Húnavatnssýslu til Borgarness. Hitt er svo vitað, að það eru erfiðleikar á að flytja mjólk norðan yfir Holtavörðuheiði að vetrinum.

Hv. þm. V-Sk. gerði mjög mikið úr því, að ekki væri hægt að veita þessum héruðum, sem í frv. er farið fram á að bæta inn á verðlagssvæði, réttindi, meðan þar væru ekki til nein mjólkurbú. En því er þar til að svara, að það er ekki von á því, að í það sé ráðizt eða að því stefnt að fara að setja þar upp mjólkurbú, ef bændur á þessum svæðum geta ekki átt von á því að fá að komast inn á markaðssvæðin með þessar söluvörur sínar. Það kostar langan undirbúning að breyta framleiðslunni, og undirstaðan undir því, að það verði gert, er að fá réttindin til sölunnar á framleiðsluvörunum.

Annað höfuðatriðið í þessu frv. er það, að verðlagssvæðin skuli vera ákveðin af Alþ., en ekki af n., sem hafi einkarétt um það, eins og nú er. Út frá þessu fór hv. þm. V-Sk. að tala um það, að það væri ekki verið að hafa mikið fyrir því að spyrja Alþ. um slíkt, þegar um fisk væri að ræða, eins og nú nýlega hefði komið upp. En þar er alveg ólíku saman að jafna. Ég veit ekki annað en að það, sem vakir fyrir mönnum með fisksöluna, sé ákaflega svipað og hefur verið um okkar kjöt. Landinu er þar skipt í verðlagssvæði að vísu, en eins og nú standa sakir um kjötið, þá er alls staðar sama verð fyrir það, hvar sem það er framleitt á landinu. Og ég veit ekki annað en að tilgangurinn með þeim l. og reglum, sem settar hafa verið nýlega um fisksöluna, sé sem næst því, að það sé alveg sama verð á fiski hvaðan sem er af landinu. Og í sambandi við fisksöluna er ekki um neina deilu að ræða, slíka sem hér er um að ræða, um að vissum héruðum sé bannað að selja fisk á aðalmarkaðinn. En hér er mönnum bannað að selja sínar vörur, nema þeim, sem hafa fengið lögverndun hjá mjólkursölunefnd.

Hv. þm. V-Sk. sagði eitthvað á þá leið í einni sinni ræðu, að það væri nú orðið þannig með mjólkina, að bændur fengju fyrir hana sama verð hvar sem væri á landinu. Þetta eru ein af hans venjulegu ósannindum, sem eru alkunn hér á þingi. Því að það vita allir, að það er ákaflega mikill munur á því verðlagi, sem er á mjólkinni víðsvegar um landið, og þarf ekki annað en að nefna það, að jafnvel þar, sem mjólkurbú eru, er verðið mjög misjafnt. Hefur mér verið sagt, að Skagfirðingar hafi fyrir árið 1943 fengið stórum lægra verð fyrir sína mjólk heim til bænda en þeir, sem voru á verðlagssvæði Reykjavíkur og Hafnarfjarðar. Og ef það er ekki rétt, treysti ég hv. 1. þm. Skagf. til að leiðrétta það hjá mér, því að hann hefur haft með að gera stjórn á þessum málum. — Að öðru leyti er svo þess að geta, að þar, sem bændur aðstöðu sinnar vegna hafa verið neyddir til að framleiða úr mjólk sinni smjör og aðrar afurðir, þá hafa þeir fengið um það bil þriðjungi lægra verð fyrir nytina úr hverri kú en þeir, sem eru hér á verðlagssvæði Reykjavíkur og Hafnarfjarðar. Ég sá grein, sem birtist í gær frá bónda í Þingeyjarsýslu, þar sem hann færir fyrir þessu glögg töluleg rök. Það er þess vegna ekki undarlegt, þó að fram komi krafa frá þeim mönnum, sem aðeins hafa framleiðslu til að selja sauðfjárafurðir, um að komast að því að geta haft framleiðslu, sem gefur meiri arð.

Þá sagði hv. þm. V-Sk., að það hefðu engar umsóknir komið um það til mjólkurverðlagsn. frá bændum sjálfum, að verðlagssvæði Reykjavíkur og Hafnarfjarðar yrði stækkað eins og ráð er fyrir gert í frv., og að ég og hv. þm. Snæf, hefðum flutt þetta frv. aðeins eftir okkar áliti á málinu. Ég vil í sambandi við þetta benda á, að á aðalfundi búnaðarsambands Austur-Húnavatnssýslu, sem haldinn var í fyrravetur, var samþ. með öllum greiddum atkv. áskorun um að tryggja, að félagið kæmist inn á mjólkurverðlagssvæði Reykjavíkur og Hafnarfjarðar. Og þar var ekki hlutdrægni í pólitík til að dreifa. (SvbH: Hverjum dettur í hug, að hlutdrægni í pólitík sé þar, sem hv. þm. A-Húnv. er?) Ég mætti þar ekki sem fulltrúi, og ef hv. þm. V-Sk, vill halda fram, að þar hafi verið um einhverja hlutdrægni að ræða frá minni hálfu, get ég sagt honum það, af því að ég veit, hve honum er hlýtt til þeirra manna, sem ekki eru í Framsfl., að yfirgnæfandi meiri hluti á þessum fundi voru framsóknarmenn. Og hv. þm. V-Sk. vænir þá sennilega ekki um heimsku eða þekkingarleysi, þó að þeir séu norður í Húnavatnssýslu, eins og hann brigzlar mér og hv. þm. Snæf. um, sem sé, að þeir væru að gera slíkar kröfur, sem þeir vissu, að hefðu enga þýðingu.

Þá er það þetta, sem mjög hefur verið um talað, hvort það skipti svo ákaflega miklu máli, hvort mjólk væri flutt nokkrum km. eða nokkrum tugum km. lengra eða skemmra. Eftir öllum þeim upplýsingum, sem ég hef fengið um það atriði, verð ég að álíta, að það sé ekki aðalatriðið eða sem neinu valdi um þessi efni, heldur hitt, hve gömul mjólkin er, þegar hún kemur til neytenda. Og hún getur verið orðin gömul, þó að hún sé ekki flutt mjög langt að.

Eitt kom fram í ræðum þeirra hv. þm. V-Sk. og hv. þm. V-Húnv., sem mér þótti vænt um, að þeir gerðu báðir ráð fyrir því, sem er í samræmi við mínar skoðanir, að það mundi fara svo, að allir flutningar frá Norðurlandi suður til Reykjavíkur mundu að lokum verða um landleiðina fyrir Hvalfjörð. Og þó að það yrði, sem ég óska, að yrði sem fyrst, þá held ég, að það geti fullkomlega staðizt, að a. m. k. sé hægt að flytja mjólk frá þeim héruðum, sem hér í frv. er farið fram á að bæta inn á verðlagssvæði Reykjavíkur og Hafnarfjarðar. Hitt er svo aftur augljóst mál, að að vetrinum, þegar ekki eru færar leiðir frá öllum þessum stöðum suður, verður að vinna úr mjólkinni, og til þess verður að koma upp vinnslubúum a. m. k. norðan við Holtavörðuheiði. En það rekur sig ekkert á það skipulag, sem hér hefur verið ríkjandi, því að verðjöfnun á að geta komið til greina í því sambandi, hvort sem mjólkin væri flutt allan ársins hring eða ekki.

Þá er eitt atriði, sem hv. þm. V-Sk. talaði um, að það væri rangt frá minni hálfu, að verðjöfnunin hafi upphaflega verið gerð á mjólk á kostnað þeirra manna, sem næst búa höfuðstaðnum. En að mótmæla þessu, sem ég hélt fram um það, er auðvitað ekki annað en venjulegar blekkingartilraunir frá hálfu þessa hv. þm., því að það vita allir, að deilan stóð um það upphaflega, hvort verðjafna ætti þessa vöru á kostnað þeirra, sem nærri eru höfuðstaðnum. Og það er það, sem þeir fluttu sínar varnir gegn. En úr því að búið er að verðjafna mjólk fyrir jafnstórt svæði og þegar hefur verið ákveðið, þá er augljóst, að það er ekki sanngjarnt, að það sé látið þar við lenda, vegna þess að svo margar sveitir og einstaklingar hafa svipaða aðstöðu vegna bættra samgangna til þess að koma vörum sínum á markaðinn, sem þeir þó ekki höfðu þá, eins og þeir, sem á verðjöfnunarsvæðinu eru margir hverjir. Og í því sambandi er það í sjálfu sér alveg rétt fram tekið, sem hv. 1. landsk. þm. sagði hér um daginn, að við, sem nú sækjum um að komast undir þessi verðjöfnunarákvæði, stöndum að vissu leyti í sömu sporum og þeir menn gerðu á sínum tíma, sem sóttu um að komast inn á þetta verðjöfnunarsvæði og voru í fjarsveitunum þá.

Hv. þm. V-Sk. ræddi allmikið um þær deilur, sem frá upphafi hefðu verið um þessi mjólkurmál, um það, hvort það hefði verið rétt á sínum tíma að setja þessi l. og hvort þetta skipulag væri rétt eða ekki rétt. En þessi hlið málsins er nú raunverulega ekki til umr., og þarf því ekki að svara þeim hluta ræðu hans. En hv. þm. V-Sk. sagði, að það væri búið með alla óánægju út af þessu máli. En það var ekki annað til athugunar í því sambandi, þegar ég eða aðrir minntust á það, eins og ég gerði lítillega í grg. þessa frv., en framkvæmd þessara mála. Og þar sem svo er, þarf ég ekki miklu því að svara, því að svör við því hafa komið fram í ræðum annarra hv. þm. nú við þessa umr., hve mikill sannleiki er í því, að engin óánægja sé til í þessu efni. En um það er ekki deilan, heldur hitt, hvort eigi að gefa fleiri mönnum þau réttindi, sem mönnum hafa verið gefin í þessum efnum á þeim svæðum, sem innan verðlagssvæðanna eru.

Þá fór hv. þm. V-Sk. að tala um það, að það væri öfugt við skoðanir okkar stjórnarliða um nýsköpun í þjóðfélaginu, að við værum að flytja svona frv. eins og þetta, en að það hefði verið hin bezta nýsköpun, sem hefði átt sér stað á undanförnum árum, að þetta skipulag komst á. Ég veit ekki, hvað hv. þm. V-Sk. heldur, að hægt sé að færa undir nýsköpun frá hálfu okkar landsmanna, ef ekki það, að farið sé fram á að breyta framleiðslunni í það horf, að bændur framleiði þær vörur, sem helzt er markaður fyrir og mest arðsvon er við sölu á. Og það er gefið mál, að framleiðslunni verður ekki breytt í þessum héruðum nema vissa sé fyrir því, að framleiðendur þar njóti sama réttar eins og aðrir menn um að nota markaðinn.

Mér þykir ekki ástæðulaust að minnast á það, að mér þykir vera komið á hámark ósvífninnar, þegar maður, sem er kunnastur fyrir að fara hér með rangfærslur og ósannindi í hæstv. Alþ., er að brigzla einhverjum heiðarlegasta manni, sem hér á sæti á þingi, hv. þm. Snæf., um það, að hann fari með rógburð, lygi og níð, ekki aðeins hér á Alþ., heldur og utan þess. Og í sambandi við það þykir mér vert að geta þess, sem hv. þm. Snæf. vék að, að stækk-un á verðlagssvæðinu og hlunnindin í þessum mjólkurmálum hafa staðið í nokkuð nánu sambandi við þingmennskuframboð og agitationir hv. þm. V-Sk. á undanförnum árum, að ég held líka, að ekki sé hægt að mæla á móti því. Og í því sambandi verð ég að segja það, að það tekur ekki til mjólkurl. eins og þau upphaflega voru sett. Og það er ekki nein vörn fyrir hv. þm. V-Sk., þó að hann tilfæri árið 1931 eða 1933 í þessu sambandi. Árið 1934, þegar mjólkurl. voru sett upphaflega, var hann hér ekki. (SvbH: Var ég ekki í framboði í Rangárvallasýslu þá?). Jú, það er rétt. En mjólkurl., í þeirri mynd, sem þau voru þá, voru í flestum atriðum mjög sanngjörn lög. Og eins og gefur að skilja, get ég ekki orðið fyrir neinum ásökunum út af þeim l., sem þá voru sett, því að ég var ekki einn þeirra manna, sem þá greiddu þeim atkv. En það var ekki hið sama hægt að segja um mjólkurlagabreyt., sem gerð var 1937. Þá var að vísu ekki heldur hv. þm. V-Sk. núverandi á þingi. — En hvað sem því líður, hefur hv. þm. V-Sk. leikið hvað eftir annað þann leik að setja stækkun verðjöfnunarsvæðisins í samband við framboð sitt bæði í Rangárvallasýslu og Vestur-Skaftafellssýslu. Og ég er viss um það, að ef honum dytti í hug að bjóða sig fram á Snæfellsnesi, í Dölum eða Húnavatnssýslu, þá yrði það hið fyrsta, sem hann lofaði, að þau héruð yrðu tekin inn á verðjöfnunarsvæði Reykjavíkur og Hafnarfjarðar, þó að hann berjist á móti því nú. — Og hv. þm. V-Sk. endaði ásakanir sínar með því að kasta því að hv. þm. Snæf., að það væri lögfræðingum einum samboðið að fara með slík ósannindi sem hann hefði gert.

Það var auðheyrt, að hv. þm. V-Húnv. þóttist standa nokkuð höllum fæti gagnvart sínum kjósendum og að honum fannst hann þurfa að segja eitthvað til þess að afsaka það, að hann væri andvígur þessu frv., sem hér liggur fyrir. Hann byrjaði á því, sem mér þótti mjög leiðinlegt og er ólíkt honum, að fara með þá sögusögn, að þetta frv. hefði ekki verið flutt í samráði við sig og hann hefði ekki átt neinn kost á því að vera meðflm. þess. Þetta veit hv. þm. V-Húnv., að er rangt, því að í fyrra, þegar við fluttum þetta frv., sem er alveg sama frv., þá fór ég til hans og bauð honum og óskaði beinlínis eftir því, að hann yrði meðflm. að þessu frv. En hann neitaði því. Það er þess vegna mjög leitt, að þessi hv. þm. skuli koma og segja, að hann hafi ekki átt kost á því að vera meðflm. að þessu frv. og að það hafi verið flutt alveg á bak við sig. — Þá fór hann og að segja það, að vegna þess að samgöngutækni væri svo léleg, þá sæi hann ekki, að sínir kjósendur eða aðrir Húnvetningar hefðu neitt gagn af því, þótt þetta frv., sem hér liggur fyrir, yrði samþ. Þar er að sjálfsögðu um að ræða ágreining okkar á milli, sem kann að vera mjög eðlilegur, ég veit ekki um það. Það kann vel að vera, að bændur í Vestur-Húnavatnssýslu séu á annarri skoðun í þessu efni en bændur í Austur-Húnavatnssýslu. En þó þykir mér undarlegt, ef svo er almennt, því að það veit hv. þm. V-Húnv. eins vel og ég, að undirstaðan undir því, að hægt sé að breyta framleiðslunni og stefna að því, að hægt sé að stofna til mjólkurvinnslu norður í Húnavatnssýslu, er að tryggja, að bændur þar fái aðgang að markaði um að selja mjólkurvörur sínar.

Þetta mál liggur ljóst fyrir, og frekari umr. um það er vafasamt, að upplýsi það frekar. En það er út af fyrir sig rétt, sem hv. þm. Snæf. tók fram, að það verður ekki þagað í hel, að fleiri menn fái að selja mjólk og mjólkurvörur á verðlagssvæði Reykjavíkur og Hafnarfjarðar en nú fá það. Og þó að lítið sé, er það kannske árangur af flutningi þessa máls, að ein sveit á Snæfellsnesi hefur verið tekin inn á verðlagssvæðið frá því er frv. var fyrst flutt. (PZ: Eru þær ekki þrjár?). Ef þær eru þrjár, eins og hv. 2. þm. N-M. segir, þá er það því betra. En út af þeim orðum, sem féllu hér hjá hv. þm. V-Sk., að menn væru með ásakanir og illindi að tilefnislausu í þessum málum til þess að hafa allt á hornum sér og gera öðrum mönnum gramt í geði, þá tek ég fram, að þau ummæli hv. þm. eru tilefnislausar ásakanir á flm. þessa máls, því að þetta frv. er alls ekki flutt í þeim tilgangi. Það eru hins vegar andstæðingar þessa máls, hv. þm. V-Sk. og aðrir, sem snúizt hafa gegn því, sem hafa kallað hér fram harðar deilur út af þessu máli. Og þær halda áfram, ef ekki verður tekið tillit til þeirra óska, sem liggja bak við þetta frv. Læt ég þar með máli mínu lokið.