29.09.1944
Neðri deild: 58. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 452 í C-deild Alþingistíðinda. (3495)

138. mál, bygging og rekstur sjúkrahúss á Akureyri

Flm. (Sigurður E. Hlíðar):

Eins og sjá má á frv. því, sem fyrir liggur og er á þskj. 346, er um nýmæli að ræða í heilbrigðismálum landsins að því leyti, að gert er ráð fyrir, að reistur verði fjórðungsspítali á Akureyri, er rekinn verði á ríkisins kostnað. Í 3. gr. frv. er ákvæði þess efnis, að um yfirstj. sjúkrahússins fari samkv. l. frá 1933, að það sé yfirspítalan. ríkisspítalanna, er hafa skuli yfirumsjón þess. Í 4. gr. er ákvæði um, að eignir Akureyrarspítala skuli falla endurgjaldslaust til hins nýja ríkisspítala, þegar ákvæði þessara l. koma til framkvæmda.

Í grg. hef ég leyft mér að skýra þetta mál nokkuð, tilgang þess og þróun á Akureyri. Eins og mörgum hv. þm. er eflaust kunnugt, er Akureyrarspítali gömul stofnun, að mestu timburhús reist fyrir aldamót. 1920–1922 var reist álma til viðbótar, og er hún úr steini. Síðan leið langur tími, svo að ekkert var gert til að stækka spítalann, þó að þörfin væri mikil. Meira að segja stjórnarvöldin með landlækni í broddi fylkingar lýstu yfir því fyrir 10 árum, að Akureyrarspítali væri með öllu óhæfur og úr sér genginn. Þá kom nýr skriður á þetta mál. Menn fundu, hve þörfin á endurbótum var knýjandi, og var þá farið að gera áætlun um að reisa nýjan spítala. Þetta hefur gengið í talsverðu þófi. Menn hafa verið með uppástungur og bollaleggingar, áætlanir hafa verið gerðar og teikningar lagðar fram, og um tíma var hallazt að því ráði að byrja þegar á byggingunni, þar sem ekki væri hægt að draga það öllu lengur. Var horfið að því að byrja á sérstakri álmu, sem verða skyldi upphaf að fullkomnum spítala, er reisa skyldi smám saman á tiltekinni lóð. Í þessari álmu er rúm fyrir skurð-, ljóslækninga- og röntgenstofur, og er hún tengd gamla spítalanum með trjágöngum. Þetta er aðeins bráðabirgðaúrlausn, sem bætt hefur úr brýnustu þörfinni, en nauðsyn á nýju sjúkrahúsi er jafnaðkallandi og áður, því að gamla húsið getur hvergi nærri uppfyllt þær kröfur, sem gera verður til nýtízku sjúkrahúss. Nú er almennur áhugi vaknaður um allt Norðurland um þessa sjúkrahússbyggingu. Sveitirnar hafa lagt fram sinn hlut og sýnt vaknandi áhuga sinn ásamt Akureyrarbúum með því að senda þ. áskorun, sem er undirskrifuð af hálfu fjórða þús. kjósenda norðanlands, og liggur hún hér frammi í lestrarsalnum. Er von á fleiri áskorunum, og sýnir þetta, hve áhuginn er mikill og kröfurnar háværar um, að sjúkrahúsinu verði komið upp. Aðsókn að Akureyrarspítala hefur verið ákaflega mikil um langt skeið, kannske meðfram af því, hve góðir læknar hafa valizt að honum, sérstaklega hinn ágæti skurðlæknir, sem nú er. Akureyri er líka eins konar miðstöð Norðurlands. Geri ég ráð fyrir, að þetta með öðru orsaki það, að menn eru á einu máli um, að á Akureyri eigi að koma upp nýtízku spítala, sem ekki fullnægi einungis þörfum bæjarins sjálfs, heldur og nærsveitanna. Það hefur komið í ljós síðustu árin, að aðsókn hefur verið svo mikil að Akureyrarspítala, að 62% sjúklinga þar eiga heima utan bæjar, en aðeins 38% á Akureyri sjálfri. Það voru jafnvel 114 legudagar héðan úr sjálfri Reykjavík. Þetta sýnir gleggst, að hér er ekki talað um spítala aðeins fyrir Akureyrarkaupstað, heldur er hér miklu stórfenglegra plan á ferðinni og háar kröfur um, að því plani verði fylgt.

Sýslun. Þingeyjarsýslu og Eyjafjarðarsýslu hafa sent áskoranir til Alþ. auk bæjarstjórnar Akureyrarkaupstaðar, og þar að auki hafa kvenfélögin beitt sér mjög fyrir þessu máli, og má benda á, að það liggur fyrir frá Sambandi norðlenzkra kvenna áskorun í sömu átt. Allt eru þetta augljós dæmi um þann áhuga, sem vakir fyrir þessu máli, og þá, sem standa bak við kröfurnar um, að hafizt verði handa og ríkið sjálft láti reisa spítala á Akureyri og reka hann sem fjórðungsspítala.

Ég geri ráð fyrir, að þessu mikla máli verði vísað til n. Ég legg til, að því verði vísað til heilbr.- og félmn., því að það heyrir þar undir, og vænti ég, að hv. d. vísi því til þeirrar n. og 2. umr.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða meira um þetta mál. Það er nokkuð glöggt rakið í grg., og eru þar prentaðar ályktanir frá sýslun. og bæjarstjórninni, en þær tala sínu máli og sýna, hve gild rök eru fyrjr nauðsyn þessa máls.