29.09.1944
Neðri deild: 58. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 453 í C-deild Alþingistíðinda. (3496)

138. mál, bygging og rekstur sjúkrahúss á Akureyri

Forsrh. (Björn Þórðarson):

Ég get ekki staðið mig við að láta málið ganga í gegnum þessa umr., án þess að ég taki fram nokkur atriði, sem ég tel, að nauðsyn beri til að undirstrika, áður en heilbr.- og félmn., sem tekur málið til athugunar, tekur til starfa, þó að ég efist ekki um, að sú hv. n. líti í úthorn hvers vanda í þessu máli.

Eins og hv. flm. gat um, þá er málið nú borið upp og borið fram af áhugabylgju, sem risið hefur á Norðurlandi, ekki aðeins í Akureyrarbæ og Eyjafjarðarsýslu, heldur einnig víðar á Norðurlandi. Það er skiljanlegt, að þessi áhugi sé til staðar, því að Akureyri hefur átt við að búa ófullnægjandi sjúkrahús um langt skeið, og ég tek fyllilega undir það eftir þeirri þekkingu, sem ég hef á málinu, sem er auðvitað takmörkuð, að það er þörf á Akureyri fyrir langtum fullkomnara sjúkrahús en þar hefur verið.

Af stj. hálfu verður því ekki gert annað en mæla hið bezta með, að Akureyri og Norðurland fái sem fullkomnast sjúkrahús.

En það er annað atriði, sem kemur hér oft til greina, eins og hv. flm. gat um í upphafi ræðu sinnar. Það er, að hér er nýmæli á ferðinni, og mjög merkilegt nýmæli, því að í 2. gr. frv. er sagt, að það sé ekki aðeins kostnaðurinn við bygginguna, sem eigi að greiðast úr ríkissjóði, heldur einnig rekstur sjúkrahússins. Hér er komið inn á gersamlega nýja stefnu í heilbrigðismálum ríkisins, að ríkið eigi að taka að sér að fullu og öllu að reka almennt sjúkrahús hér á landi.

Almenn sjúkrahús hafa aldrei verið rekin beint af ríkinu. Landsspítalinn er að vísu rekinn af ríkinu og er almennur spítali, en hann er nauðsynlegur fyrir læknakennslu í landinu. Það er óhjákvæmilegt, ef reka á læknakennslu hér á landi, að reka jafnhliða hæfilegan spítala með tiltölulega mörgum sjúklingum og tiltölulega mörgum sjúkdómstækjum. Það er frá þessu sjónarmiði, sem verður að líta á ríkisrekstur Landsspítalans.

Hins vegar eru önnur sjúkrahús, sem er ríkisrekstur á og hefur verið frá upphafi. Það eru sérstök sjúkrahús fyrir stöðuga, langvinna sjúkdóma, sem alltaf eru til í landinu, þó að vonlegt sé, að þeir kunni einnig að hverfa, er stundir líða. Þessi sjúkrahús eru berklahæli, geðveikrahæli og holdsveikraspítali. Þessi sjúkrahús eru rekin af ríkinu, því að þau eru alveg sérstæð, en almennt sjúkrahús er ekki rekið annað en Landsspítalinn.

Ef taka á þessa stefnu upp, verður maður að líta vel í kringum sig. Ég neita því engan veginn, að sönnur liggi fyrir því, að sjúkrahúsið á Akureyri hafi verið notað af sjúklingum utan umdæmisins í ríkum mæli lengi og nú upp á síðkastið í tiltölulega enn ríkara mæli en verið hefur áður. En það tekur ekki af skarið um það, að þetta sjúkrahús eigi að vera ríkiseign, því að það hlýtur óhjákvæmilega að leiða af sér, að sjúkrahús í öðrum landsfjórðungum verði líka rekin af ríkinu, og ef það er farið inn á þá stefnu að hafa ríkisrekstur á öllum sjúkrahúsum í landinu, þá er það pólítísk stefna, sem verður að athuga og íhuga, upp á hvaða afleiðingar hún kunni að hafa.

Nú er það í uppsiglingu hér í Reykjavík, að reisa þurfi mikla viðbót við þau sjúkrahús, sem hér eru fyrir, og hefur verið ráð fyrir gert, að Reykjavíkurbær legði fram þann tiltölulega hluta, sem lögmætur er og venjulegt er, að sveitarfélög eða bæjarfélög leggi fram, þegar um sjúkrahúsbyggingar er að ræða. Ef það verður nú afgreitt hér á þessu þingi, að á sjúkrahúsi Akureyrar verði ríkisrekstur, þá er ég ósköp hræddur um, að Reykjavík mundi kippa að sér hendinni eða verða tregari til framlags til nýrrar sjúkrahúsbyggingar heldur en hún hefur þó látið til leiðast að vera til þessa.

Nú, en hvers vegna er það, að Reykjavík hefur ekki rekið sjúkrahús upp á eigin spýtur? Það er eingöngu því að þakka eða því að kenna, að hér hefur verið um langan aldur sérstök trúboðsstofnun, sem tekið hefur ómakið af Reykjavíkurbæ og rekið Landakotsspítalann. Það er því ekki þannig, að Reykjavík hafi komizt hjá að reka spítala vegna þess, að ríkið hafi tekið á sig þær skyldur, heldur beinlínis af þessari ástæðu, sem ég nú nefndi.

Hv. flm, gat þess, að svo mikill áhugi væri fyrir málinu á Norðurlandi, að safnað hefði verið undirskriftum um 3 þús. kjósenda, og hefðu þær verið lagðar hér fram. Ég efast ekki um, að ef unnið væri að því í Vestur- og Austurfjórðungunum, þá mundu hlutfallslega fást jafnmargir alþingiskjósendur til að mæla með, að spítalar þar yrðu einnig ríkiseign.

Ég vil enn fremur taka fram, að í athugasemdum við þetta frv. er þess getið, að bæjarstjórn Akureyrar hafi samþ. að skora á Alþ. að leggja fram 500 þús. kr. til þessarar byggingar á næsta ári. Ég skal ekki segja um, hvað Alþ. sér sér fært að leggja mikið fram á þessu ári, en í fjárlagafrv., sem lagt er hér fram nú, hefur fjmrn. ekki séð sér fært að fara lengra en leggja til, að styrkur til að reisa læknabústaði og bæta húsakynni lækna sé 750 þús. kr., og af þeim peningum hefur félmrh. þegar ráðstafað eða skuldbundið sig til að verja 300 til 350 þús. kr. til byggingar læknisbústaða. Það er því lítil upphæð eftir, svo að ekki er nokkur leið að taka þessar 500 þús. af þeirri fúlgu, sem hér er áætluð, heldur verður að bæta við hana, en það er mál út af fyrir sig.

Hv. flm. hefur í ræðu sinni lagt til, eins og eðlilegt var, að málinu væri vísað til heilbr., og félmn., og álít ég það sjálfsagt út af fyrir sig, en ég tel málið svo veigamikið, að það sé varhugavert að ráða því til lykta á þessu þingi í því formi, sem það er nú. Ef þess vegna Alþ. er ekki einhuga um, hvernig afgreiða beri málið, þá teldi ég ekki illa til fallið, að það væri fengið mþn. til athugunar um það, hvernig heilbrigðismálum eða rekstri sjúkrahúsa í landinu skuli vera hagað í næstu framtíð, þar sem málið er svo mikilsvert, að það þarf að athuga það enn nánar en ein þingnefnd í þingönnum getur komið við að gera.