29.09.1944
Neðri deild: 58. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 457 í C-deild Alþingistíðinda. (3498)

138. mál, bygging og rekstur sjúkrahúss á Akureyri

Atvmrh. (Vilhjálmur Þór):

Vegna þess að ég er nokkuð kunnugur staðháttum á Akureyri frá langri dvöl þar, og vegna þess sérstaka kunnugleika á sjúkramálum þar, sem leiðir af því, að ég var á annan tug ára starfandi í sjúkrahúsn., þá get ég ekki látið hjá líða strax við l. umr. að segja nokkur orð.

Mig undrar ekki, heldur þykir eðlilegt, að það komi fram ákveðin og einbeitt tilmæli, ósk og krafa frá Akureyringum um, að það verði ekki lengur látið dragast að leggja fram verulegt framlag frá því opinbera til byggingar sjúkrahúss þar norður frá. Sjúkrahúsið á Akureyri hefur verið um marga tugi ára ekki aðeins sjúkrahús Akureyrar, heldur vægast sagt fjórðungsspítali, og mætti jafnvel segja upp á síðkastið landsspítali. Þetta er ósköp eðlilegt vegna legu Akureyrar og samgangna þangað, að þá sækir meira af sjúklingum af Norðurlandi og Austurlandi þangað heldur en til annarra staða. Auk þess hafa Akureyri og Akureyrarsjúkrahús verið svo lánsöm í marga tugi ára að hafa afburða lækna og ekki sízt nú lækni, sem af öllum, sem til þekkja, er talinn afbragð annarra lækna.

Þrátt fyrir þetta, að spítalinn hefur tekið á móti fólki alls staðar af landinu, þá hefur Akureyrarbær nærri hálfan annan tug ára einn staðið undir þessu og aðeins að nokkru leyti með Eyjafjarðarsýslu. Að vísu nýtur sjúkrahúsið smástyrks úr ríkissjóði, en svo undarlega vildi til, meðan ég þekkti þetta bezt, að æðioft létu stjórnarvöldin þennan spítala ekki njóta hlutfallslega jafnmikils styrks og aðra spítala. Af þessari ástæðu tel ég, að Akureyrarsjúkrahús eigi sérstaka kröfu til þess opinbera, að því verði liðsinnt á sérstakan hátt.

Frv. það, sem hér liggur fyrir, gerir ráð fyrir, að byggður verði fjórðungsspítali. Það má ef til vill segja, að ef haldið væri við þá ósk, þá sé komið inn á þá braut að gefa fyrirheit um, að byggðir verði fjórðungsspítalar í hinum fjórðungunum líka, og má vera, að það verði á þessu stigi málsins haft á móti frv., að upp á þessu fyrirkomulagi sé stungið.

Eins og ég sagði áðan og frsm. tók fram, þá hefur þessi spítali sérstaklega miklu meiri aðsókn víðs vegar að en nokkur spítali utan Reykjavíkur, og það er því að mínum dómi eðlilegt og sjálfsagt, að hann komi fyrstur af fjórðungsspítölunum. En hitt kemur engu síður til mála, að á Akureyri verði byggður landsspítali, því að enda þótt það sé réttilega tekið fram af hæstv. forsrh., að Landsspítalinn hér í Reykjavík hafi m. a. þá skyldu og sé til þess notaður að kenna læknanemum, þá þarf meira en kenna þeim meðan þeir eru í Háskólanum. Þeir þurfa að hafa aðgang að fullkomnum sjúkrahúsum til að æfa sig í handlækningum og læknastörfum yfirleitt. Landsspítali á Akureyri mundi verða sérlega vel séð stofnun, ætla ég, til þess að taka á móti nemendum, sem halda vilja áfram námi utan skólatíma. Í öðru lagi ætla ég, að slíkur spítali gæti leyst úr þeim vandræðum, sem oft eru á því að koma sjúklingum fyrir á sjúkrahúsi. Enn fremur er Kleppur svo fátækur að húsplássi, að til vandræða horfir, og hvað væri þá því til fyrirstöðu að byggja við landsspítala, sem væri á Akureyri, geðveikradeild, sem gæti orðið til mikils hagræðis fyrir Norðurland, með því að þangað væri þægilegra á Norðurlandi að koma geðveiku fólki fljótt heldur en til Reykjavíkur?

Mér sýnist rétt, að n. sú, sem fær þetta frv. til meðferðar, vildi taka til athugunar, hvort ekki væri æskilegt og réttlátt, að þessu máli væri snúið í það, að á Akureyri væri byggður landsspítali. Til Akureyringa sjálfra vildi ég segja, að mér virðist það vera vel gert, að þeir bjóði fram, að það safnaða fé, sem þegar hefur fengizt til byggingar spítala á Akureyri, geti runnið til þeirrar opinberu stofnunar, sem óskað væri, að byggð væri af ríkinu, ef þessu máli væri snúið upp í það að byggja landsspítala á Akureyri. Og ég teldi öruggt, að það yrði til þess að lyfta þessu máli og gefa því meiri byr til þess að koma því sem fyrst í höfn, ef Akureyringar og Eyfirðingar og allir Norðlendingar sýndu sömu rögg og fórnfýsi eins og þeir gerðu fyrir 20 árum, þegar hafizt var handa um að byggja Kristneshæli, þ. e. að þeir haldi áfram þeim samskotum og auki þau, sem hafin hafa verið til að stuðla að því, að á Akureyri geti orðið reistur fullkominn, góður og varanlegur landsspítali.