29.09.1944
Neðri deild: 58. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 458 í C-deild Alþingistíðinda. (3499)

138. mál, bygging og rekstur sjúkrahúss á Akureyri

Jón Sigurðsson:

Herra forseti. — Ég skal ekki mótmæla því, að reistur verði fullkominn spítali á Akureyri. En viss atriði virðist mér hér þurfa athugunar.

Þegar Landsspítalinn var byggður á sínum tíma, þá varð hann spítali fyrir Reykjavík. Reykjavík var þá og er enn einasta bæjarfélagið og einasta bæjar- eða sýslufélagið á landinu, sem í raun og veru hefur ekki rekið neinn fullkominn spítala á eigin reikning. Reykjavíkurbær hefur ekki heldur sem slíkur byggt spítala. Þannig hefur Reykjavík fríazt við — mér liggur við að segja skyldu — til að koma upp spítala, sem önnur héruð hafa orðið að taka á sig. Og afleiðingin af því, að Landsspítalinn er í raun og veru spítali Reykjavíkur, en Reykjavík hefur ekki komið sér upp eigin spítala, hefur þá líka oft orðið sú, að þegar sjúklingar hafa komið utan af landi, þá hefur þessi spítali verið yfirfullur, og þessir sjúklingar hafa orðið að bíða vikum og jafnvel mánuðum saman eftir því að geta komizt á Landsspítalann. Þegar þetta mál er til umr., hlýtur því að vakna sú spurning: Erum við þarna á réttri leið? Eigum við að stefna þessum málum í þann farveg, að þau bæjarfélög, þau héruð getum við sagt, þar sem mest er fjölmennið og bezt aðstaðan og bolmagnið til þess að koma upp stórum spítölum, komi því þannig fyrir, að ríkið kosti þessar stofnanir fyrir þau og þessi héruð séu leyst að miklu leyti undan kvöðum af rekstri spítalanna, en að önnur héruð, sem búa við verri kjör, séu látin byggja og reka sína spítala? Þetta virðist mér ekki rétt stefna. Og þó að ekkert væri annað til tekið, þá væri þetta ranglátt vegna þess aðstöðumunar, sem með þessu væri gerður um að geta fengið góða lækna í héruðin og haldið þeim. Mér sýnist þess vegna, þegar nú kemur fram í annað skipti slík till. um, að þarna sé byggður og rekinn spítali á Akureyri algerlega á ríkisins kostnað, þá sé vert að athuga það, hvort við séum þarna ekki á rangri leið og hvort ekki sé hægt að koma þessum málum öðruvísi fyrir, þó að ég mæli sízt á móti því að koma þarna upp fullkomnum, góðum spítölum. En mér virðist, að það ætti að vera gert með nokkurs konar samlögum ríkisins og viðkomandi bæjar- og sýslufélaga, sem spítalanna eiga fyrst og fremst að njóta, þannig að báðir þessir aðilar legðu nokkuð fram af byggingarkostnaðinum og standi báðir straum af rekstri spítalanna. Og þetta finnst mér þá eiga að gilda einnig viðkomandi Akureyrarspítala. Ef spítali á Akureyri verður byggður og rekinn af ríkinu, þá mundum við Skagfirðingar, sem rekum eigin spítala, og aðrir, sem reka sína eigin spítala víðs vegar um land, koma einnig og gera kröfu um, að ríkið tæki að sér rekstur þessara spítala þar, en önnur héruð fengju ekki slík fríðindi sem einhver forréttindi fram yfir þá, sem í strjálbýlinu búa. Þetta veit ég, að hv. þm. Ak. skilur alveg eins vel og ég; hann skilur, að slíkt mundi koma í kjölfar þess, ef ríkið tæki að sér að reisa og reka spítala á Akureyri. — Ég vil, að hv. heilbr.- og félmn. taki þetta til athugunar, hvaða árekstrar gætu af því orðið og mundu óhjákvæmilega verða, ef þetta fyrirkomulag verður tekið upp gagnvart stærri héruðunum, að ríkið hjálpi þeim svo mjög í þessum efnum.