18.10.1944
Neðri deild: 67. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 466 í C-deild Alþingistíðinda. (3515)

160. mál, launa- og kaupgjaldsgreiðslur

Flm. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. — Ég hef leyft mér að flytja hér frv. á þskj. 417 um launa- og kaupgjaldsgreiðslur. Ég býst við, að ýmsir hv. þm. líti svo á, að þetta frv. sé fram borið án þess að þörf sé á, enda hefur það komið fram í umr. síðustu dagana, að ýmsir hv. þm. telja ekki neina nauðsyn bera til að draga úr tilkostnaði framleiðslunnar eða lækka kaup- og launagreiðslur. En svo eru aðrir, sem telja þetta nauðsynlegt. Þeir líta svo á, að framleiðslan sé rekin með það miklum tilkostnaði, að mál sé til að draga úr þeim tilkostnaði á einhvern hátt. — Þetta frv. fer fram á, að laun eða kaup fyrir hvaða starf, sem vera skal, eða annað, sem dýrtíðaruppbót hefur verið greidd af, skuli reiknað með aðeins 90% af gildandi framfærsluvísitölu. Það jafngildir 17 vísitölustigum og er aðeins 7,5% kauplækkun, vegna þess að grunnkaup er látið óskert.

Bændur hafa nú nýlega boðið fram lækkun á afurðaverði, sem nemur 9,4%, og það má þess vegna segja, að þetta frv. sé mjög í samræmi við það frv., sem liggur fyrir þessari hv. d. og er búið að ganga í gegnum tvær umr. og verður sennilega samþ. Í frv. er ekkert talað um lækkun á kaupgjaldi, heldur aðeins það, að bændur afsali sér 9,4% hækkun á afurðaverði. Og það er ekki nema eðlilegt, að frv. eins og þetta, sem ég nú hef flutt, komi fram á eftir hinu frv. Frv. það, sem ég áðan nefndi, um lækkun á afurðaverði bænda, er byggt á samþykktum búnaðarþings. Búnaðarþing gerði sínar samþykktir í trausti þess, að aðrar stéttir kæmu á eftir. Það var ekki sett að skilyrði af hendi búnaðarþings, að aðrar stéttir gæfu eftir af sínu kaupgjaldi, en það, sem búnaðarþing samþ., var gert í trausti þess. En þótt liðnar séu nú 3 vikur frá því er samþykkt búnaðarþingsins var gerð, þá hefur ekki borið á því, að verkamenn hafi komið og boðið fram lækkun á kaupgjaldi samsvarandi því, sem bændur gerðu. Hins vegar hafa borizt fréttir um það, að ýmis félög úti á landi hafi viljað hækka kaup meðlima sinna. Það er þó ekki vonlaust, að ýmis félög verkamanna eða þeirra, sem laun taka, vildu af sjálfsdáðum koma með tilboð um lækkun á kaupi eða launum. En þar sem ekkert hefur á þessu bólað, virðist ekki ástæða til að treysta því svo mjög. Og það er þess vegna, sem þetta frv. er fram komið, og það er þess vegna, sem ég tel nauðsyn á að leiða þessa lækkun í lög, til þess að fá samræmi í það annars vegar, sem bændur hafa gert, og hins vegar laun manna, og vegna þess, að það er þjóðfélagsleg nauðsyn að byrja nú þegar að draga úr tilkostnaði við framleiðsluna. Það er vitanlegt, að lækkunin, sem bændur hafa boðið fram, 9,4%, er stórt spor í áttina til þess að klífa niður dýrtíðarstigann. En það nær ekki tilgangi sínum nema aðrar stéttir komi með og lækki sitt kaup. 7,5% lækkun, eins og nú er, er ekki það mikil, að tilfinnanleg sé fyrir launþega og verkamenn. Það má miklu fremur segja, að það sé skynsamleg ráðstöfun af þeirra hendi, sem komi til með að borga sig í ríkum mæli, því að með því að bjóða þessa lækkun fram, tryggi þeir sér atvinnu í nútíð og framtíð og tryggi, að atvinnuvegirnir geti haldið áfram að starfa í fullu fjöri.

Það munu nú ýmsir segja, að þetta frv., ef að l. verður, verði óvinsælt og minni á gamla gerðardóminn og muni þess vegna ekki koma að gagni. En það eru aðrir tímar nú heldur en þegar gerðardómurinn var á ferðinni forðum daga. Það voru ekki beinlínis launþegar þá, sem sprengdu gerðardóminn. Það voru kannske miklu fremur þeir, sem keyptu vinnuna, atvinnurekendurnir sjálfir. Það var þá, þegar eftirspurnin var svo mikil eftir vinnuaflinu, að atvinnurekendurnir borguðu fyrir vinnuaflið meira en áskilið var eftir töxtum verkalýðsfélaganna. Það voru þess vegna þeir, sem hjálpuðu til þess að sprengja gerðardóminn. Og stærsti atvinnurekandinn og sá, sem mestan þátt átti í þessu, var setuliðið, sem aldrei virtist fá nægju sína. Undir þeim kringumstæðum var það eðlilegt, að erfitt væri að halda uppi þvingunarlöggjöf til þess að halda niðri kaupgjaldi. En nú er komið allt annað viðhorf. Nú er eftirspurnin eftir vinnuafli ekki eins mikil og hún var þá um tíma. Setuliðið er að færa saman seglin og hefur tiltölulega fáa menn í þjónustu sinni. Það er líka komið allt annað viðhorf í þessu efni frá sjónarmiði verkamanna. Það er vitanlegt, að farið er að færast mjög á seinni hluta styrjaldarinnar. Og það er vitanlegt, að það er voði fyrir dyrum, ef ekki verður nú þegar farið að klifra niður á við í dýrtíðarstiganum. Þess vegna er það víst, að ef þetta frv. verður samþ., þá er ekki svo mikil hætta á, að l. verði sprengd, og sízt af öllu af atvinnurekendum. Og það er ekki heldur ástæða til þess að gera ráð fyrir því að óreyndu, að í landinu sé svo mikið af fólki, sem ekki vill virða lög og rétt, sízt af öllu nú, fáum mánuðum eftir að lýðveldið hefur verið endurreist. Ég tel þess vegna ekki ástæðu til að óttast um það, ef þetta frv. verður samþykkt, að þau l. verði ekki haldin.

Ég tel að sinni ekki ástæðu til að hafa lengri framsöguræðu um þetta. Frv. skýrir sig sjálft. Og ég óska, að því verði, að lokinni þessari umr., vísað til 2. umr. og allshn.