18.10.1944
Neðri deild: 67. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 470 í C-deild Alþingistíðinda. (3517)

160. mál, launa- og kaupgjaldsgreiðslur

Flm. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. — Hv. síðasti ræðumaður talaði í svipuðum dúr og hann er vanur, og skyldi engan furða, þótt hann tali svo, því að það er vitanlegt, hvernig hann hagar máli sínu og getur sér til um hvatir manna. Hann segir, að frv. sé ekki flutt til þess, að það gangi fram, heldur til að spilla fyrir stjórnarsamvinnu. Stjórnarsamvinnan er á tæpri brún, ef þetta frv. getur eyðilagt hana.

Ræða hv. þm. gefur ekki tilefni til svara, því að um leið og hann brigzlar mér um vanþekkingu, auglýsir hann, að hann hefur ekkert vit á því, sem um er að ræða. Hann hefur aldrei gert sér það ljóst, að þjóðfélaginu stafar hætta af því, ef atvinnuvegirnir hætta að bera sig. Hvernig er það með útgerðina og frystihúsin? Þessum þm. dettur ekki í hug að muna það, að fiskverðið fer lækkandi. Samningar okkar í Englandi renna út um áramót, og Englendingar eru þegar farnir að gera út í stórum stíl. Og hvar stöndum við þá, ef við drögum ekki úr tilkostnaðinum? Það er kannske ljótt að segja það, en allt bendir til þess, að hann ætlist til, að atvinnulífið verði að stöðvast. Það er það, sem hann vill, til þess að geta svo sagt, að þetta þjóðskipulag sé ónothæft og við verðum að fá annað nýtt.

Þeir, sem kynnast þessum hugsunarhætti á Alþ., kippa sér ekki upp við, þó að þeir heyri ýmislegt. Hv. þm. segir, að þetta frv. sé ekki í samræmi við frv. fjhn., því að bændur hafi með því tryggt sér fleiri millj. kr. styrki. Hvað kallar hann styrki? Að vöruverðinu sé haldið niðri innan lands?

Hv. þm. sagði, að kaup í Ameríku væri hærra en hér. Það er ekki rétt. Það er kannske eins hátt í einstökum hafnarborgum, en hvorki hjá útgerðinni, iðnaðinum né landbúskapnum. Þar er það miklu lægra en hér. Það má vera, að þm. hafi ekki vitað betur, en þá á hann ekki að fullyrða skilyrðislaust.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða við hv. þm. Ég er sannfærður um, að þetta frv. verður samþ., að þm. eru ekki svo ábyrgðarlausir að samþ. ekki slíkt, sem fer ekki fram á nema 7½ lækkun. Ef við getum ekki lækkað tilkostnaðinn við framleiðsluna, er óhjákvæmilegt, að hrun kemur í atvinnulífið. Allir, nema e. t. v. kommúnistar, vilja koma í veg fyrir þetta, og því hlýtur frv. að fá fylgi.