28.02.1944
Neðri deild: 21. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 229 í B-deild Alþingistíðinda. (355)

40. mál, nýbygging fiskiskipa

Atvmrh. (Vilhjálmur Þór):

Herra forseti. Ég vil í tilefni af því nál., sem hér liggur fyrir, lýsa yfir fyrir mitt leyti, að ég tel þær tvær breyt., sem meiri hl. sjútvn. vill gera á frv., vera til bóta og er meðmæltur, að þær fái samþykki þessarar hv. d.

Um málið í heild, hvort það er æskilegt eða óheppilegt, að frv. verði að l., og hvort það geti komið til greina að fara bæði styrkja- og lánaleiðina, þá get ég að nokkru eða öllu leyti vísað til þess, sem ég sagði við framsögu þessa máls, og þarf ekki við það að bæta.

En í tilefni af ræðu hv. síðasta ræðumanns, sem talaði mjög á móti því, að sú aðferð yrði höfð, sem þessi l. heimila, sem sé að fara bæði styrkja- og lánaleiðina, þá vil ég benda á það, að hann kom sjálfur að því nú í síðustu ræðu sinni, að örðugt mundi að fá smíðuð smærri skip í Svíþjóð en 10–20 smálesta. En smærri skip þarf að útvega og flytja til landsins, og gat hann þess réttilega, að hið opinbera þyrfti að láta í té nokkra aðstoð til þeirra, sem þurfa að láta smíða slík smáskip hér innan lands og yrðu nokkuð hart úti samanborið við þá, sem fá skip frá Svíþjóð. Það er einmitt þetta, sem ég tel vera meðmæli með því, sem hér er farið fram á, að framkvæmdavaldið eða ríkisstj. ákveði, hvort rétt sé að veita lán eða styrk, því að það hefur aldrei verið sagt, að þetta væri aðeins miðað við þau skip, sem nú er ráðgert að kaupa frá Svíþjóð. Þess vegna finnst mér, að í því frv., sem lagt er hér fram af ríkisstj., sé gert það, sem minni hl. telur vera æskilegt, sem sé, að hægt sé að veita aðstoð, þegar sérstaklega stendur á.

Um hina brtt. minni hl., að láta sérstaka n. úthluta þessum lánum eða styrkjum frekar en það yrði á valdi atvmrh. eða mál Fiskifélagsins, þá vil ég segja, að ég legg ekki mikið upp úr því, hvor aðferðin er höfð, en vil aðeins benda á, að það mun hafa verið svo og mun verða áfram, að vandamálum verður vísað til ríkisstj., og er hér ekki um neitt nýmæli að ræða.

Ég mæli með, að till. meiri hl. sjútvn. verði samþykkt.