07.02.1945
Efri deild: 120. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1353 í B-deild Alþingistíðinda. (3557)

234. mál, stimpilgjald

Frsm. (Magnús Jónsson):

Þetta stutta frv. er borið fram af hv. fjhn. Nd. og er ákaflega einfalt.

Með l. nr. 49 frá 1942 var það ákvæði sett eða sú breyt. gerð á l. um stimpilgjald frá 1921, að ef ekki er gefið upp verð á fasteignum. skuli áætla stimpilgjald eftir reglu, sem þar er talað um, en þó ekki minna en tvöfalt fasteignamatsverð. Þetta var sett til þess að stuðla að því, að verð væri yfirleitt gefið upp, og er það tilgangur l.

Nú er þetta ákvæði orðið úrelt, vegna þess að tvöfalt fasteignaverð er orðið svo langt frá venjulegu söluverði, að það skiptir ekki svo miklu, hvort verðið er gefið upp, vegna þess að tvöfalt fasteignamatsverð er svo langt fyrir neðan. Og af því að þessi vísbending er gefin í l., þá er oft miðað við það, þó að það sé ekki nauðsynlegt, er heimildin í l. til að áætla það ekki lægra en söluverð hefur verið.

Það er til þess að koma í veg fyrir þessa venju, að þetta frv. hefur verið borið fram í Nd. að tilmælum fjmrh., og breyt. er engin önnur en að ekki skuli áætla, ef ekki er gefið upp verð, minna en fimmfalt fasteignamatsverð. Það er í raun og veru engin hætta á að setja þetta mark, ég vil segja eins og verkast vill, þó að það væri tífalt, því að öllum er leiðin opin til þess að komast undan slíku með því að fylgja anda l. og gefa upp verðið.

Fjhn. mælir einróma með því, að frv. verði samþykkt.