14.12.1944
Neðri deild: 92. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 480 í C-deild Alþingistíðinda. (3558)

182. mál, vatnalög

Jón Sigurðsson:

Út af orðum, sem hér féllu frá hv. minni hl., sé ég mig til neyddan að segja nokkur orð.

Ástæðan til, að hann var á móti frv., var sú, að það væri óréttlátt, að einn maður fengi ekki að ráðstafa öllu sínu fé, ef hann missir sitt land að miklu leyti, en svo hefur annar fullan ráðstöfunarrétt. En þar sem hann var að vitna í 1. gr., þá vil ég benda á, að hann las ekki upp alla gr., hann sleppti seinni partinum, en þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Nú fær jarðareigandi, sem verður að flytja af ábýlisjörð sinni af framan greindum ástæðum, ekki jarðnæði eða treystist ekki til að halda áfram búrekstri á sama sveitarfélagi, og hann á þá kröfu á, að jarðakaupasjóður ríkisins taki við jörðinni ásamt geymslufé hennar, með þeim skyldum, er því fylgja, fyrir það matsverð, sem bæturnar voru miðaðar við.“

M. ö. o., undir þessum kringumstæðum fær hann verðið til ráðstöfunar, það er því aðeins, að hann hugsi sér að halda áfram búrekstrinum, því að þá er ætlazt til, að hann verji þessu fé til að koma jörðinni í lag. Þetta sýnist mér ekki óeðlileg krafa, og ég held, að menn þurfi ekki að kvarta undan því að öllu jöfnu.

Að þetta sé mikill baggi fyrir ríkissjóð, fæ ég ekki heldur séð. Fyrst og fremst er það ekki á hverjum degi, að slíkt gerist. Í öðru lagi er bagginn sá, að ríkið tekur við jörðinni og bótafénu, en geldur manninum sem því svarar. Þetta er aðeins gert til þess, að einstaklingurinn verði ekki fyrir skakkafalli. Þetta er þess vegna ekkert annað en það, sem algengt er og er í alla staði eðlilegt, þar sem slíkar framkvæmdir verða ekki gerðar nema ríkið samþ. Það er því í alla staði eðlilegt, að þegar slík löggjöf yrði í gildi framvegis, þá mundi verða athugað í hvert skipti, hversu þessu yrði ráðstafað og á hvern hátt það verði tryggt, að ríkissjóður verði fyrir sem minnstum halla af þessu. Ég held því, að hvernig, sem á það er litið, þá geti þetta ekki orðið ríkissjóði tilfinnanlegur fjárhagslegur baggi, því að þarna koma verðmæti á móti, bæði peningar og jarðeignir. Það væri þá aðeins með því móti, að ríkið sé ófærara en aðrir til að koma sínum fjármunum í verð.

Út af því atriði, sem hv. 2. landsk. ræddi um, að ástæðulaust væri að kvarta undan þessu þar norður í Fljótum, því að eftirlitsmenn þeir, sem þarna mundu koma, mundu jafnvel greiða hærra útsvar en þeir bændur, sem nú eru allar líkur til, að verði að rekast þarna í burt, þá er þetta mikil fjarstæða, af þeirri ástæðu, að ef þær jarðir, sem þarna er um að ræða, leggjast í eyði, þá eru hinar jarðirnar þannig settar, að langmestar líkur eru til þess, að þær verði svo einangraðar, að þær verði yfirgefnar líka, og ef hv. 2. landsk. er kunnugur í Fljótum, þá veit hann, að þarna er um að ræða fleiri en tvær jarðir. Enn fremur má líka benda á það, sem er ekki einskis vert fyrir aðrar sveitir, að þarna sé eyðilögð góð og samfelld byggð. Nú á að veita í fjárl. stórfé á okkar mælikvarða til að gera veg yfir Lágheiði milli Stíflu og Ólafsfjarðar. Ef þessi framkvæmd, sem hér er um að ræða, yrði til þess, að Stíflan færi í eyði, má öllum vera ljóst, að a. m. k. þessi leið verður ólíkt torfærari en annars mundi verða, því að þá er mörgum sinnum lengra á milli bæja og leiðin hættulegri.

Það er þess vegna að mínu viti allt, sem styður að því, að þessari byggð sé haldið þarna, auk þess sem þetta hefur verið kallað hingað til með albeztu byggðum útsveitis.

Hv. þm. segir, að það séu aðeins smásneiðar, sem þarna eyðileggjast. Það er erfitt að rökræða slíkt, hvað menn kalla sneiðar. En það er þannig, að þarna fer engið allt á sumum jörðunum og nokkur partur af túninu með, og þetta eru taldar með albeztu engjajörðum á Íslandi. Það eru véltæk flæðiengi, sem að heygæðum jafnast á við tún eins og þau gerast upp og ofan, gulstararengi. Þó að þetta sé ekki flæmi miðað við landareignina í heild, þá má ekki miða við það, heldur verður að meta það eftir gæðum landsins. Því miður hef ég ekki við höndina skýrslu um þetta, en Pálmi Einarsson ráðunautur mældi þessar jarðir eftir kortum herforingjaráðsins, sem verkfræðingarnir notuðu, sem sáu um virkjunina, og reiknaði út, hvað mikið land þarna færi undir vatn með þessari stífluhæð, svo að hver getur séð, sem lítur á kortið, en eftir þeim upplýsingum er hér ekki um smáræði að ræða.

Mér þykir leitt, að þessi hv. þm. skuli snúast á móti þessu máli. Það er ástæðulaust af honum, því að með frv. er alls ekki verið að snúast gegn hagsmunum Siglufjarðar eða Skeiðsfossvirkjunarinnar. Þó að sú framkvæmd gangi mjög á hluta þessara jarða í Fljótum, þá vitum við flm. frv., að um það þýðir ekki að fást, en við viljum með þessu frv. reyna að gera úr þessu það bezta, sem unnt er, svo að hagur sveitarfélagsins sé ekki fyrir borð borinn og þeirra bænda, sem þarna búa og ekki er annað að sjá en verði nú reknir burt, ekki ofan í sveit, heldur til Siglufjarðar eða Ólafsfjarðar, þar sem þeir mundu gerast góðir borgarar, en jarðirnar færu í eyði. Í þessari sveit eru tíu höfuðból og fjórar hjáleigur, sem liggja undir þessar jarðir, en fremstu jarðirnar snertir þetta ekki neitt.