14.12.1944
Neðri deild: 92. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 482 í C-deild Alþingistíðinda. (3562)

182. mál, vatnalög

Þóroddur Guðmundsson:

Það er alveg rétt hjá 2. þm. Skagf., að þetta frv. gengur ekkert á móti hagsmunum Siglufjarðar. En ég benti á, að það væri farið illa með þessa menn, að þeir skuli ekki mega hafa ráðstöfunarrétt yfir fé sínu, og ég sýndi einnig fram á, að í hinu tilfellinu yrði ríkissjóður að blæða, borga þessum mönnum ekki aðeins bótaféð, heldur matsverð jarðanna. Ég benti líka á, að í svona tilfelli mundi matsverð jarðanna verða kannske tíu sinnum hærra en nokkrar líkur eru til, að hægt væri að fá fyrir þær á frjálsum markaði. Og þegar skiki úr einni jörðinni er metinn á 34 þúsund krónur, þá má gera ráð fyrir, að öll jörðin yrði metin á 150 þúsund, og ef þarna er um fimm jarðir að ræða, yrði mat á þeim öllum mörg hundruð þúsund. Ef enginn treystir sér til að búa þarna áfram, þá yrði ríkissjóður að taka við bótafénu og greiða jarðirnar eins og þær eru metnar. Og svo má ekki nota þetta fé nema til framkvæmda í sömu sveit, eða mér skilst, að það yrði bundið við það.

Þá kem ég að því, sem liggur til grundvallar fyrir þessu frv., en það er að reyna að halda mönnum í sveit við landbúnað, og hvort sem það er lífvænlegt eða ekki, þá sé um að gera að pína menn til að vera í sveit við landbúnað. Þetta er sjónarmið þessara manna, og til þess vilja þeir allt vinna og hika ekki við að leggja á ríkissjóð og opinberar framkvæmdir stórkostleg útgjöld til að halda mönnum í sveitum við lélegan atvinnurekstur, þó að þeir geti fengið lífvænlegt starf annars staðar. Hann segir, að það, sem hann óttast, sé það, að menn flytji í eitthvert þorp eða bæ og gerist þar góðir borgarar. Hann óttast, að menn fari til Siglufjarðar eða Ólafsfjarðar og verði þar góðir borgarar. Mér finnst þetta ekkert óttalegt. Menn eiga að vera sjálfráðir, og ef þeir vilja heldur nota fé sitt til að byggja hús á Ólafsfirði eða einhvers staðar annars staðar, þá á þeim að vera það heimilt. En að binda þetta svona, það er í áttina til að koma á átthagafjötrum og gera mönnum erfiðara fyrir að flytja burt, og svo er næsta skrefið, að mönnum verður óheimilt að flytja burt, þó að þeir telji sig ekki geta lifað á jörðinni. Ég held, að ekki sé hægt að komast hjá, ef þetta er samþ., að það dragi dilk á eftir sér fyrir ríkissjóð.