28.02.1944
Neðri deild: 21. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 232 í B-deild Alþingistíðinda. (357)

40. mál, nýbygging fiskiskipa

Frsm. meiri hl. (Finnur Jónsson):

Atvmrh. hefur svarað hv. 6. landsk. nokkru viðvíkjandi þeim aths., sem hann gerði í sambandi við það, hvort heppilegra væri að veita þennan stuðning, er um ræðir í frv., sem lán eða styrk. Ég mun því ekki fara mikið út í það atriði, en undirstrika það, að það er ekki séð, hve mikið þessi sænsku skip munu kosta hingað komin, þó að allar líkur séu til, að þau yrðu ekki eins dýr og þau skip, sem smíða mætti hér á landi. Það er eftir kostnaður við að sigla þeim hingað til lands, eiga þau úti í Svíþjóð og margt annað, sem gæti orðið til þess, að þau yrðu allmiklu dýrari en gert er ráð fyrir. Þó að ríkisstj. hafi borizt allmargar umsóknir um þessi skip frá Svíþjóð, þá er þó ekki sagt, að menn treysti sér til að kaupa þau, ef þeir ofan á það að kaupa skip við margföldu verði við það, sem áður var, verða að velta þungum lánsbagga í stað þess, að þeir fengju skip, eins og látið hefur verið í veðri vaka á Alþ.

Í tilefni af ummælum hv. þm. Borgf. til okkar hv. 7. þm. Reykv. um að flytja brtt., þar sem frv. yrði breytt í þá átt, að einungis um styrki væri að ræða, þá vil ég taka það fram, að við teljum okkur ekki fært að flytja slíka brtt., heldur fella brtt., ef fram kæmi. — Hv. þm. Borgf. benti á ýmis atriði í þessu frv., sem betur mættu fara, og sjútvn. mun reyna að taka þær aths. til athugunar milli umræðna

Hv. 6. landsk. vakti máls á því, að styrkur, sem veittur væri úr ríkissjóði, gæti valdið spillingu. Það má vera, að eitthvað slíkt mætti um þetta segja. Þó hef ég ekki heyrt þess getið, að nein gagnrýni hafi komið fram um þá styrki, sem veittir voru eftir l. frá síðasta Alþ. Hafi það verið svo, að Norðmenn teldu nauðsynlegt að smíða 500 smá vélskip úr tré fyrir stríð með styrk að einum fjórða úr ríkissjóði, má nærri geta, hvílík nauðsyn rekur hér til að styrkja menn hér á landi til vélskipasmíða. Ég tel því, að allt mæli með, ef okkur er alvara með að undirbúa eitthvað þennan mikilvægasta atvinnuveg okkar, útgerðina, að við látum ekki á því standa að veita þetta fé sem styrk, en ekki sem lán, þar sem betur er séð fyrir framtíð útvegsins þá en annars.

Viðvíkjandi útlitinu á láni eða styrk taldi hv. 7. landsk. það varhugavert að leggja ákvörðun um slíkt í hendur ráðh. eftir þeim reglum, sem áður hafa gilt. Ef hv. 6. landsk. þætti það betra, þá mundi ég fyrir mitt leyti geta fallizt á brtt., þar sem ákveðið væri að leita til Fiskifélags Íslands og fiskimálanefndar. Þessar tvær stofnanir hafa gert till. um þá styrki, sem veittir hafa verið til skipakaupa, og um þær hefur orðið algert samkomulag milli þessara aðila og ráðuneytisins. Gera mætti ráð fyrir því sama, og ef hv. 6. landsk. þætti betur fara á því, gæti ég fallizt á þetta. Hins vegar tel ég ekki ástæðu til að taka úrskurðarvald um þetta úr hendi ráðh. og fela það sérstakri n. Mér finnst engin ástæða til að væna ráðh. um, að hann fari ekki eftir þeim till., sem koma frá þessum stofnunum.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta frekar, þar sem nauðsynlegt er, að þessari umr. ljúki sem allra fyrst.