28.02.1944
Neðri deild: 21. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 234 í B-deild Alþingistíðinda. (359)

40. mál, nýbygging fiskiskipa

Skúli Guðmundsson:

í 22. gr. fjárl. fyrir þetta ár er ríkisstj. heimilað að verja úr ríkissjóði allt að 5 millj. kr. til nýbyggingar fiskiskipa samkv. reglum, sem Alþ. setur. Það lítur út fyrir, að hæstv. ríkisstj. hafi tekið þá ákvörðun að nota þessa heimild, og því hefur hún lagt fram þetta frv., sem hér liggur fyrir, um stuðning við nýbyggingu fiskiskipa. Þegar um það ræðir að ráðstafa þessum 5 millj. kr., þá getur auðvitað verið um fleiri en eina eða tvær leiðir að ræða. Það getur verið um það að ræða, eins og lagt er til í þessu frv., að veita einstaklingum eða félögum og bæjar- eða sveitarfélögum hagkvæm lán eða styrki til skipakaupa eða skipasmíða. Líka gæti verið um það að ræða, að ríkið keypti eða léti smíða skip og ætti þau, annaðhvort til að gera þau út eða leigja þau öðrum, sem hafa útgerð með höndum.

Það er auðvitað ekki gott um það að segja nú, hvaða fyrirkomulag verður á þessum rekstri í framtíðinni. Eins og kunnugt er, þá er starfandi hér mþn., sem á að gera áætlun og till. um framkvæmdir í landinu, þegar stríðinu lýkur, og hún á líka að gera till. um fyrirkomulag á stóratvinnurekstri. Þessi n. hefur ekki lokið störfum, enda er ekki mjög langt, síðan hún var skipuð, og verkefni hennar er stórt og umfangsmikið. Ég ætla engu að spá um það, hvaða till. muni koma frá þessari mþn. um þessi efni, en ekki þætti mér það ólíklegt, að útgerðin færðist í framtíðinni í það horf, að þar yrði um meiri félagsrekstur að ræða en verið hefur að undanförnu. Og mér þætti ekki ósennilegt heldur, að svo gæti farið, að það álitist heppilegt. og jafnvel nauðsynlegt, að ríkið ætti eitthvað af skipum framvegis, ekki til þess að reka útgerð, því að það tel ég ekki, að mundi vera bezta leiðin, heldur til þess að leigja þau öðrum, sem vildu hafa reksturinn með höndum. Ríkið á nú margar jarðir, sem það leigir bændum, og á sama hátt tel ég það vel geta komið til mála, að ríkið ætti í framtíðinni að eiga eitthvað af skipum, sem það seldi á leigu sjómönnum og öðrum, er að útgerð starfa, með sanngjörnum kjörum. Yrði vitanlega að gera ráð fyrir því, að þeir, sem fengju þessi framleiðslutæki á leigu, greiddu hæfilega leigu og einnig hæfilegt fyrningargjald. Og m.a. yrði að tryggja, að ekki félli sjóveð á skipin, þannig að þau verðmæti, sem í þeim stæðu, eyddust á þann hátt. Það hafa oft verið nokkrar viðsjár með atvinnurekendum og verkamönnum, og er hætt við, að þannig geti einnig farið í framtíðinni. Ég held, að það gæti orðið vænlegast til þess að kveða slíkt niður og til þess, að friður héldist í þessum málum, að sjómennirnir og aðrir, sem að útgerðinni starfa, tækju reksturinn meira í sínar hendur en verið hefur að undanförnu. Ég get því vel búizt við því, að það þyki heppilegt, áður en langt líður, að ríkið leggi fram fé í því skyni að kaupa skip og leigja þau félögum sjómanna og verkamanna til útgerðar. Hin stærri skip eru og verða alltaf nokkuð dýr, og getur því verið örðugt fyrir þessa menn að ná eignarhaldi á þeim án þess að fá til þess einhverja aðstoð.

Ég ætla mér ekki að flytja neinar brtt. við það frv., sem hér liggur fyrir um ráðstöfun á þessum 5 millj. kr., en eigi að síður vildi ég láta þetta sjónarmið koma fram í umr. um málið.