15.11.1944
Neðri deild: 74. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 304 í B-deild Alþingistíðinda. (36)

183. mál, nýbyggingarráð

Forsrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. — Það er ekki margt, sem ég þarf að svara, nema þá að vísa í fyrri umræður um þetta mál.

Hv. 2. þm. S.–M. vill gera mikinn greinarmun á því, hvernig málefnasamningur sá, er Framsfl. lagði fram, var og hvernig hann hefði orðið.

Ég geri ráð fyrir, að allir flokkar hafi ætlazt til, að gerðar yrðu orðabreytingar á till. þeirra. En Framsfl. getur ekki lagt fram slíkar till. án þess að í þeim felist einhver stefna. Það er óhugsandi eftir svo langar samningaumleitanir, að heill þingflokkur komi með till., sem engin stefna felst í. Þá vil ég spyrja hv. 2. þm. S.–M.: Um hvað var verið að ræða allan þennan tíma, ef aldrei var rætt um atvinnumál og fjármál? Ég held, að hann geti varla vænzt þess, að hann fái þingmenn til að trúa því, að ég sé sá eigin hagsmunapúki og svo voldugur og áhrifamikill, að ég hafi getað meinað þeim, er sæti áttu með mér í n., að bera fram og ræða sínar skoðanir, og ótrúlegast mun þó þykja, að ég hafi haft svo mikil áhrif á hann sjálfan, sem var einn af nefndarmönnum. Hann sagði eina setningu í ræðu sinni, sem er mjög merkileg, ef hann hefur meint hana, og gæti orðið til þess, að samvinna tækist okkar á milli. Hann sagði, að Framsfl. teldi ekki þörf launalækkunar fyrr en sýnt væri, að þess væri nauðsyn. Ég hef haldið, að þetta væri eitt aðalatriðið, sem á milli hefur borið. Ég hef talið eðlilegt og sanngjarnt, að þeir menn, sem eignazt hafa mikið af peningum, legðu þá í atvinnutæki, án þess að arður af þeim væri fyrirfram tryggður, en þetta hefur mér skilizt, að væri ekki skoðun hans flokksbræðra. Við viljum ekki lækka kaupgjaldið fyrr en í síðustu lög. Ég er hv. þm. sammála um það, að atvinnuvegirnir verða að bera sig. En ég er honum ekki sammála um þá svartsýni, að það muni þeir ekki gera. Sjávarútvegurinn getur borið sig eins og er, og það er engum greiði gerður með því að vera stöðugt að hrópa „úlfur, úlfur.“ Slíkt er einungis til að veikja trú almennings. Það getur komið að því, að biðja verði verkalýðinn að lækka kaupið, og þá skal ég verða til þess fyrstur manna, þegar sýnt er, að annað er ekki hægt.

Hann sagði enn fremur, að Framsfl. bæri ekki fram þá „þjóðlygi“, að hægt væri að mynda stjórn án þess að lækka kaupgjald. (EystJ: Þetta er eitthvað einkennilega eftir haft.) En Framsfl. hefur þó um lengri tíma staðið í samningum um að mynda slíka stjórn. Hann kveður mig hafa lagt til, að bændur fórnuðu því, er þeir áttu kröfu til. Ég hvatti bændur til að gera hagkvæma samninga, og ég hef skýrt með skrifum mínum í Ísafold og Morgunblaðinu, hvers vegna ég hvetti þá til þessa. Það eru fullkomin ósannindi, að ég hafi gengið á milli atvinnurekenda hér í Reykjavík, til að fá þá til að hækka kaupið. Það gerðu þeir af frjálsum vilja. En þegar talað er um laun manna, þá er alls óþarft að aumka stöðugt bændur. Þar má alveg eins nefna sjómenn og fleiri stéttir, sem ekki eru betur launaðar. Bændur eru hvorki ölmusumenn né aumingjar, sem stöðugt þarf að vorkenna.

Það var ekki ætlun mín að vera hér með neinn skæting. En mér virðist, að í frv. sjálfu sé full skýring á því, sem um var spurt. „Að hlutast til um“ er orðalag, sem ég hélt, að allir skildu, og hv. þm. hefur meira að segja sjálfur notað þetta orðalag. Nánari skýringar á þessu er einnig að finna í 2. og 3. gr. frv. Þar er augljóst, til hvers þetta ráð er skipað. Það á að hjálpa félögum og einstaklingum að fá tækin, þeir verða þó sjálfir að annast útvegun á gjaldeyri, enda geti þeir sannað, að hann eigi að fara til slíkra kaupa.

Ákvæðið um, að ríkið hlutist til um framkvæmdir í þessu efni, er sett vegna þess, að ef einstaklingar vilja ekki hætta fé sínu, þá verður ríkið að taka þetta að sér, og, fyrir því ætla hinir þrír flokkar að beita sér. Ég vona, að það komi ekki til þessa. En annars ætlum við að gera það sama og Framsfl. ætlaði að gera. Það ætti að nægja til að skýra stefnuskrána, því að líklega hefur hann vitað, hvað fyrir honum sjálfum vakti. Ef til þess kemur, getur ríkisstjórnin ekki lagt fram milljónir króna úr ríkissjóði, nema Alþ. heimili það, og þeirrar heimildar verður þá leitað á sínum tíma. En hvaða ástæða er til þess nú, þegar ekki er búið að fá tækin eða séð, hvort einstaklingar vilja kaupa þau? Hvaða ástæða er þá nú til þess að setja l. um, að ríkið taki lán eða að skylda einstaklinga til að taka þátt í þessum framkvæmdum? Til þess er ekki ástæða fyrr en séð er, hvort við getum fengið þessi tæki og hvort einstaklingar eru fyrir hendi, sem vilja afla þessara tækja.

Öll gagnrýni þessa hv. þm. snerist um það, sem hann kallaði óákveðið orðalag á frv. ríkisstjórnarinnar.

Hv. þm. sagði, að sér hefði aldrei dottið í hug, að ekki ætti nú þegar að greiða fyrir öllum þeim, sem ætla að kaupa tæki inn í landið. En ef það á að gera þetta nú þegar, hvað er þá athugavert við þetta mál?

Mér hefur skilizt af öllu, sem skrifað hefur verið í flokksblað hv. þm., að allt hafi miðað að því, að ekkert. vit væri í því að kaupa nokkur tæki inn í landið, fyrr en búið væri að lækka kaupgjald í landinu. Er þetta ekki rauði þráðurinn í öllu því, sem Framsfl. hefur haldið fram í þessum málum?

Hv. þm. sagði að lokum, að það væri ekki Framsfl., sem væri að draga úr möguleikunum fyrir nýsköpun, það væri ríkisstjórnin sjálf, sem gerði það með yfirlýsingu sinni og með sinni tilstuðlan að kauphækkunum í landinu. En ríkisstjórnin hefur ekki átt nokkurn þátt í þeim kauphækkunum, sem orðið hafa. Hins vegar hefur ríkisstjórnin, með því að vera þess megnug að koma á ríkisstjórn á svo traustum grundvelli, lyft hugum landsmanna upp úr því vonleysi, sem í var komið um, að nokkur skapaður hlutur yrði gerður. Með þessu hafa hugir landsmanna lyfzt, og löngun til nýs ,framtaks hefur vaknað. En ræða hv. 2. þm. S.-M. er gerð til þess að reyna að kæfa þá hrifningu, sem gripið hefur alþjóð manna, bæði atvinnurekendur og verkamenn, yfir fyrirætlunum ríkisstjórnarinnar.

Ég var í gær að lesa grein í „Times“ þar sem nýsköpunarmálaráðherrann brezki og Anthony Eden segja frá fyrirætlunum þeim, sem brezka stjórnin hefur í huga, og þar var mjög margt, sem minnir á þær fyrirætlanir, sem við nú ráðgerum hér. En Woolton tekur það sérstaklega fram, að mikið velti á, að takast megi að fá þann samhug, sem nauðsynlegur er innan þjóðarinnar, til þess að þetta megi takast. En það er barátta gegn þessum samhug, sem Framsfl. og þessi hv. þm. hefur hafið og fengið í lið með sér nokkra aðra menn, eins og sjá má af dagblaðinu Vísi.

Ég hefði gaman af því, ef þessi hv. þm. vildi koma hér upp og berja ríkisstjórnina með stálsvipum, ef hann telur það slyngast. Hann hefur verið illa haldinn af óþolinmæði, síðan hann sá ríkisstjórnina, um að gera henni út á við alla þá bölvun og ógagn, sem hann hefur getað. Hann hefur meðal annars reikað um allt landið til þess að bera ríkisstjórnina óhróðri. Eftir það var svo borið fram vantraust á ríkisstjórnina af manni úr hans flokki, og enn fremur hafa blöð hans gert það, sem þau hafa getað, til. þess að draga úr bjartsýni manna og auka svartsýni þeirra, og svo nú að lokum, með ræðu sinni áðan, hefur hann reynt að halda sömu stefnu og gert það, sem í hans valdi stendur. En það er nú lítið, sem Framsfl. er orðinn megnugur um að gera illt af sér í þessu efni. Framsfl. hefur oft verið voldugri en hann er nú, svo er guði fyrir að þakka.