16.01.1945
Efri deild: 103. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1358 í B-deild Alþingistíðinda. (3604)

128. mál, búnaðarmálasjóður

Frsm. (Þorsteinn Þorsteinsson):

Frv. þetta, sem hér liggur fyrir, hefur verið til umr. og ályktunar í Nd. og samþ. þar og sent til Ed. og komið þar fyrir landbn., og var hún sammála um að mæla með því að samþ. það eins og það lá fyrir, og afgr. n. það mál frá sér 8. des. s.l. En síðan hafa þær breyt. orðið, að þar sem l. áttu að ganga í gildi og koma til framkvæmda 1. jan. 1945, getur það nú ekki orðið, og hefur meiri hl. n. því komið sér saman um að gera þá breyt., að l. komi ekki til framkvæmda fyrr en 1. febrúar 1945.

Þetta frv. er að efni til, eins og hv. d. er kunnugt. tilraun framleiðenda á landbúnaðarafurðum að koma sér upp nokkrum sjóði til framkvæmda og framfara fyrir þá, og geti þeir þá frekar ráðið þar bót á ýmsum nauðsynjamálum og þjóðfélagsmálum fyrir landbúnaðinn heldur en áður. Það er lagt til í þessu frv., að greitt sé 1/2% af verði af flestum landbúnaðarvörum, sem hægt er að ná gjaldi af, sem framleiðendum er greitt fyrir vöruna á hverjum tíma. Það eru náttúrlega sumar vörur, sem alls ekki eru skattlagðar. eins og t.d. stórgripakjöt og garðamatur, en það má með reglugerð ákveða fleiri vörur með. Bændur hafa hingað til ekki lagt neitt fyrir í sameiginlegan sjóð. Það hefur verið aðeins greiðsla til búnaðarfélags, hreppa- og búnaðarsambandssjóða. En nú er þessi viðleitni í þá átt að ná saman fé til þess að leggja í sameignarsjóð fyrir bændur þó þannig, að það komi öllum bændum, sem í búnaðarfélögum eru, til góða, og þykir það ekki fyrr en nauðsyn bar til. Þessi sjóður mundi spara heldur gjöld úr ríkissjóði til Búnaðarfélags Íslands, sem aðallega stendur fyrir þessum sjóði. Ef þessar greiðslur eru látnar í ný sameiginleg fyrirtæki eða framkvæmdir, þá munu líka hverfa beiðnir frá þessari stofnun til ríkissjóðs um styrk til þeirra, sem vel mætti vera,. að annars mundu koma. Þetta er því aðeins ósk frá bændum til löggjafans, að hann verndi þá og veiti þeim réttindi til þess, að þeir megi á skipulegan hátt innkalla hjá sjálfum sér gjald, sem ekki íþyngir landinu eða ríkissjóði, en frekar stefnir í þá átt að létta heldur gjöldum af honum, ef til kemur.

Ég tel ástæðulaust að fjölyrða meir um þetta, mál. Það hefur að vissu leyti verið rætt á öðrum grundvelli hér í hv. d., en vel getur verið, að frv. eða lögin standi til bóta, þegar reynsla er komin á, hvernig féð innheimtist, og gerðar þar á lagfæringar, ef reynslan sýnir eitthvað annað betra. en hér er gert ráð fyrir.