16.01.1945
Efri deild: 103. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1358 í B-deild Alþingistíðinda. (3606)

128. mál, búnaðarmálasjóður

Menntmrh. (Brynjólfur Bjarnason):

Herra forseti. — Ég ætla aðeins að gera grein fyrir mínu atkv. Ég treysti mér ekki til þess að greiða atkv. með þessu frv. af þeim ástæðum, að ég tel, að' farið sé þarna inn á mjög hæpna braut, sem sé þá að lögskylda menn til þess að greiða gjöld til. ákveðinna félagssamtaka. Þetta er í raun og veru hliðstætt því, að Alþýðusambandi Íslands væri heimilað og gert að skyldu að leggja ákveðinn hundraðshluta á laun allra verkamanna í landinu og setja í sjóð hjá sér og verja því fé eftir því, sem þeim samtökum þóknast. (BSt: Er þetta ekki gert í praxis?) Þetta er ekki gert, og ef hv. þm. álítur, að slíkt komi til greina, þá mætti kannske prófa það, hvort slíkt frv. mundi fá samþykki hans hér á Alþ. En ég álít, að þetta sé á engan hátt rétta leiðin. Ég álít, að Búnaðarfélagið eigi að vera, eins og Alþýðusamband Íslands, algerlega frjáls samtök: frjálst, hvað menn vilja til þess greiða. Ég sé ekki neitt á móti því. að Búnaðarfélag Íslands innheimti þennan skatt af bændum, en þá álít ég, að það eigi ekki að vera löggjafaratriði, heldur algerlega frjálst samkomulag, sem ekki þurfi neina löggjöf til.