16.01.1945
Efri deild: 103. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1359 í B-deild Alþingistíðinda. (3609)

128. mál, búnaðarmálasjóður

Gísli Jónsson:

Ég tók eftir því í ræðu frsm., að hann sagði, að þetta gjald væri ekki til þess að íþyngja neinum öðrum en seljendum sjálfum. En ég sé hér, að í 3. gr. frv. segir: „Gjald það, er um ræðir í 1. gr., greiðist af þeim verzlunum og sölumiðstöðvum, er fyrst veita vörunum móttöku.“ Ég vildi gjarnan fá að vita, hvernig þetta er meint hjá þeim, sem samið hafa frv. Eiga þeir menn, sem fyrst kaupa vöruna, að greiða þetta gjald og fá það svo endurgreitt úr sjóðnum? Ef svo er, virðist mér vanta, að þetta sé skýrt tekið fram, og eins hitt: Hvernig er þeim, sem greiða gjaldið, tryggt, að þeir fái það endurgreitt? Hver stendur í ábyrgð fyrir því? Eins og þetta er, skilst mér, að kaupmenn muni kaupa á föstu verði og verði þá að greiða úr eigin vasa. Nema ætlazt sé til þess, að varan sé eingöngu tekin í umboðssölu, eins og mjólkin er nú, þannig að hægt sé að innheimta það aftur af bændum, þegar borgað er út; en það er ekki hægt, ef varan er seld föstu verði til ákveðins aðila. Þetta vil ég fá upplýst, áður en ég tek afstöðu til málsins.