16.01.1945
Efri deild: 103. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1361 í B-deild Alþingistíðinda. (3617)

128. mál, búnaðarmálasjóður

Frsm. (Þorsteinn Þorsteinsson):

Ég vil aðeins segja það út af ræðu hæstv. fjmrh., að ég hef leitað fyrir mér nokkuð til tollstjóra, hvort hann hefði till. um að breyta innheimtufyrirkomulaginu, sem ákveðið er í frv. Hann var ekki reiðubúinn til þess, en ég mun athuga þetta betur til 3. umr., hvort hann hefur nokkrar brtt. til bóta. Annars stendur í 4. gr., að ráðh. setji með reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd l. að fengnum till. Búnaðarfélags Íslands, þar á meðal um innheimtu gjaldsins, og er þá hægt að ákveða tilhögun innheimtunnar með reglugerð, eftir því sem haganlegast þykir.

Ég get tekið undir það með hæstv. fjmrh., að enginn vafi er á því, hverjir eigi endanlega að bera þessar greiðslur. Það eru auðvitað framleiðendur. Það kemur ekki til mála, að þeir, sem kaupa vörurnar, eigi að bera þær, og þá draga þeir það vitanlega frá kaupverðinu. Þeir eru ekki svo skyni skroppnir, að þeir sjái ekki fyrir því. Annars er sjálfsagt, að n. taki til athugunar það atriði, sem hv. þm. Barð. minntist á, hvort þörf sé á að taka það beinlínis fram í l., að það séu framleiðendur, sem endanlega skuli bera þetta gjald. Þetta er í sjálfu sér ekkert atriði, heldur aðeins lögskýring.