08.02.1945
Neðri deild: 125. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 517 í C-deild Alþingistíðinda. (3648)

267. mál, raforkulög

Samgmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. — Ég var að vísu fjarverandi, þegar umr. þessar hófust, og heyrði því ekki, hvernig gerð var grein fyrir frv. af hálfu flm. En ég hef nú á síðara stigi umr. heyrt nokkuð af því, sem þá var sagt, af ræðu hv. 11. landsk., sem hefur um málið fjallað. Hef ég á þennan hátt getað gert mér nokkra grein fyrir því, sem áður hefur fram komið í umr.

Vil ég þá fyrst minnast þess með örfáum orðum, hvernig mál þetta ber að.

Fyrir rúmum tveim árum, eða 1942, var samþ. á Alþ. að kjósa 5 manna n., sem gera skyldi till. um, á hvern hátt rafmagni til ljósa og hitunar o. fl. yrði komið á sem skemmstum tíma um land allt. N. skyldi og benda á fjáröflunarleiðir til þessara framkvæmda. Hún hefur nú lokið störfum og skilað áliti, eftir að hafa haldið alls 55 fundi. Niðurstöður þær, sem n. komst að, liggja nú fyrir opinberlega í þessu frv. Þetta er þó ekki samhljóða álit allra nm., heldur aðeins meiri hlutans.

Þegar álit n. barst mér í hendur um mánaðamótin nóv.–des., leit út fyrir, að þ. mundi ekki verða mjög langt. Ég svaraði því málaleitun n. um það, hvort málið yrði tekið fyrir á þessu þingi, í samræmi við þá ætlun og vildi fá lengri tíma til að taka ákvörðun um málið. Ég hafði því óskað eftir, að málið yrði látið bíða, því að sýnt var, að það næði ekki fram að ganga nú, þar sem þingið stæði ekki svo lengi úr þessu, en meiri hluti n. sá sér ekki fært að verða við því. Ef þm. hefðu viljað kynna sér málið, hefði þó verið hægt að prenta málsskjölin sem handrit og útbýta því meðal þeirra.

Ég held því, að ekki sé laust við, að mál þetta sé flutt í áróðursskyni, og því undarlegra er þetta, þar sem minni hl. hafði ekki skilað áliti sínu, þegar meiri hl. flutti það hér í frumvarpsformi. Mér barst álit hans nú fyrir 2 dögum.

N. sá sér ekki fært að verða við þeim óskum, að málið yrði betur undirbúið, áður en það yrði flutt hér í þinginu. Ég veit ekki, hvort því er þó betur borgið með þessu móti en áður, en það hefði mátt ætla, að nefndarmeirihlutinn hefði getað tekið óskir stj. til greina og að leitað hefði verið eftir vilja hennar í þessu efni.

Ég hef talið rétt að láta það koma fram hér, hvernig málið hefur borið að, og skýrir það betur ýmis atriði frv. fyrir hv. þm., hvað á bak við liggur. Ég skal geta þess, að um svipað leyti og mér barst þetta frv. í hendur, bárust mér einnig tvö önnur frv. frá mþn., þ. e. frv. til l. um landshöfn, frá mþn. í sjávarútvegsmálum, og frv. til l. um endurskoðun á skipaskoðunarl. Þessum tveimur frumv. mun verða útbýtt sem handritum áður en þingi lýkur, og skulu nefndir þær, sem um þau fjölluðu, ekki verða látnar gjalda þess, að þær vildu samvinnu við stjórnina um flutning þeirra mála.

Þetta mál, sem hér liggur fyrir, er bæði stórt og vandasamt, og er hin mesta nauðsyn að vanda sem bezt til undirbúnings og framkvæmda þess. Orkan í fossum landsins er máske einn mesti þjóðarauður okkar Íslendinga, og afkoman í framtíðinni mun sennilega verða mjög háð því, hvernig við hagnýtum okkur þessar orkulindir og ýmsar aðstæður til tæknilegra framkvæmda. Við eigum í fossum okkar um 2–3 milljónir hestafla, eða 20–30 hestöfl á mann í landinu, og er það meira, en nokkurt annað land á yfir að ráða. Eitt hestafl er talið á við 10 menn, og má af því sjá, hver styrkur þjóðinni getur verið að þessari gífurlegu orku. Ef þessari orku er rétt beitt, er hún einhver allra bezta eign, sem þjóðin á. Erfiðleikarnir í sambandi við þetta mál eru þeir, að landsbúar eru svo dreifðir. Það kostar afar mikið að koma orkunni til allra, sem þurfa að verða hennar aðnjótandi, og liggur aðalkostnaðurinn í orkudreifingunni. Ef orkunni verður dreift um landið á þann hátt, sem gert er ráð fyrir hér í frv., efast ég um, að þessi framkvæmd verði þjóðinni til góðs. Það er stórt orð að segja það, en það er vafasamt, hvort þjóðin er þess megnug að rísa undir þeim byrðum, sem á hana yrðu lagðar á þennan hátt.

Það liggur fyrir kostnaðaráætlun um dreifingu rafmagnsins um landið. Það kostar samkvæmt henni um 300 millj. kr. Annars er um þessa áætlun að segja, að hún er frekar álitsgerð en bein kostnaðaráætlun, og ég hef ástæðu til að ætla, að hún sé of lág frekar en hið gagnstæða. Keflavíkurlínan er áætluð samkv. grg. frv. 1 millj. kr. Línan frá Vogum til Grindavíkur 315 þús. Keflavíkurlínan mun reynast að kosta 1.8 millj. kr., og auk þess kemur svo kostnaðurinn við héraðaveiturnar, sem áætlaður er 50% af kostnaðinum við aðalínurnar, en virðist samkv. reynslunni frá Keflavík að munu verða meiri. Sýnir það sig þannig, að áætlunin er of lág þar. Ef reiknað er með þessum tölum, verður þó meðalverð kílówattstundarinnar frá 6.4–8.1 eyris.

Frv. gerir ráð fyrir, að orkan verði seld á sama verði alls staðar á landinu. Ef það verður gert, þarf hún að kosta 6.4–8.1 miðað við stærri virkjanir og 7.7–9.6 miðað við minni virkjanir. Ég veit ekki, hvað rafmagnsframleiðsla með olíu og kolum kostar, en ég held, að þannig sé hægt að framleiða rafmagn fyrir minna verð en hér er gert ráð fyrir, og væri það áreiðanlega athugandi, áður en lagt verður út í þetta. Ef á að leiða rafmagnið út um landið á þann hátt, sem frv. gerir ráð fyrir, að gera öllum jafnhátt undir höfði, þarf að fara fram nákvæm rannsókn, áður en nokkru er slegið föstu um framkvæmdir. Góð rafstöð, sem getur borið uppi virkjunarkostnaðinn og kostnað við aukningu, getur orðið þjóðinni til mikils, jafnvel ómetanlegs gagns, en framkvæmdir, sem rokið er í að lítt eða ekki yfirveguðu ráði, geta líka orðið til hins gagnstæða. Þegar rafveita Reykjavíkur hækkaði taxta sinn um fá %, var talað um það af málgagni aðalflutningsmanns, að um væri að ræða óforsvaranlega hækkun dýrtíðarinnar. En sú aukning er lítil, borið saman við þessa hækkun, sem talað er um í frv. Það, sem ég óttast mest, er, að sú hækkun á rafmagni, sem hlýtur að koma bæði hér og á Akureyri samkv. frv., hljóti að eyðileggja eða draga úr notkun raforku á þessum stöðum. Dómurinn yfir þessu frv. hlýtur að miðast við það, hvernig því tekst það vandasama hlutverk að koma rafmagni á þá staði, sem þurfa að nota það, án þess að þeim og öðrum, sem nú hafa góða möguleika til að hagnýta sér það, verði gert of erfitt fyrir, og tel ég, að með þessu frv. sé lagt út á svo tæpt vað, að ekki megi tæpara standa. Með þessu vil ég þó ekki segja, að ekki megi takast að koma rafmagni til þeirra, sem þurfa að nota það. En það verður að miða dreifingarkostnaðinn við það, að hann verði bærilegur þeim, sem þurfa að nota rafmagnið.

Ef það liggur fyrir að reisa veitu, þá vil ég, að það sé athugað, hve mikið hún getur gefið í aðra hönd og hvaða líkur eru til þess, að hún beri sig, og síðan sé það athugað, hvort ríkissjóður eða annar aðili, bæjar- eða sveitarfélag eða aðrir, geti lagt í hana fé, svo að hún geti borið sig. En því miður virðist það vera margt, sem strandar á og getur orkað tvímælis með núverandi verðlagi.

Ég hef nýlega fengið skýrslu frá Rafmagnseftirliti ríkisins um héraðsveitu í Mývatnssveit, og er þar talið, að sú sveit liggi jafnbezt af öllum sveitum í landinu, hvað þetta snertir. Hún er þéttbýl, liggur nærri orkuveri, og engar verulegar torfærur fyrir línulögn. Kostnaðurinn við þessa héraðsveitu, — ekki virkjun, heldur aðeins veituna um héraðið frá orkuverinu við Laxárfossa, — er áætlaður allt upp í 4 þús. kr. á hvert mannsbarn í þessari sveit, eða 50 þús. kr. á hvern bæ. Til samanburðar við þetta má geta þess, að við rafmagnsframkvæmdir hér í Reykjavík og nágrenni mun kostnaðurinn vera sem næst 25 millj. kr. nú sem stendur, eða 5–600 kr. á mann. Mismunurinn á þessu er alveg geysilegur. Þá er einnig gert ráð fyrir því í álitsgerð frá Rafmagnseftirliti ríkisins, sem ég hef fengið, að það muni ekki nægja, þótt ríkissjóður kosti alla þessa héraðsveitu, hún muni ekki geta borgað sig samt, heldur muni ríkissjóður þurfa að borga 106% af stofnkostnaði til þess að hún geti borið sig. Þessi skýrsla er á þann veg, að þær tekjur, sem rafveitan mun fá, nægja ekki fyrir orkukaupum frá sjálfri virkjuninni og rekstri fyrirtækisins, þó að þeir fengju þessa veitu, sem kostar 50 þús. kr. á bæ, gefins, nema því aðeins að ríkissjóður borgi, ekki aðeins allan stofnkostnað, heldur líka verulega upphæð þar fram yfir. Og þó er þetta á tiltölulega þéttbýlu svæði, nálægt orkuveri og ekki tiltakanlegar torfærur á leiðinni. Þetta gefur bendingu um það, hver kostnaðurinn kunni að verða á hinum ýmsu stöðum, þar sem allt virðist miklu erfiðara, bæði hvað snertir vegalengd frá orkuveri og hvað hún er erfið, eins og hún hlýtur að verða víða, þar sem þarf að fara yfir fjallvegi og vatnsföll með línuna, og þar að auki víðast hvar strjálbýlla en í þessari sveit. Kostnaðurinn hlýtur þar að verða miklum mun meiri.

Ég skal ekki fara langt út í þetta, en ég vildi aðeins láta þetta koma hér fram, að munurinn á kostnaði við dreifingu raforku út um landið hlýtur að verða, eins og er hjá okkur, ákaflega mikill. Og það, sem ég vil undirstrika með þessu, er það, að þennan mikla kostnað má ekki leggja út í, nema það sé fyrir fram tryggt, að hann verði ekki til þess að torvelda notkunina hjá hinum, sem geta haft rafmagnið á fjárhagslega tryggum grundvelli. Ef þessar veitur eru styrktar, þá álít ég, að það eigi að gerast með hreinum styrk frá ríkissjóði, bæjar- eða sveitarfélagi, alveg án þess að trufla möguleika þeirra, sem hafa þá, til þess að geta haft rafmagn með viðunandi kjörum. En það er þetta atriði frv., sem ég álít, að fái ekki staðizt undir neinum kringumstæðum.

Fyrir 2 árum, eða öllu heldur 3 árum, var flutt hér á þingi frv. til l. um rafveitur ríkisins. Þetta frv. var á sínum tíma samið af mþn., sem starfaði á árunum 1937–1938, og var þá fyrst flutt 1938, ef ég man rétt, þá man ég, að ég var viðriðinn flutning þess, en það náði ekki framgangi. Síðan lá það niðri nokkur ár. Var síðan flutt á ný árið 1942, þá að mig minnir af þáverandi 1. þm. Árn. Í þessu frv. til l. um rafveitur ríkisins er litið ákaflega mikið öðrum augum á þessi mál en nú er gert í þessu frv., þó að sá maður, sem er 1. flm. að þessu frv., sem hér liggur fyrir, hafi einnig verið meðflm. eða tekið upp frv. frá 1937–1938.

Í þessu frv., sem varð að l. 1942, er ekkert um það, að rafmagn eigi að seljast með sama verði, hvar sem er á landinu. Hins vegar er farið inn á þá braut, að áður en slíkar veitur séu lagðar, skuli fyrir fram athuga, hvernig þær muni bera sig, og ekki hafizt handa um framkvæmdir, nema áður sé tryggt, hvernig ná skuli því fé, sem á skortir, að veitan muni bera sig. Eftir þessum l. er nú verið að vinna. Og þær rafveitur, sem nú eru lagðar og meiningin er að leggja, tel ég sjálfsagt að verði lagðar á grundvelli þessara l. um rafveitur ríkisins, bæði veitan um Reykjanes, að Selfossi og Hveragerði, ef lagt verður, og til annarra þorpa austan fjalls. Frá Laxá til Húsavíkur, frá Akureyri út með Eyjafirði til Dalvíkur. Þetta er allt hægt að gera á grundvelli þeirra l., sem til eru síðan 1942 um rafveitur ríkisins. Með þeim l. er stj. heimilað að hefjast handa um þær framkvæmdir, hafi hún áður gengið úr skugga um það, að líkur séu til, að þær beri sig og fjár sé aflað að þeim hluta, sem á skortir.

Í þessum l. er ekki gert ráð fyrir því, að ríkið hafi einkarétt á rekstri veitnanna, og það er ekki heldur gert ráð fyrir, að ríkið hafi smásölu með höndum, eins og hér er gert ráð fyrir. Með öðrum orðum, þá tel ég þessi l., sem nú eru í gildi um rafveitur ríkisins, vera laus við ýmsa af þeim annmörkum, sem þessu frv. fylgja, sem hér liggur fyrir, án þess að það skorti í þau nokkuð verulegt af því, sem er í þessu frv., sem stendur til bóta. Svo þess vegna hefði, að mínu viti, verið óhætt að hinkra ofurlítið við með flutning málsins, til þess að betur væri hægt að leggja grundvöll undir það, sem koma skal í þessu efni.

Eins og ég sagði í upphafi, þá er þetta frv. samið af meiri hl. raforkun. Minni hl. hefur nú skilað mér áliti fyrir aðeins tveim dögum. Og er í því minnihlutaáliti, að mér skilst, eftir því sem ég hef hlustað á ræðu hv. 11. landsk. nú, mjög mikið það sama, sem hann hefur hér flutt nú í ræðuformi. Hann hefur hagað sínu nál. svo, að það er kannske meira gagnrýni á álit meiri hl. heldur en beinar till., sem hann leggi þar til frá sínu sjónarmiði, þótt að vísu, eins og hann sagði hér áðan, felist í þeirri gagnrýni, óbeint a. m. k., till. um það, á hvern hátt hann vill haga framkvæmdunum. En annars lýkur hann sínu áliti með því að geta þess, að Rafmagnseftirlit ríkisins muni hafa með höndum samningu frv. um þetta efni, sem hann hefur átt kost á að sjá og hefur fellt sig við, og þess vegna geti hann látið bíða að skila sérstökum till. í málinu. Þessar till. Rafmagnseftirlits ríkisins hef ég að vísu ekki séð og veit ekki, hvað í þeim muni felast, og get því ekki sagt neitt um þær. En ég tel sjálfsagt, að áður en máli þessu er ráðið til lykta á einn veg eða annan, þá verði fengnar þessar till. og till. allra annarra, sem um þetta mál gætu eða vildu gera till., því að þetta mál er það þýðingarmikið og aðkallandi, að það má engum möguleika sleppa. Hvernig þessum málum verður skipað, skal ég ekki um segja, og höfuðtilgangurinn með þessari ræðu minni nú var fyrst og fremst að benda á það, að sú skipan, sem hefur verið lögð til af meiri hl. raforkumálan., er í verulegum atriðum mjög varhugaverð, og ég fyrir mitt leyti get alls ekki fallizt á hana og vil ekki trúa því, að ekki séu til aðrar leiðir og nærtækari til þess að ná sama marki og á auðveldari hátt en meiri hl. raforkumálan. hefur lagt til.

Hér má ekki spyrja, eins og hv. 1. þm. Árn. spurði: „Hvers vegna mega þjóðfélagsþegnarnir ekki verða allir sama réttar aðnjótandi?“ Þetta er ákaflega létt að spyrja um. En spurning borin fram í þessu formi nær ekki þeim tilgangi, sem hér er ætlazt til, því að eins og mér finnst hún liggja beinast við, eftir þeim anda, sem frv. gerir ráð fyrir, vildi ég alveg eins geta orðað hana þannig: Hvers vegna mega þeir, sem eiga kost á að nota rafmagn til sinna þarfa og geta gert það á fjárhagslega öruggan hátt, ekki gera það vegna hinna, sem ekki geta það á fjárhagslega öruggan hátt, nema með því að gera það óbærilega dýrt fyrir þeim fyrrnefndu? Þetta er kjarnapunktur málsins, sem ekki má sjást yfir.

Undanfarið hér á Alþ. hafa verið lagðar fyrir ýmsar till. um virkjanir, sem hafa sætt nokkurri gagnrýni einmitt af hálfu þeirra manna, sem bera fram þetta frv., sérstaklega vegna þess, að í þessum frv., sem hér hafa komið fram á þinginu, væri farið inn á þá braut, að einstökum héruðum eða bæjarfélögum væri leyft að taka fram fyrir hendur á ríkinu. Ég held nú, að þar sem bæjar- eða sveitarfélög treysta sér til og geta sýnt tölulega fram á, að þau hafi möguleika til þess að reka rafmagnsveitu þannig, að hún beri sig, þá sé það a. m. k. fyrsta krafa, sem gera verður til ríkisins, að það hindri þau ekki að reisa þessar veitur. Og ýmsar af þeim veitum, sem hér hafa verið lögð fram frv. um, eru undirbúnar á löngum tíma, eins og sú stærsta, sem hér hefur verið rætt um af þessum virkjunum, Andakílsárvirkjunin, hún hefur verið undirbúin um áratugi, svo að þar er varla hægt um að bæta. Og spurningin verður þá nánast um það, hvort framkvæmdirnar hjá þessu bæjar- eða sveitarfélagi myndu verða svo miklu dýrari en ef ríkið annaðist þær. Og það tel ég ekki þurfi að vera, ef þær eru framkvæmdar af mönnum, sem þekkingu hafa til þess, eins og sjálfsagt verður að vera. Og ég tel þess vegna ekki nauðsyn, að lausn rafmagnsmálanna í heild verði látin tefja fyrir því, að einstaka héruð, sem eru þess umkomin sjálf, að vísu með ríkisábyrgð, reisi veitur, geti þau sýnt það, að þar sé um góð fyrirtæki að ræða, og því eigi ríkissjóður ekki að hindra þau í þeim framkvæmdum, heldur styrkja.

Ég get ekki látið mér detta í hug, að þeir, sem hafa flutt þetta frv., hafi ekki séð á því þá annmarka, sem ég hef hér nefnt, og þess vegna hljóti þeir að gera sér það ljóst, hvaða erfiðleikar á því hljóta að vera að taka málið upp á þessum grundvelli. En sjálfsagt telja þeir þó, eða a. m. k. vil ég ætla það, að þeir telji, að rafmagnsmálin séu framkvæmanleg á þann hátt, þó að ég sjái ekki, að þau séu það. Því að ég tel, að raforkuverðið verði svo hátt, að vel geti komið til álita að gera samanburð á því og hvað það mundi verða, ef raforkan væri framleidd með kolum eða olíu þar, sem það er framleitt við lægstu verði og undir beztu skilyrðum.

Ég skal svo ekki fara um þetta fleiri orðum. Ég hefði heldur kosið, að hv. meiri hl. raforkun. hefði frestað þessu máli, svo að það hefði ekki komið hér fram á þessu þingi, og gefið stj. tækifæri til þess að reyna að sameina þau sjónarmið, sem hér hafa komið fram, bæði meiri og minni hl. raforkumálan. og ýmissa annarra, og freistað þess, hvort ekki yrði unnt að þoka málinu þann veg áfram heldur en að flytja það einhliða á þennan hátt, því að ég álít það ekki neinum til gagns, ekki einu sinni þeim, sem sérstaklega virðist borin umhyggja fyrir með þessu frv.