08.02.1945
Neðri deild: 125. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 523 í C-deild Alþingistíðinda. (3650)

267. mál, raforkulög

Jón Pálmason:

Herra forseti. — Mér þykir ástæða til þess, af því að ég er einn af flm. þessa frv., að fara um það nokkrum orðum, og hefur gefizt til þess mikið tilefni í þeim ræðum, sem hafa verið fluttar af hæstv. samgmrh. og hv. 11. landsk.

Ég skal þá byrja á að minnast örlítið á ræðu hæstv. ráðh., þar sem hann fór inn á það, hvernig þetta mál hefur að borið. Það er rétt, sem hann tók fram í því sambandi, hvernig var með skil frá hálfu n. í raforkumálum ríkisins, og einnig hitt, að við gerðum ráð fyrir því, meira að segja fram yfir nýár, að flytja ekki þetta frv. á þessu þingi. Nú varð það samt að samkomulagi milli meiri hl. í n. að flytja frv., sem stafaði ekki af neinu vantrausti til hæstv. ríkisstj., eins og mér skildist á hæstv. ráðh., að væri ekki laust við að kæmi fram. Það kann að vera, að hæstv. ráðh. hefði getað ætlað, að einhvers vantrausts gætti í þessu efni af hálfu þeirra manna, sem ekki styðja ríkisstj. En hvað mig snertir og hv. 5. landsk. vænti ég, að hann geti ekki grunað okkur um neinar slíkar hvatir í þessu sambandi. Það er annað, sem hér liggur fyrir til grundvallar og knúð hefur okkur til að gerast meðflm. að þessu frv. nú þegar, þ. e. þær mörgu till., sem var dengt hér inn á þingið, sem við teljum, að gangi í bága við þá skipun, sem fyrir okkur vakir í þessu frv., sem er samið samkvæmt okkar sannfæringu, að sé sú rétta skipan. Þetta gerði það að verkum, að okkur fannst rétt að flytja þetta frv. nú, enda þótt við vissum, að hæstv. ráðh. vildi ekki flytja það nú. Við höfum einnig fengið upplýsingar um það, sem nú hefur einnig verið upplýst af hæstv. ráðh., að það væri mikið ósamkomulag í þessu máli og ekki væru miklar líkur til þess, að hann vildi ganga inn á þessa stefnu, sem hér er aðalstefna varðandi þetta mál. Hitt er náttúrlega gefið mál, að vegna þess, hve hér er um mikið ágreiningsmál að ræða, þá mundi málið ekki fá afgreiðslu, áður en þessu þingi lyki.

Það kom fram í ræðum hæstv. ráðh. og hv. 11. landsk., að við höfum gengið inn á þessa stefnu vegna þess, að við hefðum ekki þekkingu á þessum málum, sem nauðsynleg væri. Það væri sem sagt af vanþekkingu, að við hefðum lagt til að snúa málinu á þessa leið. Í því sambandi þykir mér rétt að taka fram, sem reyndar má öllum vera ljóst, að í slíkum málum sem þessu og mörgum öðrum, sem eru svipaðs eðlis, þá er það tvennt, sem er að sumu leyti nokkuð ólíkt, hvað það er, sem krefst sérþekkingar, og hvað það er, sem krefst þess að ráða skipun í málum.

Það krefst náttúrlega ekki neinnar sérþekkingar í málinu að samþykkja það, að byggja skuli brú yfir vissa á. Og það þarf ekki sérþekkingu til þess að ákveða það, að það þurfi að leggja símalínur um viss svæði. Það krefst ekki heldur sérþekkingar að ákveða, að nauðsynlegt sé að leggja vegi um þessa og þessa sveit eða að það þurfi rafmagn í þetta þorp eða hérað. Hitt er sérfræðinganna að segja um, á hvern veg þetta skuli allt gert.

Þess vegna er það svo í þessu máli eins og svo mörgum öðrum, að það er í raun og veru tvennt ólíkt, hvað á að heimta, að sé verkefni sérfræðinga, og hitt, hvað sé það, sem Alþ. á að ráða til úrslita. Þetta leiðir af sjálfu sér, því að það er aldrei hægt að gera ráð fyrir því, að til sé nema lítið af sérfróðum mönnum í hinum ýmsu málum, sem sæti eiga á Alþ.

Hv. 11. landsk. hóf ræðu sína áðan með því að segja, að sú skipan, sem lögð væri til með þessu frv., væri framsóknarpólitík. Ég skildi nú ekki vel, hvað hv. þm. átti við með þessu. Það er haft á orði, að ég sé ekkert vingjarnlegur í garð framsóknarmanna. En ég er óhræddur við það, á hvaða sviði sem er, að taka saman höndum við þá menn, sem mér eru sammála í stórmálum þjóðarinnar, úr hvaða flokki, sem þeir eru. Og við, sem erum í þessari n., erum úr hinum ólíku stjórnmálafl., en mér er óhætt að fullyrða, að slíkt hefur ekki komið að sök hvað þetta stórmál snertir, þar sem við höfum verið sammála um að vinna saman að lausn þess.

Nú er það svo, eins og kom fram nokkuð rækilega í ræðu hv. samgmrh., að í þessu frv. eru í raun og veru 3 höfuðatriði, sem ætlazt er til, að slegið sé föstu um með þessu frv.

Í fyrsta lagi það, að ríkið eitt skuli reisa raforkuverin og kosta dreifingu rafmagnsins út um landið og rekstur rafveitnanna.

Í öðru lagi, að það skuli selt með sama verði út um landið, án tillits til þess, hvort það er í bæjum eða sveitum.

Í þriðja lagi, sem er þó ekki að fullu ákveðið með þessu frv., að það skuli byggt á stórum orkuverum og fáum eða smáum og mörgum. Það atriði er þó samkv. þessu frv. það opið, að það er ekki slegið föstu öðru en því, að það skuli leidd raforka um þau héruð, sem þar eru til tekin, og því ekki heldur slegið föstu, hve fljótt orkuverin eigi að koma, heldur eigi það að byggjast á þeim rannsóknum, sem gerðar verða. Í þessu sambandi hefur það vakað fyrir okkur, að þetta sé alveg hliðstætt við það, þegar hér hófst deila fyrir nálægt 40 árum um það, hvort það borgaði sig að leggja síma um landið eða ekki. Þá var svo mikil andstaða gegn því að leggja síma um landið. Það þótti svo mikil fjarstæða þá af sumum mönnum að gera slíkt, að hóað var saman hundruðum manna og jafnvel þúsundum til þess að mótmæla því. Það er nákvæmlega sami tónninn, sem nú heyrist hjá þeim mönnum, sem halda því fram, að það sé óhugsandi, að það geti nokkurn tíma borgað sig að lýsa upp sveitir landsins með raforkunni. Menn voru samt á þeirri tíð, þrátt fyrir þennan furðanlega algenga hugsunarhátt, ekki hikandi við að setja símal., sem byggð voru á því, að ríkisvaldið og ríkisvaldið eitt legði síma um landið. Sama má í raun og veru segja, að sé grundvöllurinn fyrir okkar vegal. og okkar brúal. Það hefur ekki með þessum l., hvorki símal., vegal. né brúal. verið slegið neinu föstu um það, hve fljótt skuli koma því í kring að leggja þessar samgöngubætur, sem þau l. öll voru um, um landið allt, og ekki heldur hefur því verið slegið föstu í þeim l., hve miklu fé skuli varið til þessara framkvæmda á ári. Í þessu frv., sem hér liggur fyrir, er frá okkar hálfu ekki heldur neinu slegið föstu um það, — sem eðlilega er ekki heldur hægt —, hve fljótt þessi raforkumál skuli framkvæmd, og ekki slegið neinu föstu um það heldur, hve mörg raforkuverin skuli vera o. s. frv., sem hlýtur að verða verkefni raforkusérfræðinga og ríkisstjórnar á hverjum tíma að fá upplýst svo sem frekast er hægt að fá.

Nú er það augljóst mál, eins og greinilega kom fram í ræðu hæstv. samgmrh., að hann og margir fleiri hv. þm. eru ákveðið inni á þeirri stefnu, að það sé ekki gerlegt að hugsa sér að virkja fyrir sveitirnar og leiða rafmagnið út um sveitir lands okkar, og þess vegna sé óhætt að halda áfram á sömu braut, sem farin hefur verið og mjög hefur verið ýtt á eftir málum á, á þessu þingi, sem sé að virkja fyrir þéttbýlið, þar sem aðstaðan er bezt, og láta hina aðra eiga sig. Þetta er stefna, sem ég er gersamlega andvígur. Og allar þær tölur og upplýsingar, sem fram komu í ræðu hæstv. samgmrh., sem að venju talaði hér mjög glögglega um þessa hluti, sannfærðu mig ekki um það, að við, sem flytjum þetta frv., værum hér á rangri leið. Við skulum segja það, sem ég hef ekki ástæðu til að efa, að það sé rétt, sem hæstv. ráðh. tók fram, að samkvæmt áætlunum kostaði það 4 þús. kr. á mann að leiða rafmagn frá háspennulínu út um Mývatnssveit og 50 þús. kr. á bæ. Nú er þetta miðað við tímann, sem nú er, í hæstu dýrtíðinni. Og ætla má, að kostnaðurinn við slíkar framkvæmdir, ef þær væru gerðar, þegar stríðinu er lokið og tækni er orðin fullkomnari á þessu sviði heldur en nú, yrði ekki nema hluti af þessari áætlun, sem gerð er um þetta í dýrtíðinni. En einmitt í þessu sambandi er vert að minna á það, að bæði hæstv. samgmrh. og hv. 11. landsk. þm. og meiri hl. manna hér á hæstv. Alþ. voru ekki hikandi í því fyrir tæpum tveimur árum að samþ. virkjun, sem kostar meira hlutfallslega en þetta. Siglufjarðarvirkjunin er áætluð nú orðið að munu kosta 13 millj. kr. Á Siglufirði eru 3 þús. manns. Og það svarar til þess, að kostnaðurinn við virkjunina sé þá 4333 kr. á mann að meðaltali. Ég geri nú ráð fyrir því, að þessir menn gangi ekki að því gruflandi, að það hljóti að falla á ríkið meira eða minna af kostnaði við þessa virkjun og að það sé þess vegna ekki rétt að halda áfram á þeirri braut, sem í því tilfelli var farin. En þessir hv. þm. og hæstv. ráðh. hafa þó unnið að því á þessu þingi í fleiri en einu tilfelli, að það sé ekki að neinu leyti stungið við fótum um það að halda áfram á sömu braut, án þess að rannsaka það nánar, og hefur þessi framkoma þeirra verið með tilliti til þess, að rafmagnið eigi aldrei að leiða út um sveitir landsins.

Nú er það svo, að hér í þessu máli er eitt ágreiningsefni og aðallega eitt, það, hvort á að hugsa sér, að rafmagn verði leitt út um sveitir landsins eða ekki. Samkv. þessu frv., eins og það liggur fyrir, er engu slegið föstu um það, hve vítt skuli í það farið að leiða rafmagnið hér og hvar út um þetta eða hitt héraðið. Þar verður reynsla, þekking og athuganir að skera úr um, hvað mögulegt sé að komast langt í því efni. Þess vegna hefur okkur, sem stöndum að þessu frv., ekki þótt fært að slá neinu föstu um það, að rafmagn skuli leitt á hvern bæ, hvern dal eða hvern hrepp o. s. frv. Það er opið rannsóknarefni eftir frv. Og þeirra hluta vegna fæ ég ekki séð, að neitt sé til fyrirstöðu því, að samþykkja megi frv. á þeim grundvelli, sem hér er lagður. — Þó að sjálfsögðu sé eftir frv., eins og í öðrum málum, opin leið til samkomulags við þá menn um breyt. á því, sem á annað borð vilja stefna að því, að raforkan, þessi dásamlegi kraftur, verði leidd út um byggðir landsins, og þar með komið í veg fyrir, að áfram haldi sá straumur, sem verið hefur úr sveitunum, sem miðar að því, að sveitirnar leggist í eyði, sem þær óhjásneiðanlega gera, ef haldið verður áfram á þeirri braut í rafmagnsmálum, sem haldin hefur verið á undanförnum árum á hæstv. Alþ., ekki sízt á þessu yfirstandandi þingi.

Ég veit ekki, hvort ég á að fara út í það að rekja þær aðfinnslur, sem fram komu hjá hv. 11. landsk. þm. í sambandi við þetta frv. En það eru þó nokkur atriði í ræðu hans, sem ég kemst ekki hjá að minnast aðeins á. Og það er í fyrsta lagi það, sem kom fram hjá honum og hann tók enn skýrar fram í sinni fyrri ræðu, að með þessu frv. væri til þess ætlazt að leggja háan skatt, — hann sagði tuga milljóna skatt —, á þéttbýlið í landinu til hagsbóta fyrir sveitir landsins. Þar er einmitt gripið á kýlinu í þessu sambandi, því að sumir menn vilja sjá kaupstöðunum og öðru þéttbýli fyrir nægri raforku, en ekki dreifbýlinu í sveitunum. Og með sömu röksemdafærslu mætti segja, að það væri að leggja háan skatt á Reykjavík og aðra bæi að hafa t. d símagjöld þau sömu um allt landið, póstgjöld þau sömu um allt landið o. s. frv., enda þótt það kosti sjálfsagt miklu meira að koma pósti og síma út um hinar strjálu byggðir en það kostar að leggja síma innan um þéttbýlið. Nú er það svo, að jafnvel þótt svo væri, að það kostaði í beztu sveitum landsins 40 til 50 þús. kr. á heimili eða bæi að leiða rafmagn þangað, eins og gert er ráð fyrir í áætlunum, sem nú eru gerðar, þá er það ekki sönnun fyrir því, að það borgi sig að leggja þessar sveitir í eyði og hugsa aldrei til að leiða þangað rafmagn. Það kostar, eins og nú stendur, 50 til 80 þús. kr. að byggja lítið íbúðarhús á sveitaheimili, en menn gera það margir samt heldur en að fara burt og leggja jarðir sínar í eyði. Nú stendur yfir dýrasti tími, sem við höfum lifað, og dýrasti tími, sem komið hefur á þessu landi um vöruverð og annað slíkt. Vel má vera, að slík hús, sem ég gat um, muni kosta að 10–20 árum liðnum um 20 þús. kr. Um rafmagnið getum við ekkert sagt, hve mikið tækninni fer fram á sviði raforkuframleiðslu og flutning á raforku til þess tíma. Og við getum heldur ekkert um það sagt, hve mikil lækkun verður á kostnaði við raforkuframkvæmdir að stríðinu loknu og þegar áhrif stríðsins á verðlag eru um garð gengin og fjármál þjóðarinnar eru í eðlilegu horfi, en slík breyt. mundi gera margt mögulegt, sem nú virðist ekki fært. — En til þess var þessi raforkumálan. skipuð, og til þess hefur hún starfað, og að því hafa hnigið allar þær rökræður, sem um þetta mál hafa farið fram, að það væri gengið að því alveg ákveðið að hálfu Alþ. að marka greinilega stefnu með löggjöf um það, hvernig þessum málum skyldi hagað, en ekki haldið áfram með hinn mikla hringlandaskap, sem verið hefur á þessu sviði fram að þessu og stefnir út í fullkomna ófæru eftir þeim atkvgr. að dæma, sem við afgreiðslu ábyrgða fyrir raforkuframkvæmdir hafa sýnt sig hér á hæstv. Alþ. nú.

Nú skal ég ekki fara um málið miklu fleiri orðum, enda þótt margt, sem hér hefur verið sagt, gefi tilefni til þess, og einkum það, sem hæstv. samgmrh. sagði, að það, sem gæti orðið hættulegast við að samþ. þetta frv., væri það, að það gæti orðið til þess að tefja fyrir því, að ýmsir staðir, þar sem er þéttbýli og góð aðstaða til raforkuframleiðslu og flutnings, fengju raforkuna, ef það væri ákveðið, að ríkið ætti að ganga inn á þá stefnu, sem hér er mörkuð í þessu frv. Það er náttúrlega mikið til í þessu. En um leið og ákveðið er að byggja raforkuver fyrir staði, sem bezta aðstöðu hafa í þessu efni, og það er gert nú í hæstu dýrtíðinni, þá er með því, svo sem frekast er unnt, verið að útiloka um alveg ófyrirsjáanlega framtíð sveitirnar, og jafnvel okkar beztu sveitir, frá því að geta notið þeirra þæginda, sem raforkan veitir. Og það er það, sem er aðalatriðið í þessu máli og fyrir okkur vakir, sem flytjum þetta frv., að koma í veg fyrir.

Ég held þess vegna, að það ætti ekki að vera neitt hættulegra að samþ. raforkul. á þessum grundvelli, sem í frv. er lagður, nú en á sínum tíma það var hættulegt að samþ. símal., án þess að menn vissu, hvað kostaði að leggja síma um landið allt. Og ég held, að það sé ekkert hættulegra heldur en á sínum tíma það var hættulegt að setja vegal. og brúal., sem menn ekki heldur vissu, hve mikið mundi kosta framkvæmd á eða hvort það mundi borga sig í náinni framtíð að leggja vegi um landið og brúa vatnsföll. En þessu öllu hefur verið þokað áfram smátt og smátt og verður gert á meðan byggð verður í sveitum. Og hið sama ætlumst við til, að verði, að því er raforkuna snertir.