05.02.1945
Neðri deild: 121. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1364 í B-deild Alþingistíðinda. (3656)

128. mál, búnaðarmálasjóður

Skúli Guðmundsson:

Ég á hér tvær brtt. á þskj. 918. Fyrri brtt. snertir gjald það. sem leggja á á landbúnaðarvörur samkvæmt þessari gr., en það er ½% af vöruverðinu. Ég tel. að þetta muni vera óþarflega hátt gjald. Það er mikið fé, sem mundi koma í þennan sjóð á ári með þessu gjaldi. Og þó að ég að vísu viti nú ekki, hvert verkefni þessa sjóðs muni aðallega vera, þá get ég búizt við, að ekki sé þörf á að leggja svona hátt gjald á vörurnar sem þarna er farið fram á. Ég hef þó ekki lagt til í mínum brtt. að lækka þennan hundraðshluta. En hins vegar er mín brtt. um það, að stjórn Búnaðarfélags Íslands geti ákveðið að lækka gjaldið og einnig að fella það alveg niður um ákveðið tímabil, ef hún telur óþarft að innheimta svona hátt gjald í sjóðinn.

Mér hefur verið bent á, að eðlilegra væri, að það væri búnaðarþingið, en ekki stj. Búnaðarfél., sem hefði með það að gera að ákveða þetta. En ég sé ekki ástæðu til þess að breyta því, vegna þess að stjórn Búnaðarfélagsins mun að sjálfsögðu fara að vilja búnaðarþings í þessu efni. Ég tel það æskilegt, að hægt sé að breyta þessu gjaldi til lækkunar eða fella það niður í bili án þess að til þess þurfi lagabreytingu, og við það er brtt. mín miðuð.

Hin brtt. er um lítilfjörlegt atriði í 2. gr.. þar sem um er að ræða gjaldið, sem rjómabú og smjörsamlög eiga að greiða samkvæmt þessu frv., en ég legg til, að falli burt. Það er ástæða til þess að fella það burt vegna þeirrar samkeppni, sem nú er milli þessara aðila annars vegar og heimilanna hins vegar, þar sem smjör er selt með sama verði frá samlögum, rjómabúm og heimilum. Ég sé svo ekki ástæðu til þess að fjölyrða um þessar brtt. mínar.

Ég verð að láta undrun mína í ljós yfir brtt. landbn. á þskj. 940. Um síðari brtt. er að vísu ekkert sérstakt að segja. Það mun hafa verið gengið út frá því, að í framkvæmdinni yrði það þannig. eins og þar er tekið fram. En hitt er mér alveg óskiljanlegt. að menn vilji gera hvort tveggja í senn. að slá föstu, að bændur greiði þetta gjald sjálfir og megi ekki velta því yfir á aðra, og um leið taka af þeim ráðstöfunarréttinn yfir þessu fé. Mér finnst furðulegt, að meiri hl. landbn. skuli komast að þessari niðurstöðu. Ég veit ekki, hvað sagt væri af sumum mönnum, ef samþykkt væri, að stéttarfélög gætu ekki ráðstafað fé. sem þau eiga í sjóðum, án þess að spyrja stjórnarvöldin um það. Þetta er hliðstætt því. ef slík ákvæði væru sett í lög.