05.02.1945
Neðri deild: 121. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1367 í B-deild Alþingistíðinda. (3661)

128. mál, búnaðarmálasjóður

Jón Pálmason:

Ég er hissa á, hvað sumir menn virðast hafa tekið óstinnt upp þessa brtt., sem hér liggur fyrir frá meiri hl. landbn.

Hv. þm. Borgf. talaði um þá skyndilegu hugarfarsbreytingu, sem orðið hefði hjá okkur, sem flytjum þessa till., frá því, sem hefði verið, þegar frv. gekk í gegnum d. Ég tók fram, þegar ég mælti fyrir brtt., að hún, væri flutt eftir tilmælum hæstv. stj. Ég fyrir mitt leyti hef ekki lagt áherzlu á, að breyta þessu frv. frá því, sem það var, en hins vegar get ég ekki annað en álitið, að það sé að ýmsu leyti eðlilegt að gera það til samkomulags að samþ. þessa brtt., því að það er vitað mál,

að það eru ekki allir menn hér á þingi, sem kæra sig um að leggja á þetta skattgjald.

Viðvíkjandi því, sem hv. þm. V.-Húnv. var að tala um út af þessari brtt., að sér fyndist ósamræmi í því að vilja láta bændur, sem eiga að greiða þetta gjald, ekki fá að vera einráða um úthlutun fjárins, vil ég aðeins segja, að það er algengt um skatta, sem lagðir eru á menn, að þeir ráði ekki sjálfir úthlutun þess fjár. Þetta er ekki annað en veltuskattur á bændur með þeirra samþykki. Vörur bænda eru undanþegnar þeim veltuskatti, sem nú er í ráði að leggja á, en þetta er veltuskattur, sem er ætlazt til, að gangi til þarfa bændanna sjálfra. Ég geri ráð fyrir, að sú brtt., sem hér hefur verið flutt að tilhlutun hæstv. stj., eigi kannske rætur sínar að rekja til þeirra deilna, sem orðið hafa um veltuskattinn, og tel ég hana með öllu hættulausa. Ég fyrir mitt leyti treysti hæstv. landbrh. alveg eins vel til að samþ. úthlutun þessa fjár og tel fyrir bændanna hönd ekki neina hættu af því stafa, enda er það augljóst mál, að ef ágreiningur verður milli búnaðarþings og búnaðarfélagsstjórnarinnar annars vegar og Alþingis hins vegar, þá mundi af því leiða, að l. yrðu afnumin.

Ég veit ekkert um það, að þetta skattgjald hafi verið samþ. af öllum búnaðarsamböndum í landinu, en sú reynsla, sem ég hef fengið af fylgi bænda við málið, er þannig, að á leiðarþingi, sem ég hélt á Blönduósi milli hátíða, kom fram harðvítug gagnrýni frá þeim bónda í héraðinu, sem talaði þar helzt f.h. Framsfl. Taldi hann fjarri lagi, að þingið færi að leggja þennan skatt á bændur nú, jafnvel þótt það ætti að ganga til þeirra mála. Þar var enginn til að mæla skattinum bót nema ég einn, og þó voru mjög margir bændur viðstaddir. Það er því víst, að ekki er óskipt ánægja meðal bænda á þessu skattgjaldi, en ég tel fyrir mitt leyti, að það sé um að ræða svo mikla þörf fyrir félagsmálefni bænda, að ég er því fylgjandi, að þetta gjald verði lagt á vörur þeirra.

Varðandi það. sem hv. þm. V.-Húnv. var að tala um í sambandi við sína till., þá kom þar fram sú skoðun, að þetta væri of hátt gjald. Hann fór fram á að lækka það og gefa Búnaðarfélagi Íslands heimild til að fella það niður. Á þetta get ég ekki fallizt. Ég vil hafa gjaldið óbreytt og tel enga hættu í því að samþ., að landbrh. hafi á hverjum tíma íhlutun um, hvernig því er úthlutað, sem færi þannig fram, að gerð yrði áætlun um, hvernig því yrði varið, og ráðh. yrði að samþ. þá áætlun.

Samkvæmt því, sem áætlað hefur verið, og samkvæmt því, sem nú liggur helzt fyrir um verð á þessum vörum, má ætla, að þessi skattur muni á þessu ári nema allt að hálfri milljón króna. Hér er því um talsverða upphæð að ræða. Ég álít, að það sé í þessu efni bezt fyrir alla aðila, að sem bezt og friðsamlegast samstarf geti orðið um málið. Mér þykir undarlegt, ef svo mikið vantraust er á hæstv. núverandi landbrh., að hv. þm. telji einhvern voða af því stafa, að þetta eigi að vera háð hans samþykki. Ef kæmi annar landbrh., sem hefði minna traust, þá er, eins og ég sagði áðan, augljóst mál, að það er fyrir hendi sá möguleiki að afnema l., ef ósamkomulag yrði milli búnaðarþings og landbúnaðarráðherra um úthlutun fjárins.