05.02.1945
Neðri deild: 121. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1369 í B-deild Alþingistíðinda. (3664)

128. mál, búnaðarmálasjóður

Pétur Ottesen:

Ég finn ástæðu til út af ræðu hæstvirts samgöngumálaráðherra að segja nokkur orð.

Honum fannst, að mér hefði fipazt í röksemdafærslunni, að því leyti sem ég minntist á fiskveiðasjóðsgjaldið í þessu sambandi. Ég vil benda honum á, að það er gert með fullu samkomulagi við sjávarútvegsmenn að haga meðferð þessa gjalds á þann veg og með þeim ráðstöfunum, sem þar hafa verið gerðar, og einnig er þess að gæta, að það er fellt í nokkuð fast form í þeirri löggjöf, sem gildir um þær lánveitingar. Ég hef ekki orðið var við. hvorki meðan á því stóð að setja þetta form um ráðstöfun fjárins né síðar, að sjávarútvegsmenn hefðu neitt við þetta að athuga, og þess vegna hafði ég ekki heldur neitt við það að athuga út frá þessu sjónarmiði séð. En hér er þetta mál flutt f.h. bænda, og þeir ætlast til þess, að þeir fái að ráðstafa þessu fé. Ef það hefði fylgt því, að það hefði að einhverju leyti átt að renna inn í Búnaðarbanka Íslands og verið látið þar í einhverja lánadeild, sem bændur hefðu leitað til til að fá lán úr til sinna framkvæmda, — hefðu bændur hugsað sér framkvæmd þessara l. á þann veg, — þá efast ég ekki um, að þingið hefði orðið við því að verja fénu með þeim hætti. En það er tilgangur bænda með þessu frv., að féð verði falið búnaðarþingi til ráðstöfunar. Það er ósk þeirra og tilgangur, án þess að nokkur löggjöf verði sett um, hvernig með það skuli fara, eins og átti sér stað um fiskveiðasjóðsgjaldið. Það er þeirra tilgangur með þessari lagasetningu, að þeir fái þetta fé í sinn sjóð og fái að ráðstafa því sjálfir. Þess vegna finnst mér ósamræmi í þessu og l. um fiskveiðasjóðsgjald, því að þegar þau l. voru sett, var fénu beinlínis ráðstafað samkvæmt óskum, sem höfðu komið fram um það frá sjávarútvegsmönnum. Ef svo í þessu tilfelli á að neita hliðstæðum óskum, sem fram koma frá bændum um, hvernig með þetta fé skuli fara, þá tel ég það ósamræmi við það, sem áður hefur verið gert. Ég held þess vegna, að ef mér hefur eitthvað fipazt í röksemdafærslunni, þá hafi hæstv. samgmrh. orðið það á að stranda á sama skerinu hvað þetta snertir.

Í ræðu, sem hv. þm. A.-Húnv. hélt um þetta mál, fór hann að útfæra það á ýmsan veg og mála upp á vegginn t.d. það, að þótt bændur fengju eiginn umráðarétt yfir þessu fé, gæti vel svo farið, að ríkisstj. yrði svo skipuð síðar meir og Alþingi þannig skipað, að allt vald yrði tekið af búnaðarþingi um þetta mál. Mér finnst, að þetta séu ekki nein rök í þessu máli. Annaðhvort viðurkennir hv. þm. rétt búnaðarþings til ráðstöfunar á þessu fé eða hann gerir það ekki. Annaðhvort viðurkennir hann, að þessu máli sé bezt og hentugast skipað þannig, að búnaðarþing fái ráðstöfun fjárins upp á eigin hönd eins og bændur vilja, eða hann telur réttast, að aðrir aðilar hafi það með höndum, eins og kemur fram í brtt. hans, því að þar leggur hann til, að sú skipun sé á höfð, að meðferð þessa fjár sé háð samþykki stjórnarvaldanna.

Hv. þm. færir fram sem málsbætur fyrir þeirri hugarfarsbreytingu, sem orðið hefur hjá honum, síðan málið fór til Ed., að viðkomandi ráðh. hafi óskað eftir þessu. Þá virðist hann lita svo á sína aðstöðu, að honum sé skylt að gera það, sem ráðh. segir, jafnvel þótt það sé í mótsetningu við hans fyrri skoðun í þessu máli.

Um það, að ekkert þurfi að óttast í sambúðinni milli búnaðarþings og þess manns, sem nú skipar sæti landbrh., þá er ég fyrir mitt leyti ekki hræddur við þá sambúð, en ef hann miðar þá löggjöf, sem nú er verið að setja, við þann hæstv. ráðh., sem situr í stólnum á þeim tíma, sem löggjöfin er sett, þá lítur hann allt of skammt í sambandi við afgreiðslu þessara l., því að þau eru eins og önnur l., sem sett eru, miðuð við allar þær ríkisstj., sem sitja að völdum, meðan l. eru í gildi. Þetta er nú .það stjórnarfar, sem við búum við.

Hv. þm. sagði, að fram hefði komið ein óánægjurödd gegn þessu máli á fundi, sem hann hélt. Það afsannar ekkert það, sem ég sagði, að málið var sent til allra búnaðarsambanda, og þau lýstu sig ekki einu sinni öll samþykk þessu máli, heldur sendu þakklæti til stj. og mþn., sem fjallaði um þetta mál, fyrir að hafa farið inn á þessa braut og vilja með þeim hætti greiða götu þess að efla fjárhagslegt sjálfstæði Búnaðarfélags Íslands. Þannig er rétta lýsingin á því. Þessi bréf liggja fyrir í Búnaðarfélagi Íslands, þó að ekki hafi verið farið með þau til landbn., sem ekki var ástæða til á því stigi málsins, því að n. lagði óskipt til, að málið yrði samþ., og þurfti ekki frekari gagna við. (BÁ: Það hefur verið skýrt frá þessu oftar en einu sinni.) Já, það hefur verið skýrt frá því oftar en einu sinni, segir hv. frsm. minni hl.

Ég held, að það sé ákaflega skakkt til getið um hugarfar bænda og sjálfstæðislöngun í eigin starfi og félagsstarfi, ef hv. þm. lítur svo á, að það sé meðal til að lækna þessa óánægjurödd að taka umráðaréttinn af búnaðarþingi og flytja hann til annarra stjórnarvalda. Þá misskil ég alveg hugsunarhátt bænda, ef það er læknismeðal við þeirri óánægju, sem uppi kynni að vera um þetta mál.