05.02.1945
Neðri deild: 121. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1370 í B-deild Alþingistíðinda. (3665)

128. mál, búnaðarmálasjóður

Samgmrh. (Emil Jónsson):

Það eru örfá orð út af síðustu ræðu hv. þm. Borgf.

Hann sagði, að það væri sitt hvort með þessa lagasetningu og það gjald, sem nú er tekið af sjávarafurðum í fiskveiðasjóð og fiskimálasjóð, því að núverandi skipulag á gjaldinu af sjávarafurðunum væri gert í fullu samkomulagi við sjávarútvegsmenn og þar að auki í föstu formi, og þyrfti þess vegna ekki og mætti ekki bera þetta tvennt saman. Ég skal ekki fara langt út í þetta og get ekki fullyrt nægilega um þetta hér, þar sem ég hef engin gögn. Ég hygg þó, og held ég fari ekki. með rangt mál, að margir sjávarútvegsmenn séu andstæðir þeirri löggjöf, sem nú gildir í þessu. efni. Ég minnist þess á fiskiþingi og víðar, að komið hafa tili. um, að fiskimálasjóður yrði lagður undir Fiskifélag Íslands, og það veit ég, að hv. þm. kannast við, svo að það er síður en svo, að þessi skipun sé gerð í fullu samkomulagi við sjávarútvegsmenn. En þetta hefur þótt nauðsynlegt, vegna þess að hér er um skattgjald að ræða, og eins og hæstv. dómsmrh. sagði, þá er ekki hægt að leggja lögþvingaðan skatt á landsfólkið eða nokkurn hluta þess, þó að það sé vilji þess, — og þó að það sé sagt, að öll búnaðarsambönd séu samþykk þessari skattaálagningu, þá er alls ekki þar með sagt, að meginið af bændum sé henni fylgjandi, — nema ríkisstj. eða sá ráðh., sem með þessi mál fer, hafi íhlutun um, hvernig því fé er varið.

Ég skal svo ekki fara út í þetta frekar, en aðeins undirstrika, að mér finnst hæpin fullyrðing hjá hv. þm., að sú tilhögun, sem nú er á gjaldinu af sjávarafurðum. sé í fullu samkomulagi við sjávarútvegsmenn. Mér hefur skilizt, að þeir vilji vera nokkru frjálsari með það og fá þetta fé til ráðstöfunar án íhlutunar ráðh. Er það alveg hliðstætt því. sem þetta frv. fer fram á, og gæti ég eftir atvikum hugsað mér, að það væri tekið til athugunar, en ef það er bundið á einu sviði, verður það að vera hliðstætt á öðrum.