24.01.1944
Efri deild: 5. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 529 í C-deild Alþingistíðinda. (3669)

16. mál, dýrtíðarráðstafanir

Flm. (Brynjólfur Bjarnason):

Þetta frv. hefur að geyma tvær brtt. við l. um dýrtíðarráðstafanir frá 1943, og voru báðar fluttar hér á síðasta þ. Þá fyrri flutti ég sem sérstakt frv., og var hún samþ. í þessari hv. d. og eins við 2. umr. í Nd. í því formi, sem hún er hér fram borin, en þar dagaði hana uppi. Þó verður að segja, að hún hafi haft eindregið fylgi hér á síðasta þ. — Síðari till. frv. hefur sama tilgang og till., sem ég flutti hér á síðasta þ., og í Nd. flutti þá hv. þm. A.-Húnv. aðra till., sem var henni nærri því samhljóða. Sú till. var felld í Nd. með eins atkv. mun, og sama er að segja um mína till., að hún var felld með eins atkv. mun hér í hv. d.

Um fyrri till., a-lið þessa frv., er það að segja, að hún hafði fylgi meiri hl. Alþ., og er enginn vafi á því, að hefði Alþ. staðið einum eða tveim dögum lengur, hefði hún verið samþ. með allmiklum meiri hl. Þá er spurningin sú, hvort ástæða sé til að bera till. fram að nýju. Hæstv. ríkisstj. hefur verið veitt heimild til bráðabirgða til að greiða niður verð á innlendum framleiðsluvörum. Sú heimild er sem sagt aðeins til bráðabirgða og getur fallið úr gildi, hvenær sem Alþ. ákveður. Ég er, eins og hv. dm. er kunnugt, andvígur þessari leið, einnig sem bráðabirgðaráðstöfun, og eftir því sem fram kom við umr., virðist meiri hl. Alþ. vera henni andvígur. Ég álít, að þessa heimild eigi að fella niður hið fyrsta. En þegar hún fellur niður, þurfa vitanlega að vera til skýlaus ákvæði um það, að ríkisstj. hafi enga heimild til niðurgreiðslu landbúnaðarafurða. Um þetta er ágreiningur. Ríkisstj. telur sig hafa heimildina samkvæmt l. sjálfum, og ég tel, að sú skoðun geti ekki stafað af öðru en misskilningi.

Ég heyrði raddir um það í þessari d., þegar málið var til umr., að ekki væri tímabært þá að gera neinar breyt. á l. um dýrtíðarráðstafanir. Sumir hv. þm. töldu, að þetta væri ekki heppilegt, á meðan nýja sex manna n. hefði ekki skilað áliti. Nú virðist mér, að eigi samkomulag sex manna n. að vera áfram í gildi og eigi að halda áfram að ákveða verðlag á landbúnaðarvörum samkv. dýrtíðarl., þá sé óhjákvæmilegt að gera þessar breyt., sem hér er farið fram á. Hver á að ákveða vísitölu landbúnaðarafurða á komandi hausti? Um það segja l. ekkert ákveðið. En það er ekki hægt að ákveða neina vísitölu, nema ákvæði séu um það í l., og það liggur beinast fyrir, að sex manna n. ákveði hana sjálf, enda er hún öllum hnútum kunnugust.

Það hafa heyrzt raddir um, að ríkisstj. gæti reiknað þetta út með aðstoð hagstofunnar. Slíkt er með öllu ólöglegt og ekki viðurkennt af neinum, og með því væri samkomulag sex manna n. úr gildi fallið. Ég geri ráð fyrir, að engin stj. kæri sig um að vera sett í þá klípu að geta ekki látið ákveða verð á landbúnaðarafurðum með löglegum hætti.

Ef b-liður þessa frv. verður samþ., er fyrir það girt, að samkomulaginu frá í haust verði á nokkurn hátt raskað. Ágreining um vísitöluna má afgreiða með einföldum meiri hl., en grundvellinum sjálfum, sem lagður var s. l. sumar, er ekki hægt að breyta, nema allir nm. séu sammála.

Ég legg að lokum til, að málinu verði vísað til 2. umr. og fjhn.