09.10.1944
Efri deild: 55. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 534 í C-deild Alþingistíðinda. (3684)

139. mál, æskulýðshöll í Reykjavík

Steingrímur Aðalsteinsson:

Herra forseti. — Ég vona, að það sé ekki ágreiningur um nauðsyn þess aðalefnis, sem frv. fjallar um, þ. e. a. s., að æskulýðnum hér í Reykjavík verði skapaður samastaður, þar sem hann geti notið allrar heilbrigðrar skemmtunar og haft tækifæri til þess að þroska sig á ýmsa lund, fram yfir það, sem nú er. Og þó að ég hafi leyft mér að bera fram þessar brtt. á þskj. 404, þá vil ég taka það fram, að ég vona, að það verði á engan hátt til þess að hefta framgang þessa máls á einn eða annan hátt. Enda, eins og hv. frsm, allshn. tók fram í ræðu sinni, þá varða þessar brtt. báðar aðeins það atriði, hvernig sett verði saman sú n., sem á að hafa með að gera bæði byggingu æskulýðshallarinnar, þegar til þess kæmi, og einnig stjórn hennar. En hitt liggur í hlutarins eðli, að ef það á að ná tilgangi sínum að skapa æskulýðnum hér í Reykjavík og einnig öðrum æskulýð landsins, sem hingað leitar, það athvarf, sem hér er um að ræða, þá er mjög nauðsynlegt, að þegar til þess er stofnað, sé svo sem frekast má verða tekið tillit til óska æskulýðsins sjálfs. Og þess vegna álít ég mjög óheppilegt, að sú n., sem hefur á hendi stjórn þessara mála, bæði að því er snertir byggingu hallarinnar og einnig, þegar til kemur, með rekstur hennar, verði þannig skipuð, að æskulýðurinn hafi ekki aðstöðu til að hafa áhrif, beint eða óbeint, á það, hvernig þessu verður fyrir komið og hvernig rekstri þessarar hallar síðar verður hagað, og áhrif á það, hvernig fullnægt verði þeim kröfum, sem æskulýðurinn mundi gera til slíkrar stofnunar, og þá stuðla að því, að þessi stofnun yrði framtíðarheimili æskulýðsins, þannig að æskulýðurinn vildi þar vera og notaði það til þess ýtrasta, eftir því sem skilyrði væru fyrir hendi. Það var líka nokkuð á þetta minnzt í n., eins og hv. frsm. talaði um, og það viðurkennt, að það væri í raun og veru óheppilegt, að æskulýðurinn hefði ekki fulltrúa heldur í þessari stjórnarnefnd. En, eins og hv. frsm. líka tók fram, þá eru nokkrir erfiðleikar á því að finna aðila, sem talizt geti aðili æskulýðsins í heild og bær um að skipa slíkan fulltrúa. Og af því að við í n. fundum ekki — a. m. k. í bili — þann aðila, þá gerði n. engar brtt. um það atriði.

Í þeim brtt., sem hér liggja fyrir, er ekki heldur gengið lengra hvað þetta atriði snertir heldur en það, að samtök æskulýðsins, þ. e. a. s. félög æskulýðsins hér í Reykjavík, fái aðeins að setja saman n. eða fulltrúaráð, sem hafi tillögurétt til stjórnarn. hvað þessi mál varðar, bæði um byggingu og rekstur æskulýðshallarinnar. Í sjálfri stjórnarn. er enn ekki heldur gert ráð fyrir, að æskulýðurinn hafi neinn fastan fulltrúa. En með þessu væri þó að mínu áliti séð fyrir því, að æskulýðurinn hefði tök á að koma á framfæri við stjórnarn. þeim till., sem æskulýðsfélögin teldu við eiga, þannig að þau gætu borið fram óskir æskulýðsins hér í bæ við stjórnarn. Og að sjálfsögðu, þegar slík ákvæði væru sett í l., þá mundi stjórnarn. telja sér skylt að taka tillit til þessara tillagna að svo miklu leyti sem frekast væri unnt. En með því væri þá séð fyrir því að verulegu leyti, að æskulýðurinn gæti nokkuð haft áhrif á það, hvernig þessum rekstri yrði hagað, og tilgangurinn er líka sá með brtt. Eftir sem áður yrði það þessi þriggja manna n., sem hefur úrskurðarvald bæði um bygginguna og reksturinn á þessari höll og yrði ábyrg fyrir þeim málum gagnvart þeim aðilum báðum, sem legðu fram fé til þessarar starfrækslu. Ég tel þess vegna, að með brtt. sé ekki það langt gengið, að þeim aðilum, sem ætlað er að kosta þetta heimili æskulýðsins, geti stafað nokkur hætta af. Þeir hafa samt sína fulltrúa, sem ábyrgir eru gagnvart þeim um reksturinn. Fulltrúar æskulýðsfélaganna yrðu aðeins ráðgefandi, en hefðu möguleika til þess að koma á framfæri óskum æskulýðsins í landinu.

Um hina brtt., um samsetningu stjórnarnefndarinnar, þessarar þriggja manna n., þá álít ég, eins og einnig kom fram hjá hv. frsm. allshn., að það sé svona dálítið utangarna og þar að auki vafasamt, hvort heppilegt sé, að hæstiréttur sé að tilnefna mann í slíka nefnd sem þessa. Og þó að svo sé til ætlazt, að ríkissjóður greiði kostnað af þessu að hálfu leyti á móti bæjarsjóði Reykjavíkur, þá finnst mér liggja í hlutarins eðli, að þetta varði Reykvíkinga mest. Því að bæði er það, að eftir því sem ákveðið er í frv. nú, þá á Reykjavík, auk helmings kostnaðar að öðru leyti, að leggja til lóð, sem má telja nokkurt fjárhagslegt atriði, þannig að framlag Reykjavíkur verður sem því nemur meira en ríkisins, og að hinu leytinu finnst mér það liggja í hlutarins eðli, að það varði fyrir Reykvíkinga þó nokkuð meira máli alveg sérstaklega um rekstur þessarar hallar heldur en þó ríkið, þó að segja megi að vísu, að ríkið varði nokkuð um íbúa Reykjavíkurbæjar og þetta varði náttúrlega landið í heild líka að verulegu leyti, að því leyti, að æskulýðurinn víðs vegar að af landinu muni hafa þessa heimilis not. En samt sem áður held ég, að þetta mundi, hvað allan rekstur snertir, varða Reykjavíkurbæ meira heldur en aðra aðila, og þess vegna tel ég ekki óeðlilegt, þar sem ekki er hægt að skipta jafnar við skipun í n., með því að hafa þó oddamann, að Reykjavík hafi meiri hluta í þessari stjórnarn. Og teldi ég það a. m. k. eðlilegra heldur en að ríkið hefði meiri hl. í n., tvo menn af þremur, ef talað væri um skiptingu aðeins milli ríkisins og Reykjavíkurbæjar á því að skipa í þessa stjórnarn. Og vil ég vænta þess, að það geti orðið samkomulag um það að breyta samsetningu n. á þennan hátt, sem hér er gert ráð fyrir.

Hv. frsm. allshn. taldi helzt þau tormerki á því að leyfa æskulýðsfélögum að mynda sín fulltrúaráð, að fyrst og fremst væri nokkuð á reiki, hvað mætti telja æskulýðssamtök í landinu og hversu margir fulltrúar ættu að vera í þessu fulltrúaráði, ef samþ. væru ákvæði um það. Það má vafalaust deila um það, hvaða félög hafa skilyrðislausan rétt til þess að vera aðilar að þessu og hver ekki. En ég held, vegna þess hversu valdsvið þessa fulltrúaráðs er í raun og veru lítið, — það er ekki annað en ráðgefandi —, þá geti það ekki haft svo mikla þýðingu fyrir afgreiðslu málsins hér, að það geti staðið í vegi fyrir því að samþykkja þetta, þó að ekki liggi fyrir, hver félög yrðu aðilar þarna, né hve margir fulltrúar væru í þessu fulltrúaráði. Því að tilgangurinn með fulltrúaráðinu er enginn annar en sá, að það leggi till. sínar fyrir stjórnarn. Og stjórnarn. mundi að sjálfsögðu meta þessar till. og taka til framkvæmda það af þeim, sem henni sýndist heppilegt og hægt að framkvæma, ekki kannske alveg án tillits til þess, en þó að verulegu leyti án tillits til þess, hvort það væri meiri hluti eða minni hluti þessa fulltrúaráðs, sem stæði að þeim. Sem sagt, að mínu áliti ætti þetta fulltrúaráð að gera það eitt að koma á framfæri óskum æskulýðsins sjálfs við stjórnarn. æskulýðshallarinnar, svo ætti stjórnarn. að vinza úr þessum till. það, sem henni þætti tiltækilegast, og láta hitt vera. Þannig að hvort sem þetta fulltrúaráð yrði fjölmennara eða fámennara eða hvernig sem atkv. mundu falla um till., sem það bæri fram við n., mundi það ekki hafa úrslitavald um það, hvað af till. þess kæmi til framkvæmda, heldur væru þarna óskir æskulýðsins fram bornar, sem stjórnarn. svo vinzaði úr og bæri ábyrgð á framkvæmdum sínum gagnvart Reykjavíkurbæ og ríkinu.

Ég get vel fallizt á þá till. hv. frsm. allshn., að umr. verði frestað, til þess að n. geti athugað þessar brtt. og annað, sem fram kynni að koma í sambandi við málið. Enda sýndist mér líka að mætti, til þess að tefja ekki málið, ljúka þessari umr. og n. athugaði málið síðan fyrir 3. umr. En ef hv. frsm. álítur það heppilegra, þá get ég fallizt á, að þessari umr. verði nú frestað.