08.02.1945
Efri deild: 121. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1376 í B-deild Alþingistíðinda. (3696)

128. mál, búnaðarmálasjóður

Páll Hermannsson:

Herra forseti. — Út af ummælum, sem féllu hér í gær um þetta mál hjá tveim hæstv. ráðh., vildi ég segja nokkur orð. Hæstv. landbrh. taldi, að sú breyt., sem hefði orðið á frv. í Nd., væri eintómur hégómi, og undraðist, að menn skyldu vera að rekast nokkuð í þessu hér. Ég get ekki, verið þessum hæstv. ráðh. sammála um, að þetta sé hégómi. Í þessu frv. er gert ráð fyrir því að skylda bændur, sem framleiða landbúnaðarvörur, með l. til fjárframlaga. Að vísu er ætlazt til þess, að þessi fjárframlög komi þeim sjálfum að liði. Mér finnst það enginn hégómi, hvort, þeir eiga sjálfir að ráða yfir þessu fé eða ekki. Ég mun þó hins vegar greiða þessu frv. atkv., þó að það taki ekki breyt., en geri það með hangandi hendi, vegna þess að ég er ekki alveg viss um, að það sé rétt að leggja þessa kvöð á bændur, ef þeir fá ekki að ráða yfir þessu fé og verja því á þann hátt, sem heppilegast væri talið fyrir þeirra stétt. Ég get að vísu sagt það, að ég geri ekki ráð fyrir því, að hæstv. landbrh. mundi sýna ósanngirni í þessu efni, en hins vegar býst ég varla við því, að jafnvel þessi hæstv. ráðh. gæti gefið tryggingu fyrir því, að það gæti ekki komið fyrir, að það yrðu mannaskipti í stj. Menn eru misjafnir, sumir góðir og í versta tilfelli aðrir illir, og þá gæti verið annað en hentugt fyrir bændur að leggja þetta fé fram í hendur á manni, sem í versta tilfelli væri allt annað en velviljaður í þeirra garð, og auk þess væri það leiðinlegt fyrir bændur að vera skyldaðir til þess að leggja fram fé á þennan hátt og hafa ekki heimild til þess að ráða yfir því.

Þá var það hæstv. menntmrh. Hann hefur verið á móti þessu frv. frá byrjun og ekki viljað láta leggja þetta gjald á, og mér skildist hann telja, að þetta væri sambærilegt við það, að stjórn Alþýðusambandsins hefði í l. leyfi til þess að leggja ákveðið gjald á alla launþega, t.d. 1/2% af öllum greiddum launum. Ég get ekki verið sammála um það, að þetta sé sambærilegt, mér finnst standa ólíkt á um þetta tvennt. Ég efast ekkert um það, að Alþýðusambandið eða stjórn þess verji á ýmsan hátt vel í þarfir verkamanna því fé, sem það fær milli handa, alveg eins og Búnaðarfélag Íslands mundi verja því fé vel, sem það fengi milli handa. En samt er þetta ekki sambærilegt, vegna þess að það er annars konar útgjaldaþörf, sem samtök bænda hafa, heldur en samtök verkamanna.

Búnaðarfélag Íslands og búnaðarsamböndin hafa á margan hátt reynt að greiða fyrir framkvæmdum í atvinnugreinum með beinum fjárframlögum, og ég tel, að hæstv. Alþ. hafi með l. lagt fjárbyrðar á þann félagsskap. Vil ég í því sambandi minna á samþykkt frá hæstv. Alþ., lög um jarðræktar- og húsagerðarsamþykktir í sveitum. Vil ég nú með leyfi hæstv. forseta lesa upp 5. gr. þeirra laga. Hún er þannig:

„Stjórn sambandsins annast með aðstoð Búnaðarfélags Íslands um eftirgreindar mælingar og athuganir á hverju samþykktarsvæði:

1. Stærð túna.

2. Stærð túnþýfis að flatarmáli á hverri jörð, sbr. bráðabirgðaákvæði jarðræktarlaganna frá 4. júlí 1942.

3. Ræktunarástand túnanna.

4. Skilyrði til nýræktar.

5. Framræslu á landi jarðarinnar og hvernig hún skuli unnin (vegna túnanna, fyrirhugaðrar nýræktar, engjaræktar og til hagabóta, ef þess er sérstaklega óskað).

6. Skilyrði til að gera engi véltæk eða auka þau.

7. Hvort einhverjar jarðir og þá hverjar falli undir ákvæði II. kafla jarðræktarlaga, nr. 54 4. júlí 1942, um búferlaflutning.

Kostnaður við athuganir og mælingar þær, er hér um ræðir, ásamt nauðsynlegri kortagerð greiðist að helmingi úr ríkissjóði, en hinn hlutinn greiðist að jöfnu af Búnaðarfélagi Íslands og hlutaðeigandi búnaðarsambandi.“

Ég ætla, að þetta sé gott dæmi um það, að öðruvísi stendur á um samtök bænda en samtök verkamanna, þegar jafnvel svo er ástatt, að löggjafarvaldið leggur útgjaldaskyldu á herðar Búnaðarfélagi Íslands og búnaðarsamböndunum. Menn sjá af þessari grein, að það er ekki lítið verk, sem þarna á að vinna. Vil ég ekki gizka á, hvað það kostar mikið, en hef heyrt, að það muni velta á milljónum. Nú gera lög þessi ráð fyrir, að bændur skuli greiða helming kostnaðar. Ef Búnaðarfélag Íslands hefur ekki meiri tekjur en það hefur haft undanfarin ár, þá væri ástæðulaust að ætla því og búnaðarsamböndunum að bera uppi helming þessa kostnaðar. Hér er gengið út frá því, að þessi félagsskapur fái fé úr ríkissjóði, eins og sjálfsagt er.

Ég vil benda hæstv. menntmrh. á þetta og verð að segja, að mín niðurstaða er sú, að þetta tvennt, verkamannasamtökin og samtök bænda, séu ekki að þessu leyti alveg sambærileg, heldur miklu fremur ósambærileg. Að öðru leyti vil ég ekki blanda mér inn í þær umr., sem urðu um þetta mál í gær.