15.11.1944
Neðri deild: 74. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 307 í B-deild Alþingistíðinda. (37)

183. mál, nýbyggingarráð

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. — Hæstv. forsrh. sagði hér áðan, að það gætti nokkurrar öfundar yfir því, að ríkisstjórnin beitti sér fyrir stórvægilegri stjórnarathöfnum en nokkur önnur ríkisstjórn hefur áður framkvæmt í landinu. Ég leyfi mér að draga í efa, að þetta sé ætlun hæstv. ríkisstjórnar, hvað þá að þetta verði svo í reyndinni. Ég leyfi mér að líta svo á, að auglýsing sú, sem ríkisstj. lét gefa út, sé svo lélega undirbúin, að það muni mjög fljótlega koma á daginn, þegar hún tekur að útfæra stefnuna. Þetta sést líka á því. að fyrsta frv., sem þessi ríkisstjórn leggur fyrir Alþ., er um það að setja n. til þess að athuga málin.

Hæstv. forsrh. sagði, að sér hefði skilizt, að það, sem aðallega bæri — á milli hans og Framsfl., væri það, að framsóknarmenn hefðu hugsað sér, að fram færu niðurfærslur verðlags og kaupgjalds í landinu, án þess að framleiðendur legðu nokkuð til af sinni hálfu. Mér þykir undarlegt að heyra þetta frá hæstv. forsrh. Hæstv, forsrh. veit, að tillögum framsóknarmanna hafa alltaf fylgt fjárframlög til þess að hefja nýsköpun atvinnuveganna. Hitt er annað mál, að núverandi forsrh. hefur verið allra manna tregastur til þess að ljá slíkum till. fylgi sitt. Aðeins eitt sinn náðist gott tak á hæstv. forsrh., og það var 1942, en það var ekki fyrir það, að hann þá í raun og veru vildi leggja mikið af mörkum.

Hæstv. forsrh. svaraði lítið því, sem ég hef tekið fram varðandi fullyrðingar hans um, að öllu sé óhætt enn þá. Hann hefur aldrei minnzt á þau dæmi, sem ég færði fram að þessu leyti, um það, hvernig komið er fyrir sjávarútveginum, hlutarsjómönnunum og smábátaútveginum, sem er þannig, að ef ekki er mokafli, þá getur sá rekstur ekki borið sig. Á þetta hefur hæstv. forsrh. ekki drepið í sinni ræðu, en aðeins lýst því yfir, að allt væri í lagi að þessu leyti. Hann sér ekki annað en togaraútgerðina. Hans sjóndeildarhringur er ekki víðari en það, að hann sér, að það er hægt að bjarga þessari atvinnugrein, og þá er allt í lagi.

Hæstv. forsrh. sagðist hafa litið svo á, að málamiðlun bænda hafi verið heppilegust fyrir þá sjálfa. Hæstv. forsrh. veit, að bændur áttu siðferðilegan rétt til þess að fá þær uppbætur, sem sexmannanefndin dæmdi þeim. Þeir féllu frá því að fá þá hækkun, sem um var að ræða á innlendum markaði, vegna þess að þeir féllust á hin almennu rök í þessu máli, og til þess að stöðva ekki atvinnuvegina, þótt þeir hefðu getað haft stundarhagsmuni af þessari hækkun. Það mælti því engin sanngirni með því, að bændur féllu frá þessari hækkun, og ef bændur hefðu haldið á þessu máli eins og verkfallsmenn, þá væru atvinnuvegirnir nú þegar stöðvaðir. En samt telur hæstv. forsrh. sér sæma að breyta skætingi til Framsfl. og bænda, sem áttu hlut að þessu máli. En mundi stjórnin ekki vilja gera sams konar samning við atvinnurekendur?

Hæstv. forsrh. sagði, að ríkisstjórnin hefði ekki átt neinn þátt í því, að atvinnurekendur gengu að kröfum verkamanna um kauphækkun. Gaman væri að vita, hvað lagsbræður hans í stjórninni segja sínum lagsmönnum um þetta. Hitt veit ég, af því að ég er þeim málum kunnugur, að ríkisstjórnin lagði fyrir atvinnurekendur að gera tilboð af sinni hálfu móti því, sem verkamenn höfðu farið fram á. Einu sinni gerði stjórn Félags ísl. prentsmiðjueigenda tilboð til móts við Prentarafélagið og óskaði eftir því, að það boð yrði lagt fyrir fund Prentarafélagsins. Þá fór stjórn Prentarafélagsins á fund ríkisstj. og kvartaði undan því, að ekki væri nógu langt gengið í þessu tilboði, og þá tók ríkisstjórnin upp till. í þessu máli, og kom því aldrei til ágreinings, vegna þess að ríkisstj. yfirbauð Fél. ísl. prentsmiðjueigenda, og endirinn varð sá, að kaupið hækkaði. Og svo leyfir hæstv. forsrh. sér að koma hér fram og berja sér á brjóst og segja, að ríkisstj. hafi engan þátt átt í því að hækka kaupið. Það eru þessi vinnubrögð, sem hafa skilið á milli afstöðu framsóknarmanna í þessu máli og þess hluta Sjálfstfl., sem lýtur forustu hæstv. forsrh. Við töldum það ekki sæma að vera með í ríkisstjórn bara með því að bændur slökuðu til, ef aðrar stéttir gerðu það ekki, og svo eykst ósamræmið með nýjum kauphækkunum.

Hæstv. forsrh. sagði, að sífellt væri verið að tala um hæst launuðu stéttirnar og stórtekjumennina. En hvað heldur hæstv. forsrh., að margir bændur hafi 20 þús. kr. í árstekjur og þar yfir? Hvort heldur hann, að sé algengara, að bændur hafi yfir eða undir 20 þús. kr. í árstekjur? Hæstv. forsrh. veit vel, að tekjur bónda, miðað við meðalbú, voru áætlaðar um 15 þús. kr. í fyrra og að þetta var síðar hækkað upp í 16500 kr. og síðan aftur lækkað niður í 15 þús. á sama tíma, sem aðrir menn, sem hafa yfir 20 þús. kr. tekjur, knýja fram kauphækkun. Þannig var líka ástatt í einni verstöð á síðustu vertíð, að á mótorbátunum voru fjörutíu útlendingar, vegna þess að innlendir menn vildu heldur vinna önnur störf í landi, sem betur borguðu sig.

Hæstv. forsrh. hefur stungið höfðinu ofan í sandinn. En skyldi hann ekki þurfa að taka hausinn upp til þess að anda og koma þá auga á þetta?

Hæstv. forsrh. sagði, að ég hefði sagt, að það væri þjóðlygi, að nokkurt vit væri í því að mynda stjórn, án þess að fram færi kauplækkun í landinu. Ég sagði þetta aldrei. Ég sagði, að þjóðlygin væri falin í því að reyna að telja mönnum trú um, að hægt væri að nýskapa atvinnuvegina á þeim grundvelli, sem nú á að byggja á. Þetta sagði ég, að væri þjóðlygi, og, ég vil endurtaka það, að þetta er þjóðlygi.

Hæstv. forsrh. vill komast hjá því að útskýra, hvað hann á við með 2. málsgr. 4. gr. En það, sem ég vildi fá að vita, er það, hvaða skilning hann leggur í þessa gr. Hvað mikið telur hann ríkisstj. heimilt að gera samkvæmt þessari gr.? Er ríkisstj. t.d. heimilt að ráðast í nýsköpun framleiðslutækjanna, ef þau seljast ekki fyrir fram? Ég tel það ekki heimilt. En telur hann það heimilt? Mér skildist nú síðast á honum, að hann teldi það ekki heimilt, þar sem hann sagði, að ríkisstj. yrði að koma til Alþ., ef hún vildi fá þetta fram. Ég vil biðja hæstv. forsrh. að upplýsa, hvort þetta er misskilningur. Þessi íhlutun getur ekki átt við annað en að greiða fyrir því, að menn fái þau tæki, sem þeir vilja kaupa, og hvetja menn á ýmsar lundir til þess að ráðast í framkvæmdir.

Hæstv. forseti er nú orðinn mjög óþolinmóður, og ég skal nú fara að ljúka máli mínu, en ég átti nokkuð eftir af því, sem vildi drepa á.

Ég held, að hæstv. forsrh. ætti ekki að minnast á Breta í þessu sambandi. Ég veit ekki, hvort hann hefur lesið svokallaða hvíta bók frá brezku nýsköpunarnefndinni. Þar er það tekið fram, að undirstaðan undir því, að nýsköpun geti átt sér stað, sé, að menn geti treyst á stöðugt verðlag og kaupgjald í landinu. Þess vegna ætti hann ekki að minnast á nýsköpunina brezku í sambandi við þessa pólitísku auglýsingu um fyrirætlanir ríkisstjórnarinnar.

Hæstv. forsrh. talaði um bjartsýni og svartsýni og að þessar umræður mundu spilla bjartsýni manna. Ég verð nú að segja það, að mér finnst óhugsandi annað en að þær röksemdir, sem ég hef komið með, hljóti að skjóta upp kollinum í huga hvers einasta manns, sem hugsar um þessi málefni.

Hæstv. forsrh. ætti að vera þakklátur fyrir þessa gagnrýni, því sé hún að ófyrirsynju, þá ætti hún að vera kærkomið tilefni fyrir hæstv. forsrh. til að nota tækifærið og hrekja þessar röksemdir og skýra fyrirætlanir ríkisstj. betur fyrir mönnum heldur en hann hefur hingað til gert.

Hæstv. forsrh. talaði um það, að ríkisstj. hefði lyft hugum landsmanna. Hann sagði nú fyrst, að hrifning hefði gripið ríkisstjórnina, en allir eiga nú leiðréttingu orða sinna. Ég veit ekki, hversu hátt hæstv. forsrh. hefur lyft hugum landsmanna, en ég held, að hann ætti að varast að lyfta hugum landsmanna hærra en það, að hann gæti haldið þeim þar, sem þeir stöðvast á uppleið, því að fallið gæti annars orðið óþyrmilega sárt.

Ég get ekki neitað því, að allt, sem fram kemur frá hæstv. forsrh., bendir til þess, að hann viti ekki sitt rjúkandi ráð, en þykist hafa fundið púðrið, og það er ef til vill það allra hættulegasta.