06.10.1944
Efri deild: 54. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 544 í C-deild Alþingistíðinda. (3719)

155. mál, nýbyggingarsjóður útvegsmanna

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. — Mér þykir vel, að þetta frv. hefur komið fram, og er margt í því, sem betur fer en nú er um nýbyggingarsjóð.

Þegar l. um nýbyggingarsjóð voru tekin inn í skattal. 1943 eftir till. okkar Alþýðuflokksmanna, var þar ýmislegt öðruvísi en við hefðum kosið. Við vildum sjálfstæðan sjóð, en ekki, að hann væri í vörzlu einstakra manna eða á nafni einstakra útgerðarmanna. Við héldum því fram, að nauðsynlegt væri að búa svo um hnútana, að fulltryggt væri, að nýbyggingarsjóður væri eingöngu notaður til nýbyggingar skipa. Þetta hefur hv. flm. tekið fullkomlega til greina í þessu frv.

Samkvæmt frv. á að tryggja, að útgerðarfélög, sem fé eiga í nýbyggingarsjóði, verði ekki gjaldþrota og að fyrirtækið eigi alltaf aðgang að jafnmikilli upphæð og það hefur lagt í sjóðinn. Við Alþýðuflokksmenn höfum oft hreyft því, að nauðsynlegt væri að halda sjóðnum opnum fyrir fleiri en útgerðarmenn eina. Þörfin er vissulega meiri en svo, að verjandi sé að meina þeim, sem vilja, að leggja fé sitt í sjóðinn. Ég vil ekki neita því, að ég hygg, að þessi leið verði ekki mikið notuð, nema hægt verði að veita einhverja skattaívilnun. Ég fellst á þá skoðun hv. flm., að þetta atriði heyrir frekar undir fjhn. og skattan.

Ég fagna því, að frv. þetta kom fram, og vona, að það nái fram að ganga. Vil ég þó vekja athygli á einu atriði, sem hv. flm. hefur sézt yfir, svo glöggur sem hann annars er um allt, sem útgerð viðkemur. Það skortir ákvæði í frv. um, að andvirði seldra fiskiskipa skuli renna í nýbyggingarsjóð. Það er kunnugt, að ýmis félög, sem seldu skip á s. l. ári, létu andvirðið fara í annað. Menn fá óhindrað að leggja andvirði seldra skipa í annað en til endurbyggingar skipa. Vil ég skjóta því til n. þeirrar, sem fær málið til meðferðar, hvort ekki væri hægt að skjóta inn ákvæði um þetta efni. Ætti það ákvæði að geta verkað aftur fyrir sig, eins og venja er nú um skattal., og gæti það þá náð til andvirðis skipa, sem seld voru á þessu ári. Sé ég ekki, að þetta geti valdið andstöðu gegn frv., slíkt ákvæði virðist í alla staði eðlilegt.