06.10.1944
Efri deild: 54. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 545 í C-deild Alþingistíðinda. (3721)

155. mál, nýbyggingarsjóður útvegsmanna

Flm. (Gísli Jónsson):

Ég þakka hv. 3. landsk. fyrir góðar undirtektir, og skulu ábendingar hans vissulega teknar til athugunar í sjútvn. Get ég lofað því, þar sem ég geri ráð fyrir, að sú n. fái málið til athugunar, en ég er form. hennar. Ég er sammála um, að rétt sé að láta andvirði seldra skipa renna í nýbyggingarsjóð. En ég skal ekki segja, hvort hægt er að láta slíkt ákvæði gilda um þær sölur, sem þegar hafa fram farið. Ég er þeirrar skoðunar, að það stappi svo nærri stjórnarskrárbroti, að vafasamt sé, að það standist hæstaréttardóm. En þetta skal allt verða tekið til athugunar í n., þegar málið kemur þar til umr.